21.11.1984
Efri deild: 18. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 1171 í B-deild Alþingistíðinda. (821)

165. mál, sláturafurðir

Eyjólfur Konráð Jónsson:

Hæstv. forseti. Að sjálfsögðu styð ég samþykkt brbl. og einmitt með þeirri breytingu sem hæstv. ráðh. hefur lagt til að annaðhvort verði heimildin til lengri tíma eða ótímabundin. Hæstv. ráðh. gat þess einmitt að hann óskaði eftir að þetta mál yrði athugað í nefnd og þar á ég sæti og mun um það fjalla. En þessi undanþáguheimild er algerlega nauðsynleg og því styð ég þetta mál.

Ég vil gjarnan taka undir margt af því sem síðasti ræðumaður, hv. þm. Helgi Seljan, sagði um vanda sláturhúsanna, ekki hvað síst hinn stutta nýtingartíma og raunar líka þessa miklu offjárfestingu. Það er ýmislegt til úrræða varðandi nýtingartímann. Þessi stóru og fínu hús eru komin, vitanlega allt of dýr og allt of mikið í lagt að óþörfu og af einhvers konar misskildum metnaði, en þá er að reyna að gera það besta úr málinu.

Það er tvennt sem liggur nokkuð beint við. Það fyrra er að vinna kjötvöruna meira heima í hinum ýmsu héruðum. Ég veit að hæstv. ráðh. hefur áhuga á að stuðla að því. Ég sé ekki neina sérstaka ástæðu til að flytja endilega beinin öll með kjötinu til Reykjavíkur og láta vinna þessa vöru mest hér þar sem atvinna hefur verið nóg. Ég held að allir séu sammála um það, hvort sem þeir eru Reykvíkingar eða landsbyggðarfólk, að nú hallist nokkuð á og það þurfi að styrkja sérstaklega atvinnulífið úti um hinar dreifðu byggðir. Þá liggur beint við að nota þessi hús að einhverju leyti til að vinna kjötvöruna meira en gert hefur verið, hvort heldur um er að ræða dilkakjöt eða stórgripakjötið. Þess vegna skýtur það raunar nokkuð skökku við að eitt stærsta sláturfélagið, Sláturfélag Suðurlands, skuli nú vera að byggja að mér skilst geysilega stóra og dýra kjötvinnslustöð hér í borginni til að flytja hráefnið hingað í vinnslu í stað þess að stuðla að því að vinna það að einhverju leyti utan höfuðborgarsvæðisins. Ég hygg að þar sé enn um offjárfestingu að ræða sem við höfum verið svo gjarnir á undangengna áratugi. Það hefur svo oft verið fjárfest um of vegna þessa misskilda metnaðar ýmissa stjórnenda fyrirtækja og raunar kannske líka vegna þess að oft hafa þar ráðið menn sem raunverulega báru enga ábyrgð á framkvæmdunum, a.m.k. enga fjárhagslega ábyrgð. Skal ég ekkert fara lengra út í þá sálma núna.

En það er annað atriði sem ég held að liggi líka nokkuð beint við. Það er að leitast við að nota þessi bestu sláturhús — flest þeirra mætti kannske hugsa sér að nota — til fiskiræktar með ákveðnum hætti. Þegar sláturtíð lýkur væri hægt að klekja út í þessum húsum og síðan að startfóðra, eins og það er kallað á máli fiskiræktarmanna, þ.e. að koma hrognunum af kviðpokastigi yfir í smáseiði og síðan að ala þau þar fram eftir sumri. Þá heita þau á máli fiskiræktarmanna sumaralin seiði. Á þessu tímabili eru bæði hrognin og síðan seiðin langsamlega viðkvæmust og þurfa mjög góða umönnun, góð húsakynni, gott vatn og hæfilegan hita. Raunar er það mjög lítið vatn sem þarf til þessarar fyrstu ræktunar. Hægt er að hafa gífurlegt magn af smáseiðum í tiltölulega litlu vatni. Jafnvel mætti hugsa sér að hægt væri að nota sláturhúsin þar sem ekki er um jarðvarma að ræða, en hann er raunar mjög víða þar sem þessi sláturhús eru og þar liggur þetta auðvitað alveg beint við. En eins og ég segi, vatnið er það lítið að jafnvel þó að það þyrfti að kaupa rafmagnshitun á það þá er hægt að gera þetta.

Eldishús eru mjög dýr og kannske óþarflega dýr hér á Íslandi. Kannske fjárfestum við þar líka dálítið óvarlega. Víða erlendis er notast við útitjarnir fyrir öll seiði sem eru orðin stærri en þau sem kölluð eru sumaralin. Auðvitað er veðrátta hér erfiðari, en það þarf a.m.k. ekki jafndýr hús til að halda ræktuninni áfram eitt ár til viðbótar þar til seiði eru orðin sjógönguseiði.

Það er ánægjulegt að geta um það hér að tilraunastöð í Lóni í Kelduhverfi hefur núna náð mjög góðum árangri. Þar er ákveðið að fara í meiri háttar rekstur. Hún fékk með mjög góðu samkomulagi og velvilja yfirvalda á Húsavík yfir sláturhúsinu þar leyfi til að prófa þetta í þeirra húsi. Þetta var að vísu í mjög smáum stíl en þetta virðist geta fallið mjög vel saman. Það þarf kannske að færa til einhverja rekka eða tæki til að rýmka um pláss en þegar þarna er um meira en hálfs árs notkun að ræða eða u.þ.b. væri kannske hægt að spara mjög mikla fjárfestingu í sambandi við fiskiræktina einmitt með slíkri samvinnu.

Það er alveg ljóst að það sem lögð verður áhersla á hér á næstu árum er stórfelld fiskirækt. Við eigum ekki að setja okkur neitt lægra mark en það að ná Norðmönnum, komast á það stig sem þeir eru á nú á svona þrem til fjórum árum. Það er mjög vel hægt. 20 þúsund tonn af laxi getum við framleitt hér eftir u.þ.b. fimm ár ef við ákvæðum að gera það í dag. Það eru jafnmikil verðmæti og af öllum togaraflotanum okkar og nánast engin gjaldeyrisnotkun. Það eina sem þyrfti að flytja inn til rekstrarins eru kannske einhver vítamín í fóðrið ef loðnumjöl er kölluð íslensk afurð og rækjuskelin sem hent er í sjóinn. Þetta er svo ljóst mál að út í þetta verður farið. Enginn er svo ríkur að hafa efni á því að fara ekki út í þetta. Þegar við erum fátækir, eins og menn segja, getum við alls ekki haft efni á því að fjárfesta ekki í þessari atvinnugrein.

Þessi fjárfesting, sem ég er að tala um, 20 þús. tonn af laxi, er eitthvað nálægt því sem við fjárfestum í Japanstogurunum og nokkrum togurum öðrum sem smíðaðir voru hér á einu ári. Þetta mundi kosta eitthvað nálægt fjórum milljörðum kr. eins og togararnir á því eina ári kostuðu á núvirði, en framleiðslan yrði á við hundrað togara. Norðmenn fluttu út í fyrra 17 016 tonn nákvæmlega, flytja út eitthvað yfir 20 þús. núna, framleiða nákvæmlega jafnmikið án allrar gjaldeyrisnotkunar. Við höfum sem sagt ekki efni á því að fjárfesta ekki í þessu, en við getum sparað okkur þó nokkra fjárfestingu með því að hagnýta sláturhúsin og þeirra hagur gæti þar með líka eitthvað batnað.

Ég vildi nota þetta tækifæri til að koma þessari ábendingu á framfæri, ekki vegna þess að ég viti ekki að hæstv. ráðh. hefur á báðum þessum málum mjög mikinn áhuga, en aðeins til að vekja aðra hv. þm. til umhugsunar um hve auðvelt er að bæta hag þjóðarinnar. Kannske að dragi þá eitthvað úr voli og víli um það að allt sé að fara yfir um á þessu landi. Við höfum búið við erfiðleika vegna ýmiss konar ofstjórnar í þessu þjóðfélagi. En það er mál að því linni og við förum að stunda arðvænlegan atvinnurekstur sem getur skilað þjóðinni afrakstri fljótt og vel og þá ekki síst þennan skemmtilega atvinnurekstur sem fiskiræktin er. Á ég þá ekki eingöngu við vatnafiska heldur sjávarfiska líka, enda fleygir því nú mjög fram í nágrannalöndum okkar að rækta t.d. sandhverfu, lúðu og annan dýrindis sjávarfisk.