13.11.1984
Sameinað þing: 20. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 997 í B-deild Alþingistíðinda. (719)

124. mál, staðgreiðsla skatta

Flm. (Kristín Halldórsdóttir):

Herra forseti. Ásamt hv. þm. Sigríði Dúnu Kristmundsdóttur og Guðrúnu Agnarsdóttur leyfi ég mér á þskj. 128 að bera fram eftirfarandi till. til þál.:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að koma á staðgreiðslukerfi skatta eigi síðar en tveimur árum eftir samþykkt þessarar ályktunar.“

Í grg. með till. segir svo, með leyfi forseta:

„Fyrir tæpum 20 árum, eða árið 1965, lýsti þáverandi ríkisstjórn því yfir að hún vildi taka upp staðgreiðslukerfi skatta. Allar götur síðan hefur mikil vinna farið í undirbúning þess að taka upp slíkt kerfi og á þessum hartnær 20 árum hafa margar ríkisstjórnir haft staðgreiðslu skatta á stefnuskrá sinni. Tvisvar sinnum hafa verið lögð fram frv. um þetta efni, árin 1978 og 1981, án þess að hljóta endanlega afgreiðslu á þingi.

Með flutningi þessarar till. vilja fulltrúar Kvennalistans láta í ljósi afstöðu sína til þessa máls. sú afstaða mótast af hagsmunum skattgreiðenda og þá fyrst og fremst þeirra sem hafa sveiflukenndar tekjur. Má þar sérstaklega nefna sjómenn og fiskvinnslufólk, svo og konur sem þurfa að minnka við sig störf utan heimilis eða hverfa tímabundið af vinnumarkaði til að gæta bús og barna.“

Við flm. teljum tvímælalaust að staðgreiðsla skatta væri til mikilla bóta, henni fylgja margvíslegir kostir sem vert er að hafa í huga.

Í fyrsta lagi myndast ekki skattskuld hjá skattgreiðendum eins og nú er. En slík skuld kemur almennu launafólki oft illa í koll ef tekjur sveiflast frá ári til árs, eins og t.d. hjá sjómönnum, eða þeim sem veikjast og verða fyrir tekjuskerðingu af þeim sökum. Þá hefur staðgreiðslukerfið þann kost að það fylgir hagsveiflunni, ef svo mætti að orði komast, þ.e. það innheimtir mikla skatta á velgengnistímum og aftur minna á þeim tímum þegar illa árar. Með núverandi kerfi kemur innheimta af tekjum veltiárs næsta ár á eftir þegar aðstæður geta verið verri.

Í þriðja lagi má ætla að innheimta tekjuskatta verði betri þegar greitt er strax af tekjunum heldur en þegar á að gera grein fyrir tekjunum allt að ári síðar og greiða síðan skatta af þeim. Þetta er því atriði sem kæmi ríkiskassanum til góða. Í millitíðinni vilja oft myndast tækifæri til að láta tekjur „gleymast“ og gefa þær ekki upp. slík tækifæri koma að sjálfsögðu helst fyrir hjá sjálfstæðum tekjuaðilum og þeim sem betur eru settir, en almennt launafólk fær venjulegast allt gefið upp á sig. Þannig má ætla að staðgreiðslukerfið skapi betri heimtur sem óbeint komi launafólki til góða.

En kerfinu fylgja óneitanlega líka ókostir, einkum fyrir hið opinbera, og er þar líklega að finna meginástæðu þess að staðgreiðslu skatta hefur enn ekki verið komið á, þrátt fyrir ótvíræðan áhuga í öllum flokkum, að því er séð verður. Trúlega verður slíkt kerfi dýrara í rekstri, auk þess sem það kostar nokkra fyrirhöfn að koma því á. Þá hefur upptaka staðgreiðslukerfis það í för með sér að einu tekjuári verður að sleppa úr. Ef staðgreiðslukerfi væri t.d. tekið upp í byrjun næsta árs mundu skattar af því ári verða greiddir af tekjum ársins 1985, en skattar á þessu ári eru greiddir af tekjum ársins 1983, þannig að árið 1984 yrði í raun skattfrjálst. Gefur auga leið að allir mundu sem mest reyna að hnika tekjum sínum yfir á skattfrjálsa árið. Og fyrir slíkt er nú nokkuð mikið svigrúm, sérstaklega hjá þeim sem eru með sjálfstæðan rekstur. Svigrúm hins almenna launafólks er hins vegar ekkert.

En eins og ég sagði hér áðan, þrátt fyrir að þetta sé sennilega dýrara í rekstri, þá mundu skila sér, að við teljum, meiri tekjur til ríkissjóðs sem mundu vega þar talsvert upp á móti. Útkoman yrði því trúlega svipuð þegar allt kæmi til alls. Ég vil ítreka að það er fyrst og fremst með hagsmuni almenns launafólks í huga sem Kvennalistinn vill lýsa fylgi sínu við staðgreiðslukerfi skatta. Mætti hafa hér ýmis orð um það og nefna þá hópa sem mestan hag hefðu af slíku kerfi. Ég held þó að þess gerist naumast þörf. Það er í rauninni augljóst um hvaða hóp er fyrst og fremst að ræða. Það eru þeir sem, eins og segir í grg., hafa sveiflukenndar tekjur og t.d. þeir sem eru að minnka við sig launuð störf. Við getum nefnt konur sem kjósa að helga sig heimili og barnauppeldi um skeið. Við getum nefnt fólk sem minnkar við sig launuð störf vegna sjúkleika eða aldurs. Við getum nefnt fólk sem fer til náms eftir að hafa stundað launuð störf um lengri eða skemmri tíma. Og við getum nefnt fólk sem stundar ígripavinnu, t.d. við sjávarútveg, sem gefur ákaflega sveiflukenndar tekjur og oft miklar tekjur sem viðkomandi hafa ekki alltaf möguleika eða forsjálni til að geyma að hluta til til greiðslu á sköttum.

Við þekkjum áreiðanlega öll til einhverra slíkra tilvika þar sem viðkomandi hefði skipt það miklu máli að sitja ekki uppi með skuldabagga vegna vangoldinna skatta. Og ég vil aðeins að lokum taka það fram að við flm. þessarar till. teljum ástæðu til að ætla að staðgreiðslukerfi skatta eigi sér fylgi innan allra flokka og stjórnmálasamtaka sem nú eiga fulltrúa á Alþingi. Með afgreiðslu þessarar þáltill. kæmi þá í ljós hvort um meirihlutafylgi er að ræða.

Herra forseti. Að lokinni þessari umr. legg ég til að þetta mál fari til hv. allshn.