14.11.1984
Neðri deild: 12. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 1020 í B-deild Alþingistíðinda. (727)

51. mál, endurmat á störfum láglaunahópa

Flm. (Jóhanna Sigurðardóttir):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til laga um endurmat á störfum láglaunahópa á þskj. 51. Flm. ásamt mér eru hv. þm. Guðrún Agnarsdóttir, Guðrún Helgadóttir, Kristófer Már Kristinsson, Kristín Halldórsdóttir, Guðmundur Bjarnason og Pétur Sigurðsson.

Í 1. gr. þessa frv. segir að markmið þessara laga sé að fá fram hlutlausa rannsókn og endurmat á kjörum og störfum láglaunahópa, svo og úttekt á hlut þeirra í tekjuskiptingu og launakjörum í þjóðfélaginu.

Þegar frv. þetta var til umr. á síðasta þingi hlaut það góðar undirtektir við 1. umr. og meðal annars lýsti hæstv. félmrh. stuðningi við frv. Þó frv. hafi verið lagt fram í byrjun síðasta þings eða í októbermánuði fékk það litla sem enga umfjöllun í félmn. Nd. Engu að síður bárust allmargar umsagnir um frv. og þykir mér rétt að gera í stuttu máli nokkra grein fyrir þeim umsögnum.

Í umsögn Kvenfélagasambands Íslands kemur fram að Kvenfélagasambandið telur brýnt að störf láglaunahópa verði endurmetin og fagnar því lagafrv. sem fram er komið um þetta mál.

Í umsögn frá stjórn Farmanna- og fiskimannasambands Íslands kemur fram að stjórnin álítur að þær hugmyndir sem fram eru settar í frv. séu mjög af því góða, svo sem allar rannsóknir sem sýnt geta fram á hver raunveruleg kjör þeirra manna eru sem í landinu búa.

Í umsögn framkvæmdanefndar um launamál kvenna kemur fram að nefndin fagnar fram komnu frv. og tekur sem slík undir markmiðsgrein þess. Ljóst sé að hin svokölluðu kvennastörf séu lægst metin á almennum vinnumarkaði og brýnt sé að leita leiða til þess að þau störf njóti sama réttar og önnur störf sem eru hærra metin. Endurmat og hlutlaus rannsókn á störfum og kjörum láglaunahópa og úttekt á tekjuskiptingunni í þjóðfélaginu virðist sjálfsögð byrjun á því máli og fellur að þeim verkefnum sem framkvæmdanefnd um launamál kvenna hefur sett sér að vinna.

Í umsögn Kvenréttindafélags Íslands kemur fram að stjórnin fagnar fram komnu frv. og telur það gott framlag til þeirrar umr. sem fram hefur farið undanfarið um kjör láglaunahópa og þá sérstaklega kjör kvenna á vinnumarkaðinum. Í umsögn sinni greinir Kvenréttindafélagið nokkuð frá samantekt um stöðu kvenna á vinnumarkaðinum sem framkvæmdanefnd um launamál kvenna lét gera. Síðan segir í umsögn Kvenréttindafélags Íslands, með leyfi forseta:

„Stjórn Kvenréttindafélags Íslands telur því nauðsynlegt að fram fári víðtæk rannsókn á því hvers vegna konur eru lakar launaðar en karlar í þjóðfélaginu og það við mjög sambærileg störf. Stjórn KRFÍ tekur ekki afstöðu til þess hvort Kjararannsóknarnefnd eða sérstök láglaunanefnd framkvæmi slíka rannsókn, en bendir á að Jafnréttisráð er e.t.v. þriðji valkosturinn.“

Í umsögn Starfsmannafélagsins Sóknar kemur eftirfarandi fram, með leyfi forseta:

„Frv. gerir ráð fyrir að gerð verði mjög yfirgripsmikil rannsókn um endurmat á störfum og kjörum láglaunahópa, svo og úttekt á hlut þeirra í tekjuskiptingu og launakjörum í þjóðfélaginu. Varðandi 2. gr. telur stjórn Starfsmannafélagsins Sóknar að láglaunanefnd eigi að kalla til sín til samráðs fulltrúa frá verkalýðssamtökum og Jafnréttisráði. stjórn Starfsmannafélagsins Sóknar telur það rétt að ríkissjóður beri kostnað af slíkri könnun sem kemur þjóðfélaginu til góða. Stjórn Starfsmannafélagsins Sóknar er hlynnt þessu frv. og telur það mjög brýnt.“

Efnislega samhljóða umsögn sóknar er umsögn frá Verkakvennafélaginu Framsókn.

Í umsögn frá Jafnréttisráði kemur fram að Jafnréttisráð lýsir ánægju sinni með fram komið frv. og telur mjög brýnt að skipuð verði láglaunanefnd eins og gert er ráð fyrir í frv. Jafnréttisráð vill þó gera athugasemd við skipan nefndarinnar og telur nauðsynlegt að í nefndinni sitji einhver sem vinni láglaunastörf og að nefndin sé skipuð bæði konum og körlum.

Í umsögn Kjararannsóknarnefndar kemur fram að í ljósi þess að samtök þau sem að Kjararannsóknarnefnd standa hafi haft málið til umsagnar hafi verið ákveðið að verða ekki við beiðni um umsögn og vísað til umsagnar viðkomandi samtaka.

Í umsögn ASÍ kemur fram að efni frv. sé í ýmsum atriðum hliðstætt þáltill. um kannanir á tekjuskiptingu og launakjörum sem samþykkt var á Alþingi 28. apríl 1980. Varðandi þessi atriði vísar ASÍ til sameiginlegar umsagnar ASÍ, VSÍ og VMSÍ sem fylgdi með.

Ég tel rétt að geta um í þessu sambandi að þessir aðilar voru samþykkir því, þegar þeir sendu umsögn til Alþingis 1980, að kannanir færu fram á tekjuskiptingu og launakjörum í þjóðfélaginu, en það er hluti af efni þessa frv. Þrátt fyrir að fjögur ár séu nú liðin frá því að till. þessi var samþykkt á Alþingi hefur framkvæmdavaldið ekki farið að efni þessarar till. og ekki hefur farið fram sú úttekt á tekjuskiptingu og launakjörum sem framkvæmdavaldinu var falið af Alþingi að framkvæma. Var það ekki síst þess vegna sem flm. þessa frv. sáu ástæðu til að flytja um það sérstakt frv. til að skylda framkvæmdavaldið til að framkvæma fyrrnefnda könnun.

Í umsögn Alþýðusambands Íslands segir síðan m.a., með leyfi forseta:

„Miðstjórn Alþýðusambandsins harmar það viðhorf, sem í frv. opinberast, að samtökum vinnumarkaðarins er ætlaður lítill hluti í starfi láglaunanefndar, en er hins vegar uppálagt að greiða kostnað af starfseminni. Alþýðusambandið frábiður sér skattheimtu af því tagi og bendir á að slíkt hátterni brýtur beinlínis í bága við samþykkt ILO sem staðfest er af hinu háa Alþingi.“

Fram kemur að ítarlegar kannanir á stöðu hinna ýmsu þjóðfélagshópa verði ekki hristar fram úr erminni. Slíkar kannanir kosti mikið fé og þeim verði að ætla rúman tíma. Upplýsingar séu helsta forsenda skoðanamyndunar, en þegar um svo flókið mál er að tefla sem kjaramál og þjóðfélagsstöðu reynist þær sjaldan svo einhlítar að ágreiningsmálin leysist sjálfkrafa. Í lokin ítrekar miðstjórn AST fyrri umsókn um kannanir á úttekt á tekjuskiptingu og launakjörum í þjóðfélaginu og mælir gegn því að frv. verði samþykkt í núverandi mynd.

Í umsögn Verkamannasambands Íslands segir að í frv. sé hreyft mjög athyglisverðu og nauðsynlegu máli. Á þetta sérstaklega við um þá könnun sem 3. gr. staflið a gerir ráð fyrir, sbr. einnig staflið e, en í staflið a kemur fram að upplýsa eigi hvernig raunveruleg tekjuskipting og launakjör séu innan starfsgreina og milli og þeirra og í staflið e að gera sérstakan samanburð á launum og öðrum kjörum sambærilegra láglaunahópa er starfa hjá hinu opinbera annars vegar og á almenna vinnumarkaðinum hins vegar. Verkamannasambandið mælir mjög eindregið með því að slík könnun verði látin fara fram. Raunar þyrfti könnun af þessu tagi að vera reglubundin, t.d. á fimm eða tíu ára fresti, segir í umsögn Verkamannasambands Íslands.

Enn fremur er Verkamannasambandið eindregið meðmælt tekjuskiptingar- og launakjarakönnun af þessu tagi, en bendir á ýmsa ágalla á frv. sem sniða þyrfti af áður en það yrði að lögum. Er þar tilnefnt að það sýnist með öllu óeðlilegt að aðilar vinnumarkaðarins, sem svo eru nefndir, eigi ekki beina aðild að könnun þessari og langeðlilegast sýnist að fela rannsóknina Kjararannsóknarnefnd, t.d. í samvinnu við félagsvísindadeild Háskóla Íslands, og að nefndinni verði tryggt það fjármagn sem til þarf.

Einnig segir að fráleitt sé að Alþingi ákveði einhliða með lagabreytingu að leggja kostnað af þeim störfum sem frv. gerir ráð fyrir á verkalýðssamtökin nema um það sé samið sérstaklega. Að lokum segir að Verkamannasambandið telji hæpið að blanda saman hjá einum aðila rannsókn og starfsmati svo sem frv. gerir ráð fyrir. Kerfisbundið starfsmat hafi víða farið fram í þjóðfélaginu og ávallt verið unnið sameiginlega af viðkomandi samningsaðilum og þá gjarnan með einhvers konar oddamanni ef aðilar hafi ekki náð saman með öðrum hætti. Sumt af því efni sýnist einnig býsna erfitt í framkvæmd t.d. stafliður b í 3. gr., en þar er um að ræða skilgreiningu á hvað er láglaunahópur og hverjir skipa slíka hópa. VMSÍ sýnist því eðlilegt að fyrsta verkefnið sé að ljúka könnuninni og taka hinn þáttinn fyrir á eftir. Verkamannasambandið minnir á að til þess að kerfisbundið starfsmat gagnist fólki til aukinna launa og betri vinnuskilyrða þurfi um það að vera fullt samkomulag milli aðila.

Í umsögn fjmrn. er bent á að trúlega mætti vinna könnun þessa með ódýrari hætti ef nýtt yrði sú reynsla og aðstaða sem er fyrir hendi hjá þeim sem hingað til hafa fengist við kjararannsóknir.

Enn fremur segir í umsögn fjmrn., með leyfi forseta: „Flestum er kunnugt um að launakjör eru ákveðin með samningum, bæði samningum milli félags vinnuveitenda og félags launþega og samningum milli einstakra vinnuveitenda og einstakra félaga. Launakjör sem þannig eru ákveðin og sú skipting í hálauna-, millilauna- og láglaunahópa, sem þar kemur fram, er starfsmat sem trauðla verður gert með nefndarskipan eða a.m.k. ekki meðan kjör eru ákveðin í samningum milli aðila vinnumarkaðarins. Að sjálfsögðu getur starfsmat, unnið af sérfræðingum á vísindalegum grundvelli, komið að gagni við ákvörðun launa og launahlutfalla. Slíkt mat getur þó ekki þjónað tilgangi sínum nema það sé viðurkennt af báðum samningsaðilum því nauðsynlegt er að þeir standi báðir sameiginlega að gerð þess.“

Vegna þessara athugasemda fjmrn. skal á það bent og einnig vegna þess sem fram kemur bæði í umsögnum ASÍ og VSÍ, sem ég geri grein fyrir hér á eftir, að þess misskilnings virðist gæta í umsögnunum að fari slík úttekt fram á tekjuskiptingu og launakjörum og í kjölfar þess endurmat á störfum láglaunahópa, sem framkvæmt yrði af sérfróðum aðilum í vinnumarkaðsmálum, vinnurannsóknum og starfsmati, eins og ráð er fyrir gert í frv., þá verði slíkt starfsmat ákvarðandi um launakjör fyrir aðila vinnumarkaðarins. Þetta er alrangt, eins og fram kemur í greinargerð með þessu frv., en þar segir, með leyfi forseta:

„Hér er vissulega um erfitt, viðkvæmt og vandasamt verkefni að ræða, en engu að síður er orðið knýjandi og brýnt að í það sé ráðist. Ef vel tekst til hjá nefndinni gætu niðurstöður hennar orðið grundvöllur þess að láglaunahóparnir fengju réttlátt mat og sanngjörn laun fyrir sín störf. Auk þess“, segir í grg., „hefði niðurstaða nefndarinnar mikið upplýsingagildi og gæti verið leiðbeinandi við gerð kjarasamninga og þær ráðstafanir sem gerðar eru til að bæta kjör hinna lægst launuðu.“

Hér er beinlínis tekið fram að það endurmat sem fram á að fara eigi að vera leiðbeinandi við gerð kjarasamninga, en ekki að niðurstaða nefndarinnar skuli gilda sem ákvörðun um launahlutföll í landinu.

Í umsögn Vinnuveitendasambands Íslands kemur fram að Vinnuveitendasambandið taki undir þau sjónarmið sem að sumu leyti virðist liggja til grundvallar flutningi frv. þessa, þ.e. að efla kjararannsóknir og afla sem víðtækastrar vitneskju um vinnumarkaðsmál almennt. Á það er bent að að þessu verkefni starfi ýmsir aðilar, en þó fyrst og fremst Kjararannsóknarnefnd sem starfi á grundvelli sérstaks samkomulags milli aðila vinnumarkaðarins. Vinnuveitendasambandið telur að störf Kjararannsóknarnefndar séu mikilvæg í þessu efni og bindur vonir við að á næstunni takist að efla þau enn. Fær VSÍ ekki séð að von sé á meiri árangri annarra í þessu efni, enda byggist starf Kjararannsóknarnefndar á áralangri reynslu og þekkingu sem aðrir hafa vart til að bera.

Síðan bendir Vinnuveitendasambandið á að það megi heita undantekningarlaus regla að öllum störfum sé raðað í einhvern hinna 24. launaflokka hins samræmda launastiga sem samstaða er um milli ASÍ og VSÍ. Röðun í framangreinda launaflokka byggist að sjálfsögðu, að því er segir í umsögn VSÍ, á mati samningsaðila á eðli starfa, þ.m.t. menntunarkröfu, ábyrgð, vinnuálagi, áhættu, óþrifnaði, erfiði og öðrum þáttum er áhrif kunna að hafa á kaup og kjör. Síðan segir að Vinnuveitendasamband Íslands fái ekki séð annað form á starfsmati en það sem birtist í frjálsum samningum milli aðila vinnumarkaðarins geti haft þýðingu ef áfram á að leggja til grundvallar samningsfrelsi á vinnumarkaðinum.

Ég sé ástæðu til að ítreka, herra forseti, vegna þeirra orða sem þarna koma fram, eins og ég áður greindi frá, að hér er um mikinn misskilning að ræða á því frv. sem hér er lagt fram því einungis er ætlunin að sú úttekt sem á að fara fram skv. efni þessa frv. og endurmat á störfum láglaunahópanna verði leiðbeinandi við gerð kjarasamninga er gætu orðið grundvöllur þess að láglaunahópar fengju réttlátt mat og sanngjörn laun fyrir sín störf.

Ég sé ástæðu, herra forseti, til þess að ítreka þetta þegar svo villandi túlkun er uppi í umsögn eins og hjá VSÍ og reyndar ASÍ einnig, enda segir áfram í umsögn Vinnuveitendasambands Íslands:

„Sé það hins vegar mat löggjafans að laun og launahlutföll eigi að ákveða með öðrum hætti, t.d. með löggjöf líkt og þekkist í mörgum ríkjum utan Vestur-Evrópu, væri sú skipan sem frv. gerir ráð fyrir, þ.e. að laun og launahlutföll skuli ákveðin að bestu manna yfirsýn, fullkomlega eðlileg.

Ég ítreka að það ber að harma að VSÍ skuli hafa svo villandi túlkun upp í sinni umsögn um þetta frv., eins og þessar setningar gefa tilefni til að ætla, þegar markmið frv. er allt annað en það að lögfesta hvernig tekjuskiptingu eða launahlutföllum skuli háttað hér á landi.

Að lokum mótmælir Vinnuveitendasambandið kostnaðarþátttöku aðila vinnumarkaðarins vegna þeirra starfa sem fram eiga að fara skv. efni frv. og mælir að lokum gegn samþykkt þess.

1. flm. þessa frv. bárust einnig umsagnir nokkurra stéttarfélaga um þetta mál.

Í umsögn Félags bókagerðarmanna kemur fram að stjórnin álítur að það beri að fagna flutningi þessa frv. og óskar því góðs gengis í gegnum Alþingi og hefur stjórnin engar athugasemdir eða ábendingar fram að færa við efni frv.

Í bréfi Fósturfélags Íslands kemur fram að Fósturfélag Íslands lýsir ánægju sinni með framkomið frv. um endurmat á störfum láglaunahópa. Fósturfélagi Íslands finnst löngu tímabært að metið verði hvað sé láglaunahópur án tillits til kynferðis, en lýsir engu að síður yfir efasemdum um að nefnd sérfróðra aðila geti verið hlutlaus.

Í umsögn Félags háskólamenntaðra hjúkrunarfræðinga kemur fram að stjórn félagsins hefur kynnt sér efni frv. og lýsir yfir ánægju sinni með frv. Bendir stjórnin jafnframt á hvort ekki væri viðeigandi að kveðja til ráðuneytis aðila frá Bandalagi háskólamanna þar eð innan bandalagsins eru fagfélög þar sem meiri hluti félagsmanna eru konur í hefðbundnum kvennastörfum.

Í umsögn Félags ísl. sjúkraþjálfara kemur fram að félaginu þykir mjög tímabært að slíkt frv. komi fram og lýsir yfir ánægju með efni frv.

Það sem er raunar athyglisvert við þessar umsagnir er að sjö stéttarfélög, sem senda umsögn um þetta mál, lýsa jákvæðri afstöðu við efni þessa frv. og mæla með samþykkt þess, en í umsögnum heildarsamtaka launafólks, eins og Bandalags starfsmanna ríkis og bæja og þó sérstaklega Alþýðusambands Íslands og Vinnuveitendasambands Íslands, þó að lýst sé nauðsyn á að fram fari ítarleg úttekt á tekjuskiptingu og launakjörum í þjóðfélaginu, þá hefur sérstaklega Alþýðusamband Íslands efasemdir um einstakar greinar frv. Eins er á það að benda að kvennasamtökin í landinu, svo sem Kvenfélagasamband Íslands, Kvenréttindafélag Íslands, framkvæmdanefnd um launamál kvenna svo og Jafnréttisráð, lýsa öll jákvæðu viðhorfi til efnis þessa frv. svo og Farmanna- og fiskimannasambandið eins og áður er getið.

Ég tel, herra forseti, að í heild megi líta á þessar umsagnir þannig, að nauðsynlegt sé að fram fari mjög ítarleg úttekt á tekjuskiptingu og launakjörum í þjóðfélaginu. En ég harma þá villandi túlkun sem kemur fram í umsögn Vinnuveitendasambands Íslands. Annaðhvort misskilja þessir aðilar vísvitandi efni þessa frv. eða hafa hreinlega ekki skilið tilganginn eða markmiðið með framlagningu þessa frv.

Á síðasta þingi, þegar þetta mál var til 1. umr., flutti ég mjög ítarlega ræðu um nauðsyn þess að úttekt yrði gerð á tekjuskiptingu og launum í þjóðfélaginu og að endurmat færi fram á stórfum láglaunahópa. Ég sé ekki ástæðu, herra forseti, til þess að fara í gegnum alla þá efnisþætti, eins og ég gerði á síðasta þingi, en vil engu að síður reifa örfá atriði.

Síðan þetta frv. var lagt fram á síðasta þingi höfum við enn einu sinni gengið í gegnum miklar kjaradeilur. Ég tel að hafi efni þessa frv. verið tímabært á síðasta þingi sé það ekki síður nú. BSRB-menn hafa með nokkrum rétti haldið fram sinni sérstöðu í þeirri kjaradeilu sem uppi hefur verið. Þeir hafa byggt sínar kröfur að miklu leyti á því að miklar yfirborganir eigi sér stað á vinnumarkaðnum og ýmsar hlunnindagreiðslur sem bæti upp kauptaxtana hjá stórum hópi á almenna vinnumarkaðnum. Þeir hafa bent á, og þá ekki síst kennarastéttin, að störf þeirra séu mjög vanmetin og krafist endurmats á störfum sínum og raunar uppstokkunar á launakerfinu. Það er einmitt um þetta mál sem frv. þetta fjallar. Hlutlaus úttekt og endurmat eru tvímælalaust nauðsynleg á launakjörum og störfum í þjóðfélaginu, ekki síst fyrir aðila vinnumarkaðarins, til þess að geta lagt sanngjarnt mat á vinnuframlag láglaunahópa og eðlilega hlutdeild þeirra í tekjuskiptingunni.

Með þessu frv. er einnig stefnt að því að fá fram upplýsingar sem eru mikilvægar fyrir stjórnvöld því að á grundvelli þeirra mætti gera sér betur grein fyrir því hvaða aðferðum sé hægt að beita til að bæta kjör þeirra sem verst eru settir. Meginmarkmið rannsóknarinnar er að fá fram mat sérfróðra aðila á því hvort störf láglaunahópanna, og þá ekki síst hefðbundin kvennastörf í þjóðfélaginu, séu óeðlilega lágt metin miðað við önnur sambærileg störf á vinnumarkaðnum. Sérstaklega skal athuga hvort nægilegt tillit sé tekið til ýmissa krefjandi eðlisþátta í vinnuframlagi láglaunahópanna við ákvörðun á kauptöxtum og flokkaröðun. Nauðsynlegt er einnig að fá fram samanburð og mat á því hvort ekki hafi þróast hér óeðlilegt tekjubil milli starfsstétta í þjóðfélaginu, þ.e. hvort launakjör einstakra hálaunastétta eða hærri launaðra stétta í þjóðfélaginu sé í eðlilegu samræmi við laun láglaunahópa og vinnuframlag þeirra til þjóðarbúsins.

Til þess að hægt sé að leggja á það réttlátt mat þarf að fá upp á borðið hina raunverulegu tekjuskiptingu í þjóðfélaginu. Ég hef ítrekað bent á það hér á hv. Alþingi að nauðsynlegt sé að fá fram hvað yfirborganir, kaupaukarnir, ómælda yfirvinnan, bílastyrkirnir og duldu greiðslurnar á vinnumarkaðnum, séu mikill hluti af raunverulegri tekjuskiptingu í þjóðfélaginu, hver er hlutur láglaunahópanna í því sem greitt er fram hjá kjarasamningum og hvort reyndin sé ekki orðin sú að að stærstum hluta séu það ófaglærða verkafólkið og konurnar sem sitji eftir á töxtunum og hlutdeild þeirra í yfirborgunum og kaupaukum sé lítil.

Ég tel að forsendan fyrir því að hægt sé að koma á hér sanngjarnri tekjuskiptingu sé að þessar upplýsingar liggi fyrir. Á annan hátt sé ég ekki að hægt sé að jafna með skynsamlegum hætti tekjuskiptinguna í þjóðfélaginu.

Það er gjarnan talað um að það sé verðmætasköpunin sem skipti máli, sem sé grundvöllur þess sem til skiptanna er í þjóðfélaginu. Það er auðvitað ljóst að verðmætasköpunin hvílir ekki síst á hinu óbreytta verkafólki, láglaunafólkinu sem þungi framleiðslunnar hvílir á. Við getum tekið sem dæmi að í landbúnaði, í fiskvinnslunni, í iðnaðinum, við fiskveiðarnar, öllum okkar helstu framleiðsluskapandi atvinnugreinum, unnu ófaglærðir 16 461 ársverk af 25 802 ársverkum á árinu 1982 eða 64% af öllum ársverkum í þessum greinum. Í þessum greinum unnu eigendur og þeir sem unnu við sérfræði- og stjórnunarstörf 9% af öllum ársverkum. Ársverk faglærðra og skrifstofustörf voru 26% af heildarársverkum. Markmið þessa frv., sem felur í sér hlutlausa rannsókn og endurmat á störfum og kjörum láglaunahópa, er í raun og veru um að breytt verði verðmætamati á vinnuframlagi í þjóðfélaginu þannig að a.m.k. vottur af samsvörun sé milli afraksturs vinnu láglaunahópanna í þjóðfélaginu fyrir þjóðarbúið og þess sem þeir bera úr býtum.

Það er erfitt að sjá hvaða þjóðfélagslegt réttlæti er í því að fólk, sem slítur sér út fyrir aldur fram með líkamlegri erfiðisvinnu og vinnuþrælkun við undirstöðuatvinnugreinar þjóðfélagsins, skuli varla eiga fyrir nauðþurftum meðan aðrir, sem ekki verður séð að leggi meira vinnuframlag fram til þjóðarbúsins, lifa við kjör sem svo mikill munur er á sem raun ber vitni.

Það hefur oft verið talað um að þá misskiptingu, sem er á lífskjörum í þessu landi, megi ekki síst rekja til þess að sumir séu í aðstöðu til að skammta sér ekki aðeins laun, heldur einnig ákveða hvað þeir greiði til samfélagslegra þarfa. Í till. sem við þm. Alþfl. höfum lagt fram um aðgerðir gegn skattsvikum, sem samþykkt var sem ályktum Alþingis á síðasta þingi, er lögð áhersla á að endurskoða þurfi það launamat sem lagt er til grundvallar hjá einstaklingum með atvinnurekstur. Ég er eindregið þeirrar skoðunar að það launamat sem lagt er til grundvallar eða viðmiðunarreglur er taka til ákvörðunar reiknaðs endurgjalds hjá einstaklingum í atvinnurekstri séu allt of lágar. Við álagningu skatta 1983 vegna tekna 1982 voru t.a.m. viðmiðunartekjur einstaklinga í atvinnurekstri, sem ríkisskattstjóri ákvarðar, ákvarðaðar frá 95 þús. kr. og þær hæstu voru 279 þús. kr. á ári. Til samanburðar má taka launþega á árinu 1982, en á árinu 1982 var lágmarkstekjutrygging 82 þús. kr. Árstekjur samkvæmt úrtaki Kjararannsóknarnefndar voru á árinu 1982 hjá konum 106 þús. kr. upp í 165 þús. kr. og hjá karlmönnum frá 150 þús. upp í 232 þús. Niðurstaðan er sú skv. þessu að þeir sem vinna einir við eigin atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi geta ákvarðað sér lægri laun en konur sem lægst höfðu launin skv. úrtaki Kjararannsóknarnefndar, þ.e. konur í fatasaumi sem höfðu samkvæmt úrtakinu 106 þús. kr. árstekjur, en samanborið við það voru lægstu viðmiðunarreglur samkvæmt ákvörðun ríkisskattstjóra á árinu 1983 vegna tekna 1982 aðeins 95 þús. kr.

Þegar rætt er um hvernig tekjuskipting er háttað hér á landi og hver hin raunverulegu launa- og lífskjör eru hljóta þessir þættir einnig að koma til skoðunar því hvað menn greiða til samneyslunnar er snar þáttur af lífskjörum hvers og eins.

Ég hef hér greint frá þeim viðmiðunarreglum sem útgefnar voru af ríkisskattstjóra vegna skattframtala 1983, þ.e. vegna tekna við eigin atvinnurekstur 1982. En þær reglur segja auðvitað ekki alla söguna því þegar upp er staðið hlýtur, ef samanburð á að gera á tekjum launþega uppgefnum til skatts og hins vegar reiknuðum launum við eigin atvinnurekstur, að verða að líta á hverjar eru hinar raunverulega framtöldu tekjur til skatts.

Ef málefnaleg umræða á að fara fram um tekjuskiptingu og lífskjör í þjóðfélaginu verða að liggja fyrir upplýsingar um stöðuna eins og hún blasir við. Í nmr. hér um daginn um fsp. mína til hæstv. fjmrh. um þál. um aðgerðir gegn skattsvikum gerði ég þann þátt sem snýr að launamati og framtöldum tekjum vegna reiknaðs endurgjalds í atvinnurekstri að umtalsefni og studdist þar við opinber gögn máli mínu til stuðnings. Hæstv. fjmrh. brást ókvæða við og taldi mig vera að misnota opinber gögn og gera framtöl atvinnurekenda tortryggileg. Ég sé ekki af hverju einhver leynd þarf að ríkja yfir hverjar séu heildartekjur einstaklinga framtaldar til skatts og hverjar séu framtaldar tekjur vegna reiknaðs endurgjalds af eigin atvinnurekstri. Hér er um að ræða upplýsingar sem snerta tekjuskiptinguna í þjóðfélaginu og þau mál þurfa alþm. og aðrir, sem ákvarðanir taka í þjóðfélaginu er lúta að tekjuskiptingunni, að vera upplýstir um.

samkvæmt opinberum gögnum um álagningu skatta fyrir árið 1984 vegna tekna ársins 1983 kemur fram að rúmlega 133 þús. launþegar höfðu samkvæmt framtöldum tekjum til skatts rúmar 26 milljarða kr. í tekjur á árinu 1983. Meðaltal tekna allra launþega samkvæmt þessum upplýsingum var því á árinu 1983 195 þús. kr. Reiknuð laun við eigin atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi sýna að framtaldar tekjur undir þessum lið vegna eigin atvinnurekstrar voru tæplega 2.5 milljarðar kr. og fjöldi framteljenda var 21 367. Ef tekið er meðaltal af framtöldum reiknuðum launum við eigin atvinnurekstur á árinu 1983 vegna skattaframtala 1984, miðað við þessar tölur, er um að ræða 116 þús. kr. í meðaltalstekjur á árinu 1983 vegna reiknaðra launa við eigin atvinnurekstur.

Í leiðbeiningum við útfyllingu skattframtala einstaklinga 1984 eru reiknuð laun vegna eigin atvinnurekstrar skilgreind þannig, með leyfi forseta:

„Hér skal færa reiknuð laun við eigin atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi, við atvinnurekstur maka eða við atvinnurekstur og starfsemi sem unnið er að í sameign með öðrum. Launin skulu vera sambærileg við það sem þau hefðu orðið ef starfið væri unnið á vegum óskylds eða ótengds aðila.“

Og í 59. gr. skattalaga segir m.a. um ákvörðun launa við eigin atvinnurekstur, með leyfi forseta: „Ríkisskattstjóri skal miða viðmiðunarreglurnar við laun fyrir sambærileg störf í venjulegum vinnutíma. Skal hann hafa hliðsjón af gildandi kjarasamningum og raunverulegum tekjum í viðkomandi starfsgrein.“

Og enn fremur segir:

„Ríkisskattstjóri skal árlega setja viðmiðunarreglur til leiðbeiningar fyrir skattstjóra varðandi þessa ákvörðun og reglur um framkvæmd greinarinnar að öðru leyti.“

Niðurstaðan samkvæmt skattframtölum árið 1984 er sem áður greinir að framtaldar tekjur allra launþega sýna að meðaltal tekna launþega á árinu 1983 var 195 þús. kr., en meðaltal vegna reiknaðra launa við eigin atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi var á árinu 1983 116 þús. kr. Framtaldar meðaltalstekjur launþega á árin 1983 eru því 68% hærri en framtaldar meðaltalstekjur vegna reiknaðra launa við eigin atvinnurekstur eða sjálfstæða starsemi.

Hér er um að ræða alla framteljendur. Ef teknir eru aftur á móti kvæntir karlar í launþegastétt og hins vegar kvæntir karlar í atvinnurekendastétt kemur eftirfarandi í ljós: Kvæntir karlar í launþegastétt voru 40 583 og höfðu samanlagt í framtaldar tekjur 12 milljarða 580 millj. kr. Kvæntir karlar með eigin atvinnurekstur voru 10 491 og höfðu samtals í framtaldar tekjur samkvæmt reiknuðum launum við eigin atvinnurekstur 1 milljarð 648 millj. kr. Niðurstaðan samkvæmt framtöldum tekjum kvæntra karla er því að meðaltalstekjur kvæntra karla í launþegastétt voru 309 þús. á árinu 1983, en kvæntra karla í atvinnurekendastétt 157 þús. eða nálægt helmingi lægri en hjá launþegum.

Ef teknar eru giftar konur sem þiggja laun hjá öðrum er um að ræða 35 520 konur sem höfðu í tekjur 4 milljarða 370 millj. kr. samkvæmt framtöldum tekjum eða rúmar 123 þús. kr. að meðaltali í tekjur á s.l. ári. Ef teknar eru giftar konur sem unnu við eigin atvinnurekstur og litið á framtaldar tekjur þeirra á árinu 1983 samkvæmt reiknuðum launum við eigin atvinnurekstur kemur í ljós að þær eru 5773 og höfðu samkvæmt framtöldum tekjum við eigin atvinnurekstur 410 millj. 720 þús. eða að meðaltali 71 þús. kr. á árinu 1983.

Ef þessar niðurstöður eru dregnar saman kemur í ljós að samkvæmt reiknuðum launum við eigin atvinnurekstur 1983 höfðu kvæntir karlar að meðaltali á mánuði 13 þús. kr., en kvæntir karlar í launþegastétt að meðaltali samkvæmt framtöldum tekjum 25 750 kr. á mánuði á árinu 1983. Giftar konur í launþegastétt höfðu samkvæmt framtöldum tekjum á árinu 1984 vegna tekna ársins 1983 að meðaltali á mánuði 10 250 kr. og giftar konur samkvæmt framtöldum tekjum við eigin atvinnurekstur 6 þús. kr. á mánuði. Skýringin á svo miklum mun hér á konum og körlum helgast að hluta til af því að konur vinna mikið hlutastarf sem lækkar meðaltal heildartekna kvenna verulega. Sú skýring er þó ekki einhlít á svo miklum mun t.a.m. í launþegastétt að framtaldar tekjur karla vegna tekna ársins 1983 skuli vera 25 750 kr., en kvenna aðeins 10 250 kr. Nú læt ég mér það í léttu rúmi liggja þó hæstv. fjmrh. hafi talið að með þessum upplýsingum sé ég að gera framtaldar tekjur vegna reiknaðra launa við eigin atvinnurekstur tortryggilegan. Hér er ég aðeins að tilgreina staðreyndir úr opinberum gögnum.

Á þessum tölum og upplýsingum má sjálfsagt finna að einhverju leyti eðlilegar skýringar og menn draga sjálfsagt af þeim mismunandi niðurstöður, en engu að síður tel ég þær gagnlegar fyrir þá umræðu sem mikið er á döfinni núna um tekjuskiptinguna í þjóðfélaginu, en umræða er sífellt í gangi um það gífurlega óréttlæti sem ríkir í tekjuskiptingunni og eru þessar upplýsingar ein staðfesting af mörgum á að gagngera uppstokkun þarf að gera á launakerfinu og þeirri tekjuskiptingu sem við búum við í þjóðfélaginu. Eins eru þessar upplýsingar rökstuðningur fyrir því, sem ég hef haldið fram, að endurskoða þarf launamat í atvinnurekstri og viðmiðunarreglur sem gilda um reiknuð laun vegna eigin atvinnurekstrar eða sjálfstæðrar starfsemi. Með því er ég einungis að benda á að um brotalöm er að ræða og göt í skattakerfinu sem þarf að lagfæra en ekki að gera framtöl allra atvinnurekenda tortryggileg og ég dreg ekki í efa að margir hverjir greiði skilvíslega það sem þeim ber til samneyslunnar.

Aðra mynd er hægt að draga upp af tekjuskiptingunni í þjóðfélaginu ef litið er til könnunar sem gerð var á vegum viðskipta- og hagfræðinga í maímánuði s.l. á launakjörum stjórnenda á almenna markaðinum. Þar kemur fram að meðallaun framkvæmdastjóra voru 55 þús. kr., fjármálastjóra 50 þús. kr., deildarstjóra 44 þús. kr. á mánuði, sérfræðinga 40 þús. kr., skrifstofumanna 35 þús. kr. á mánuði og fulltrúa 34 þús. kr. á mánuði. Þessar upplýsingar staðfesta hve yfirborganir umfram taxta eru orðnar snar þáttur í kjörum margra í þjóðfélaginu meðan láglaunastéttirnar sitja eftir á kauptöxtum sem enginn fær lifað af.

Allir eru um það sammála að kjaramálin og tekjuskiptingin hér í þjóðfélaginu séu orðin alger endaleysa og þurfi algjörrar uppstokkunar við, en samt virðist svo að ekkert raunhæft sé gert til þess að leggja grundvöll að því að slík uppstokkun geti átt sér stað. Það er erfitt að horfa upp á það hvernig teknar eru að ég vil segja handahófskenndar ákvarðanir varðandi launamálin og þegar upp er staðið eru það oftast þeir sem lægst hafa launin sem undir verða. Það virðist vanta allar forsendur, þekkingu og yfirsýn yfir þann frumskóg sem kjaramálin og launamál almennt eru komin í og ákvarðanir um tekjuskiptinguna byggjast á. Ég hygg að aðilar vinnumarkaðarins geti ekki svarað því hvað liggur til grundvallar því að þeir sem hvað mest leggja á sig við að vinna í undirstöðuatvinnugreinum í þjóðfélaginu beri minnst úr býtum og hvaða rök liggja til grundvallar taxtauppbyggingunni, flokkaröðuninni og öðrum kjaraatriðum, duldum greiðslum og yfirborgunum sem þróað hafa það launamisrétti sem við búum við. Staðreyndin er einnig sú að atvinnurekendur hafa í gegnum árin komist upp með að ráða meira og meira einhliða tekjuskiptingunni í þjóðfélaginu. Þegar svo er komið lít ég svo á að það sé hlutverk stjórnvalda, eins og hér er lagt til, að upplýsa eins og kostur er um staðreyndir í þessu máli og leggja grunn að þeim upplýsingum sem þurfa að vera fyrir hendi til þess að hægt sé að stokka launakerfið upp á nýtt. En það er m.a. hægt með þeim hætti, sem hér er lagt til, að stjórnvöld beiti sér fyrir með rannsóknum og könnunum að fá upp á borðið hina raunverulegu tekjuskiptingu í þjóðfélaginu.

Ég hygg að aðilar vinnumarkaðarins geti ekki svarað því hvað liggur til grundvallar því að þeir sem hvað mest leggja á sig að vinna í undirstöðuatvinnugreinum í þjóðfélaginu beri hvað minnst úr býtum og hvaða rök liggja til grundvallar taxtauppbyggingunni, flokkaröðuninni og öðrum kjaraatriðum, duldum greiðslum og yfirborgunum sem þróað hafa það launamisrétti sem við búum við. Hvað ræður því í raun hvað þeir bera úr býtum fyrir sitt vinnuframlag? Er hugsanlegt að það sé frekar röðun í virðingar- og metorðastiga, sem þróun þjóðfélagsuppbyggingarinnar hefur leitt af sér, en röðun byggð á vinnurannsóknum, um gildi og eðli vinnunnar og áhrifaþætti hennar, bæði fyrir einstaklinginn sjálfan og skerf hans til verðmætasköpunar í þjóðfélaginu, bæði í skilningi mannlegra og efnislegra verðmæta? Ef auka á hlut láglaunahópanna í þjóðfélaginu á sanngjarnan hátt og uppræta launamisrétti kynjanna verðum við að vita með allgóðri vissu hvernig undirheimar kjaramálanna og kaupaukanna eru sem ekki koma fram í kauptöxtum og kjarasamningum. Við verðum að fá fram hlutfall hinna ýmsu launakerfa í launakerfum almennt þannig að hægt sé að sjá hvaða þáttur launakerfa sé mest ákvarðandi um launatekjur hverrar starfsstéttar, svo sem dagvinnutekjur, yfirvinnutaxtar, afkastahvetjandi launataxtar, yfirborganir og aðrar duldar greiðslur eða kjaraþættir. Það er forsenda þess að hægt sé að skipta því sem til skiptanna er á sanngjarnan og eðlilegan hátt og raunar brýnt einnig er endurmeta á störf láglaunahópanna.

Miðað við þær upplýsingar sem fyrir liggja um kjaramálin er ekki hægt að draga réttmætar og sanngjarnar ályktanir af þróun launa- og kjaramála undanfarin ár og áratugi. Raunhæfir mælikvarðar byggðir á vinnurannsóknum um eðli vinnunnar, þar sem gert er ráð fyrir að hinir fjölbreytilegu eðlisþættir hennar geti á einhvern hátt vegið upp hver á móti öðrum, hljóta að vera nauðsynlegir til að hægt sé á sanngjarnan hátt að ákveða kaup og kjör skv. flokkaröðun eða á annan hátt þegar ákvarðanir eru teknar um tekjuskiptinguna í þjóðfélaginu. Það sem einkum hefur verið lagt til grundvallar er, að því er næst verður komist, ábyrgð, sjálfstæði í starfi, menntun, starfsaldur hjá sama aðila, en ekki starfsreynslan sem slík. Á þessa þætti virðist helst horft þegar talað er um starfsmat eða mat á störfum í þjóðfélaginu.

Aðrir þættir, sem ættu að koma láglaunahópunum til góða og leggja ætti á vogarskálarnar þegar meta á vinnuframlag þeirra og kjör, eru þættir eins og áhætta, streita, óþrifnaður í starfi, erfiði starfans. Þessir þættir eru sjaldnast í umræðunni þegar lagt er mat á störfin í þjóðfélaginu, en þeir vega þungt í vinnuframlagi láglaunahópanna og því sem láglaunafólk leggur fram til verðmætasköpunar í þjóðfélaginu. Það er einmitt þessum þáttum sem verður að gefa meira vægi. Það eru einmitt þessir þættir sem rík áhersla er lögð á í því frv. sem hér er lagt fram um endurmat á störfum láglaunahópanna, að gefið verði aukið vægi við mat á störfum ásamt því að þegar lagt er mat á þátt eins og ábyrgð í starfi sé jafnt tekið tillit til ábyrgðar á mannlegum sem efnislegum verðmætum. Það eru einmitt mannlegu verðmætin sem oft vilja gleymast. Það þarf ekki mikinn rökstuðning að sjaldnast er litið á mannlegu verðmætin þegar störfin eru metin. Það bera kjörin í ýmsum greinum með sér. Hverjir vinna þau störf þar sem þungt ætti að vega ábyrgð á mannlegum verðmætum? Það eru oftast konurnar í þjóðfélaginu sem vinna að umönnunar- og uppeldismálum, fóstrurnar, hjúkrunarstéttin, kennararnir, ekki síst í grunnskólunum, svo dæmi sé tekið. Og ég spyr: Hefur það hvarflað að nokkrum að líta á hin mannlegu verðmæti í þjóðfélaginu þegar verið er að meta störfin eða taka ákvarðanir um launakjör starfsstétta? Ég hygg að svarið sé nei, enda bera þau laun sem greidd eru fyrir umönnunar- og uppeldisstörf í þjóðfélaginu þess glöggt vitni að þetta virðast vera hornrekustörf í þjóðfélaginu að mati þeirra sem ákvarðanir taka um hvernig skipta beri launum í þjóðfélaginu. Og það er sorglegt til þess að vita að það er einmitt fólkið í framleiðslugreinunum sem minnst ber úr býtum, en ber hitann og þungann af verðmætasköpun og framleiðslu okkar sem lífskjör okkar byggjast á. Þetta fólk vinnur oft nauðsynlegustu þjónustustörfin, erfiðustu og óþrifalegustu störfin í þjóðfélaginu, en engu að síður ber það samt minnst úr býtum og fær í raun aðeins brot af því sem er til skiptanna í þjóðfélaginu.

Í þessu frv. er lagt til að meta eigi hvort og þá hvers vegna láglaunastörf, ekki síst hefðbundin kvennastörf, séu metin óeðlilega lágt til launa. Við mat á láglaunastörfum skal sérstaklega athugað hvort starfsreynsla við heimilisstörf sé eðlilega metin við röðun í launaflokka þegar um skyld störf á vinnumarkaðnum er að ræða, svo sem ýmis störf sem snerta umönnun, uppeldismál, matargerð, þvotta eða ræstingu, þjónustu, fatasaum o.þ.h. Til grundvallar verði lagðir þættir þeir sem ég rakti hér áðan og lítið virðast hafa verið metnir hingað til.

Fyrir nokkrum mánuðum, það var reyndar í byrjun þessa árs, tók ég saman hversu starfsreynsla hefði verið metin á vinnumarkaðnum að því er heimilisstörfin varðar og þó tölurnar hafi breyst eru hlutföllin hin sömu. Vil ég nú rifja þær upp.

Við getum tekið dæmi af konunum sem starfa í iðnaði, við fatasaum. Byrjunarlaun þeirra voru þá, þegar ég gerði þessa athugun, 9825 kr. samkvæmt taxta og engu breytti þó að konan hefði 20 ára reynslu við fatasaum á heimili. Það var einskis metið. Þar sem ekki mátti greiða lægri laun en 10 961 byrjaði konan í fatasaumi á þeim launum. Þegar hún er búin að vera sex ár í fatasaumi á vinnumarkaðnum hækkar hún úr 10 961 í 11 053. Það gefur henni í hækkun heilar 92 kr. á sex ára tímabili.

Hvað leggja þessar konur fram til verðmætasköpunar í þjóðfélaginu? Af því er hægt að gefa dæmi. Í vefjariðnaði, en honum tilheyra m.a. ullar og prjónavöruframleiðsla, voru á árinu 1980 unnin 2453 ársverk, þar af 1608 ársverk sem unnin voru af konum eða 65.6% af heildarársverkum. Heildartekjur í vefjariðnaði voru á árinu 1980 557 millj. kr. og að frádregnum aðföngum var vinnsluvirði 241 millj. kr. Undir þessum miklu verðmætum stóðu konur að 2/3 — konur sem hafa í laun á mánuði kannske 13 000 kr.

Dæmi af því hvernig heimilisstörf eru metin á vinnumarkaðnum má sjá í aðalkjarasamningi Verkamannasambandsins, en þar skal meta heimilisstörf til eins árs starfsreynslu. Við getum tekið dæmi um það hvað það gefur ráðskonu. Frá því ég gerði þessa athugun hafa tölurnar eitthvað breyst, en hlutföllin eru þau sömu að því ég best veit. Á þeim tíma, sem er sennilega fyrir tæpu ári, var staðan sú að í stað 61 kr. 34 aura á tímann fékk matráðskonan starfsreynslu sína metna þannig að hún fékk 62,87 á tímann. Sem sagt: konan sem hafði áratugastarfsreynslu við matargerð á heimili fékk aðeins 1 kr. 53 aurum meira á tímann, þ.e. 12 kr. 24 aura á dag eða 61,20 kr. á viku, þegar hún fer út á vinnumarkaðinn.

Starfsmannafélagið Sókn hefur fengið starfsreynslu í heimilisstörfum metna mun lengur eða allt að fjórum árum. Í samningi Sóknar segir að við almenn störf, svo sem heimilishjálp, eldhússtörf og ræstingu skal tekið tillit til starfsreynslu í skyldum greinum, þ.m.t. heimilisstörf. Getur starfsmaður með slíka starfsreynslu fengið hana metna til allt að fjögurra ára starfsreynslu. Á þeim tíma sem ég gerði þessa athugun, fyrir nokkrum mánuðum, var niðurstaðan sú að í stað 58.18 kr. á tímann fékk viðkomandi starfsreynslu sína metna og fékk greitt 62,07 á tímann. Áratugastarfsreynsla við ýmiss konar heimilisstörf var því aðeins metinn á 3,88 kr. meira á tímann þegar út á vinnumarkaðinn var komið.

Þessar litlu upphæðir sýna hve lítið heimilisstörfin eru metin við skyld störf í þjóðfélaginu og þær sýna meira: þær sýna ljóslega og gefa um það ótvíræða vísbendingu hvað hefðbundin kvennastörf eru lágt metin á vinnumarkaðnum.

Herra forseti. Ég sagði í upphafi máls míns að á síðasta þingi hefði ég haldið mjög ítarlega framsöguræðu um þetta frv. Ég sé því hvorki ástæðu til þess að orðlengja þetta frekar, þó um þetta mál mætti tala ítarlegar og hafa mjög langt mál, né tel ég nauðsyn að skýra frekar einstakar greinar þessa frv. og vísa í því sambandi til framsöguræðu minnar á síðasta þingi.

Sú eina breyting sem gerð hefur verið á frv. frá síðasta þingi er að kostnaður við störf láglaunanefndar greiðist úr ríkissjóði í stað þess að í frv. á síðasta þingi var lagt til að að hluta til greiddu aðilar vinnumarkaðarins kostnað við þá úttekt sem fara á fram samkvæmt þessu frv. Með tilliti til þeirrar gagnrýni, sem fram kom frá aðilum vinnumarkaðarins um að þeim væri gert skylt með lögum að taka þátt í þessum kostnaði, er það mat flm. að rétt sé að falla frá því nú þegar frv. er lagt fram að nýju ef um það gæti tekist samkomulag.

Ég sé ekki ástæðu til að rökstyðja frv. frekar nema tilefni gefist til. Ég vísa aftur til þeirra mörgu umsagna sem liggja fyrir Alþingi frá síðasta þingi þar sem fjölmörg stéttarfélög hvetja til þess að þetta frv. verði samþykkt og taka eindregið undir efni þess. Í ljósi þess vænti ég að frv. fái ítarlega umfjöllun í nefnd og er ég að sjálfsögðu opin fyrir öllum breytingum á einstökum greinum frv. sem til betri vegar má færa til að ná þeim markmiðum, sem sett eru í þessu frv., sem eru að fram fari hlutlaus rannsókn og endurmat á störfum og kjörum láglaunahópa svo og úttekt á hlut þeirra í tekjuskiptingu og launakjörum í þjóðfélaginu.

Ég vil sérstaklega, með tilliti til þeirra umræðna sem fram hafa farið um laun opinberra starfsmanna, vísa í þann lið í 3. gr. frv. sem kveður á um að gera sérstakan samanburð á launum og öðrum kjörum sambærilegra láglaunahópa er starfa hjá hinu opinbera annars vegar og á almenna vinnumarkaðnum hins vegar. Ef fram á að fara endurskoðun á launakjörum opinberra starfsmanna tel ég einmitt að sú könnun og endurmat sem hér er lagt til muni flýta verulega fyrir því að eitthvert réttlæti verði í tekjuskiptingunni í þjóðfélaginu og að láglaunahóparnir fái réttláta og sanngjarna hlutdeild af því sem er til skiptanna hverju sinni.

Herra forseti. Að lokinni þessari umr. legg ég til að málinu verði vísað til 2. umr. og hv. félmn.