21.11.1984
Efri deild: 18. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 1168 í B-deild Alþingistíðinda. (819)

165. mál, sláturafurðir

Landbrh. (Jón Helgason):

Hæstv. forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til l. um breytingu á lögum nr. 30 28. apríl 1966, um meðferð, skoðun og mat á sláturafurðum, með síðari breytingum. Frv. þetta er til staðfestingar á brbl. sem gefin voru út hinn 17. júlí s.l. En eins og fram kemur þar var leyfi til undanþágu, sem hefur verið í lögum, úr gildi fallið. Nauðsynlegt var að fá heimild til slíks áfram því að þrátt fyrir uppbyggingu nýrra sláturhúsa á undanförnum árum eru enn þá allmörg sláturhús þannig að þau þurfa undanþágu til að slátrun megi fara þar fram.

Í brbl. er þessi heimild veitt eitt ár til viðbótar, til 1. júní 1985. Hins vegar tel ég nauðsynlegt að við meðferð málsins hér á Alþingi verði þarna um eitthvað lengra svigrúm að ræða, þar sem enn, eins og ég sagði, eru mörg hús sem þurfa undanþágu. Hins vegar vil ég nota þetta tækifæri til að geta þess að nauðsynlegt er að taka málefni og skipulag sláturhúsanna nokkuð til endurskoðunar og athugunar, m.a. vegna breyttra aðstæðna.

Eins og öllum er kunnugt hefur sláturfénaði fækkað nokkuð síðustu árin. Ásettu fé hefur fækkað um 200 þús. á síðustu fimm árum. Það hefur haft í för með sér að rekstrargrundvöllur hefur breyst, sérstaklega hjá sumum nýrri húsanna sem lent hafa í erfiðleikum. Þáltill. um það mál var samþykkt á síðasta Alþingi og viðræður hafa farið fram um það mál, m.a. við Framleiðsluráð landbúnaðarins sem hefur með þessi mál að gera, á hvern hátt þarna muni hægt að bæta úr. Einnig hefur Framkvæmdastofnun verið fengið málið til athugunar og hún mun vera að gera úttekt á því varðandi þau hús sem versta hafa aðstöðuna. En eins og ég sagði áðan þarf að gera þar rækilegri úttekt til þess að skipuleggja megi þessi mál á eins hagkvæman hátt og kostur er.

Ég legg svo til að að lokinni þessari umr. verði málinu vísað til 2. umr. og hv. landbn.