13.11.1984
Sameinað þing: 19. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 973 í B-deild Alþingistíðinda. (685)

114. mál, Greiningastöð ríkisins

Fyrirspyrjandi (Svavar Gestsson):

Herra forseti. Ég hef leyft mér að bera fram við hæstv. félmrh. svofellda fyrirspurn:

„Hefur nefnd sú, sem skipuð var samkvæmt ákvæði til bráðabirgða II í lögum um málefni fatlaðra, nr. 41/1983, skilað áliti? Ef svo er, hvenær hyggst ráðh. gera grein fyrir áliti nefndarinnar og leggja tillögur hennar um framtíðarskipan Greiningarstöðvar ríkisins fyrir Alþingi til staðfestingar?“

Í ákvæði til bráðabirgða II í lögunum um málefni fattaðra segir svo:

„Félmrh. skal þegar í stað skipa fimm manna nefnd sem hafi það verkefni að gera tillögur um fyrirkomulag á framtíðarskipan Greiningarstöðvar ríkisins í samræmi við ákvæði 16. gr. Menntmrh. skipar einn fulltrúa frá Athugunar- og greiningardeildinni Kjarvalshúsi, heilbrrh. einn fulltrúa frá nýburadeild Landspítalans, félmrh. einn fulltrúa að fenginni tillögu svæðisstjórna, Landssamtökin Þroskahjálp og Öryrkjabandalag Íslands einn fulltrúa hvort.

Tillögur nefndarinnar skal leggja fyrir Alþingi til staðfestingar.“

Það eru þessar tillögur sem ég er hér að vitna til í fyrirspurninni og spyrja hæstv. ráðh. um hvenær hann hyggist leggja fyrir Alþingi, tillögur þeirrar nefndar sem hér um getur.

Um Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins er fjallað í IV. kafla laganna. Þar segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Auk þeirrar greiningarstarfsemi, sem fer fram á svæðunum skv. 6. gr. skal ríkið starfrækja eina aðalgreiningar- og ráðgjafarstöð, Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins, og heyrir hún undir félmrn. Hlutverk og starfssvið hennar er í aðalatriðum eftirfarandi:

1. Athugun, rannsókn og greining á fötluðum sem vísað er þangað eða leita þangað að eigin frumkvæði.

2. Gerð, prófun og mat viðeigandi meðferðar- og þjálfunaráætlana. Ráðgjöf og leiðbeiningar fyrir foreldra/forráðamenn eða aðra meðferðaraðila.

3. Langtímameðferð fyrir þá einstaklinga, sem þarfnast hennar, enda sé hún ekki fáanleg á öðrum stofnunum eða annars staðar.

4. Tilvísanir til annarra meðferðaraðila og stofnana í því skyni að hlutaðeigandi skjólstæðingur njóti þar þeirrar þjónustu og þjálfunar sem þörf er hverju sinni. Greiningar- og ráðgjafarstöðinni ber skylda til að láta meðferðaraðilum í té leiðbeiningar og ráðgjöf þegar þess er óskað.

5. Starfræksla leikfangasafn.

6. Þjálfun starfsstétta sem annast þjónustu við fatlaða skv. 6. og 7. gr.

7. Skráning og varðveisla upplýsinga um fatlaða í samvinnu við félags-, fræðslu- og heilbrigðisyfirvöld.

8. Veita svæðisstjórnum faglega aðstoð og vera umsagnaraðili varðandi þjónustu og vistun á stofnunum þegar þess er óskað.

9. Beita sér fyrir fræðilegum rannsóknum á sviði fötlunar og veita faglega ráðgjöf varðandi kannanir á högum fatlaðra í samvinnu við félmrn. og svæðisstjórnir.

10. Vera félmrn. til aðstoðar við útgáfu upplýsingabæklinga.

11. Hjálpartækjaþjónusta.“

Eins og sjá má af þessari upptalningu, herra forseti, er hér um viðamikið og flókið verkefni að ræða sem þessari stofnun er ætlað að sinna. Þegar þessi stofnun kom til meðferðar og umræðu hér á hv. Alþingi urðu nokkrar deilur um starfssvið hennar og hvernig hún ætti að haga vinnubrögðum sínum í framtíðinni. Niðurstaðan varð algert samkomulag hér á hv. Alþingi sem fulltrúar stjórnar og stjórnarandstöðu stóðu að. M.a. átti núv. hæstv. félmrh. aðild að því samkomulagi sem félmn.-maður á þeim tíma og beitti sér í nefndarvinnunni fyrir því að þetta samkomulag tókst. Þess vegna hefði ég talið að ekki ætti að vera neitt að vanbúnaði að leggja þessar tillögur hér fyrir hv. Alþingi. Því er fyrirspurnin fram borin.