13.11.1984
Sameinað þing: 19. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 976 í B-deild Alþingistíðinda. (690)

116. mál, verðjöfnunargjald af raforku

Fyrirspyrjandi (Margrét Frímannsdóttir):

Herra forseti. Fyrir u.þ.b. ári var tekið til umr. frv. sem fól í sér heimild til þess að innheimta verðjöfnunargjald af raforku til ársloka 1984. Gjaldið skyldi vera óbreytt og skipting þess einnig. Það eru sem kunnugt er kaupendur raforku frá Rafmagnsveitum ríkisins og Orkubúi Vestfjarða sem fyrst og fremst njóta góðs af þessari verðjöfnun.

Enginn efast í raun um að það var af nauðsyn sem verðjöfnunargjaldið var sett á. Kaupendur raforku frá þessum fyrirtækjum borguðu hæsta raforkuverð í landinu, en á undanförnum árum hefur dregið verulega úr þessum mun og allt stefnt í átt til jöfnunar, þ.e. þegar horft er, eins og við gerum svo gjarnan, á verðmun raforku til heimilisnota frá Rafmagnsveitum ríkisins og Orkubúi Vestfjarða annars vegar og Rafmagnsveitu Reykjavíkur hins vegar.

En hvað ef við skoðum ýmsar smærri veitur úti um landsbyggðina? Þar er útkoman ekki sú sama. Þessar smærri veitur selja margar rafmagn til heimilisnota á mun hærra verði en veiturnar tvær sem verðjöfnunargjaldsins njóta. Og það er ekki vegna þess að þessar veitur séu að safna gildum sjóðum. Rekstrarafkoma þeirra er mjög slæm og flestar eru þær stórskuldugar. Ef sérstök úttekt yrði gerð á rekstri þeirra yrði að öllum. líkindum lagt til að þeim yrði endurgreitt verðjöfnunargjald það sem innheimt hefur verið af raforkusölu þeirra, eins og reyndar hefur verið gert í einu tilviki. Það er því orðin spurning hvort verðjöfnunargjaldið stendur enn undir því hlutverki sem því var ætlað og hvort ekki þurfi að leita nýrra leiða til verðjöfnunar.

Það frv. sem ég gat um hér í upphafi og flutt var á árinu 1983 var ekkert nýnæmi hér á Alþingi. Sams konar frv. hafa verið lögð fram árlega í mörg ár og hv. alþm. farnir að líta á það nánast sem kunningja sem saknað er ef hann kemur ekki á tilsettum tíma.

Í umr. um frv. þetta á s.l. ári kom m.a. fram hjá hæstv. iðnrh. að hann mundi undirbúa áfangalækkun verðjöfnunargjalds eða niðurfellingu með breyttum álagningarreglum, en sjá jafnframt til þess að rekstrarafkoma raforkusölufyrirtækja í landinu yrði tryggð. Þar sem ekki bólar á frv. um áframhaldandi óbreytta innheimtu verðjöfnunargjalds spyr ég hæstv. ráðh.:

Hefur iðnrn. uppi áætlanir um breytingu á reglum um álagningu verðjöfnunargjalds af raforku á árinu 1985? Ef svo er, í hverju felst þá sú breyting?