21.11.1984
Efri deild: 18. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 1176 í B-deild Alþingistíðinda. (826)

166. mál, lausn deilu verkalýðsfélaga og sláturleyfishafa

Kristín Ástgeirsdóttir:

Virðulegi forseti. Ég stend hér upp til að lýsa því yfir að ég mun greiða atkv. gegn þessu frv. Að sjálfsögðu stendur Alþingi frammi fyrir gerðum hlut, en mín afstaða er sú að ég er því ákaflega mótfallin og harma þá þróun sem við höfum horft upp á á undanförnum árum að ríkisvaldið grípur æ oftar inn í vinnudeilur og kjarabaráttu. Við höfum séð þess mörg dæmi á undanförnum árum, með lagasetningum, brbl., jafnvel fyrirmælum um það upp á hvað beri að semja og alls konar pökkum sem ríkisvaldið býður fólki, stundum til góðs og stundum ekki til góðs.

Ég skil að sjálfsögðu þann vanda sem bændur stóðu frammi fyrir. En meginmálið er að það fólk sem á í kjaradeilu og er að reyna að bæta kjör sín á þetta sterka vopn, verkföllin, þegar allt um þrýtur og samningar nást ekki án frekari aðgerða. Verkfallsvopninu hefur verið beitt oft og iðulega hér á landi, allt frá 1912 að því er ég best veit. Ég er því algjörlega andvíg að þetta vopn sé tekið af fólki og að ríkisvaldið beiti sér á þann hátt sem gert var í sláturhúsadeilunni. Ég mun því greiða atkv. gegn þessum brbl.