13.11.1984
Sameinað þing: 19. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 982 í B-deild Alþingistíðinda. (700)

141. mál, útgjaldaauki ríkissjóðs vegna kjarasamninga

Fjmrh. (Albert Guðmundsson):

Herra forseti. Fyrirspyrjandi, hv. þm. Jón Baldvin Hannibalsson, hóf mál sitt með því að lesa upp fsp., sem til mín er beint á þskj. 146, og fannst mér hann vera að stefna í eina bestu ræðu sem ég hef heyrt hann flytja, en þau orð sem fylgdu upplestrinum voru eflaust sögð til að hefja hér almennar umr. um allt annað en spurt er um með stóryrtum fullyrðingum. Læt ég þeim ósvarað og held mig við að svara skriflegri fsp. á því þskj. sem ég gat um.

Svar við fsp. á þskj. 146, um útgjaldaauka ríkissjóðs vegna kjarasamninga opinberra starfsmanna, er: Kjarabreytingar, sem í samningi BSRB felast, hafa verið áætlaðar sem hér segir og eru þá laun í ágúst 1984 lögð til grundvallar: Hækkun launa í nóv. 10%, hækkun launa í des. 14.4% frá ágústlaunum og hækkun launa í maí 1985 18.24% frá ágústlaunum. Meðalhækkun launa á tímabilinu ágúst 1984 til des. 1985 er því 14.25%. Við þessa tölu má síðan bæta hækkun að því marki sem vaktaálag og persónuábót hækka umfram taxtabreytingar, svo og vegna sérgreiðslna í sept. og í nóv. Áhrif þessara breytinga eru rúmlega 2%, þannig að meðaltalið fyrir framangreint tímabil í heild verður 16.3% .

Áhrif samninganna á laun á árinu 1985 eru með sama hætti áætluð 17.25% til hækkunar. Í tölum þessum hefur ekki verið gert ráð fyrir áhrifum af sérkjarasamningi. Sé áætlað að af þeim leiði eins flokks hækkun að jafnaði verður heildarhækkunin fyrir árið 1985 21% miðað við laun í ágúst 1984.

Útgjaldaáhrif þessara samninga eru enn nokkuð óljós þar sem áhrif þeirra á aðra kjarasamninga eru ekki enn komin fram. Lausleg áætlun, sem miðar við það að aðrir launataxtar sem ríkið greiðir eftir hækki með svipuðum hætti og ákveðið er í kjarasamningum BSRB, gerir ráð fyrir því að þau launaútgjöld sem innt eru af hendi af launadeild fjmrn. hækki um nærri 240 millj. kr. umfram það sem orðið hefði að óbreyttum samningum. Með sömu forsendum er áætlað að launaútgjöld ríkissjóðs á árinu 1985 hækki um 955 millj. kr. frá því sem hefði verið með óbreyttum samningum. Af þessari fjárhæð fara um 430 millj. kr. til félaga í BSRB, en mismunurinn til þeirra sem taka laun hjá ríkinu skv. öðrum kjarasamningum.

Ótalin eru hér áhrif kjarasamninga á daggjaldagreiðslur Tryggingastofnunar ríkisins og aðrar hliðstæðar greiðslur og lífeyrisgreiðslur. Ætla má að þessir liðir hækki um ca. 150 millj. kr. á árinu 1984 og um ca. 600 millj. kr. á árinu 1985, taki þeir hliðstæðum breytingum og laun BSRB-manna.

Tekið skal fram að tölur þessar eru reiknaðar frá samningunum eins og þeir hefðu orðið að óbreyttu, en ekki frá grundvelli fjárlaga sem var nokkuð hærri.

Frá útgjaldaauka ársins 1984 má draga þá lækkun launagreiðslna sem varð í verkfalli BSRB. Frádráttur vegna fastra launa var um 100 millj. kr., en að auki má lauslega reikna með að lækkun yfirvinnugreiðslna á verkfallstímabilinu sé um 25 millj. kr. Á móti þessu kemur að ýmis þau verkefni sem ekki var sinnt í verkfallinu hafa hlaðist upp og biðu úrlausnar eftir að því lauk. Má gera ráð fyrir verulegri aukningu yfirvinnu af þeim sökum í nóvember og síðar, þannig að enn er óljóst hver lækkun launagreiðslna vegna verkfallsins verður í raun.