21.11.1984
Efri deild: 18. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 1161 í B-deild Alþingistíðinda. (812)

150. mál, veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands

Magnús H. Magnússon:

Virðulegi forseti. Hér erum við að ræða eitt þýðingarmesta og um leið eitt vandasamasta mál sem ríkisstj. og Alþingi hafa með að gera, sjálft fjöregg þjóðarinnar. Við verðum að tryggja viðgang fiskistofna við landið sjálfra okkar vegna og barna okkar. Fiskiskipaflotinn er of stór og afkastageta hans of mikil miðað við afrakstursgetu fiskistofna. Við verðum að taka afleiðingum þess hvort sem okkur líkar betur eða verr. Undan því komumst við ekki og því er hér ár eftir ár verið að ræða um miklar aflatakmarkanir.

Aflamark, aflakvóti er að mínum dómi besta eða öllu heldur skásta leiðin sem til umræðu hefur komið fram til þessa um takmörkun afla. Aflakvótinn leiðir tvímælalaust til aukinnar hagkvæmni, minni olíueyðslu, minni veiðarfærakostnaðar en t.d. skrapdagakerfið. Sú er reynslan af aflakvóta við loðnuveiðar og svipuð hlýtur reynslan að verða af öðrum veiðum þegar menn hafa lagað sig að kerfinu.

Skipstjórar og útgerðarmenn í Vestmannaeyjum segja mér að kvótakerfið við loðnuveiðar dragi u.þ.b. 30% úr olíueyðslu og svipaður sé sparnaðurinn í veiðarfærum. Þetta segja menn sem voru illir hér áður fyrr þegar fyrsta loðnunefndin tók til starfa og þó var það lítið annað en tilkynningarskylda.

Loðnunótin dugir til ákveðins fjölda kasta, segja þessir sömu menn, og skiptir þá engu máli hvort loðna kemur í nótina eða ekki. Kvótakerfið gerir það að verkum að þeir kasta ekki nótinni nema að vera nokkuð vissir um afla. Hamagangur og kappstím fyrri daga út og suður er ekki lengur fyrir hendi. Svipað hlýtur að verða uppi á teningnum þegar menn hafa fengið nægilega reynslu af kvótakerfi við aðrar fiskveiðar.

Í þessari umr. hefur komið fram að kvótakerfið valdi því að miklu sé hent í sjóinn af smáfiski og fiski sem fari í lægri verðflokka. Ég á erfitt með að trúa þessu, en sé svo, þá verðum við að finna aðrar leiðir til að bæta úr.

Það er sagt að hæstv. sjútvrh. hafi mikið vald skv. núgildandi lögum og valdið aukist að mun við samþykkt þessa frv. Það er rétt. En ég sé ekki aðra heppilegri leið til stjórnunar veiða eins og aðstæður eru í dag. Og núv. hæstv. sjútvrh. er manna ólíklegastur til að misnota það vald.

Ýmsir ágallar hafa að sjálfsögðu komið fram á því kvótakerfi sem við lýði hefur verið og þarf að finna ráð til að bæta úr þeim. T.d. þarf að finna leiðir til að jafna aflanum betur yfir árið í hinum einstöku verstöðvum, samræma betur veiðar og vinnslu, eins og hæstv. ráðh. orðar það. Þó að ég sé í öllum aðalatriðum samþykkur kvótakerfi sem slíku þarf ýmislegt að endurskoða í ljósi fenginnar reynslu. T.d. þarf að skoða hvort ekki sé unnt að rýmka reglur verulega varðandi línu- og færafisk og veiðar allra smæstu bátanna, hvort ekki sé unnt að undanþiggja þá veiðitakmörkunum að einhverju eða öllu leyti. En þarna er auðvitað við þau vandamál að stríða að stærðarmörkin eru óljós, að lítill munur er á smæstu bátum og þeim sem eru kannske svolítið stærri.

Um 1. gr. frv. vil ég segja að mér finnst hæpið að miða aflamagn allt of mikið við afla fyrri ára nú þegar lögin eiga að gilda í þrjú ár. Ýmislegt breytist, fiskigöngur breytast, afli gæti t.d. minnkað við Snæfellsnes og aukist við Reykjanes frá því sem verið hefur undanfarin ár. Viss sveigjanleiki verður að vera fyrir hendi. Frjálsari kaup og sala á vannýttum aflakvótum ætti að geta hjálpað okkur við að tryggja aflakóngum að þeir gætu nýtt hæfileika sína. Verði skip skylduð til að selja ákveðinni vinnslustöð afla sinn verður að finna leið til að tryggja greiðslu á þeim afla sérstaklega.

Þá tel ég að svipting veiðileyfa væri áhrifaríkari en þau sektarákvæði sem um getur í 4. gr. frv.

6. gr. gerir ráð fyrir að lögin gildi til ársloka 1987. Ég tel nauðsynlegt að setja inn í lögin ákvæði um árlega endurskoðun.

Virðulegi forseti. Ég styð í höfuðatriðum það frv. sem hér er til umr., en áskil mér auðvitað rétt til að leggja fram brtt. við afgreiðslu málsins í sjútvn.