21.11.1984
Neðri deild: 14. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 1222 í B-deild Alþingistíðinda. (841)

143. mál, álbræðsla við Straumsvík

Hjörleifur Guttormsson:

Herra forseti. Ég skil ofurvel að hæstv. ráðh. vill reyna að hraða þessu máli og koma því til nefndar og ég ætla ekki að bregða fæti fyrir það að svo geti orðið. Iðnn. þessarar hv. deildar þarf að sjálfsögðu að fjalla um þetta mál og þó að haldinn hafi verið einn sameiginlegur fundur nefndanna hlýtur iðnn. Nd. að ætla sér tíma til að fara ofan í ýmsa þætti málsins og þar hef ég aðstöðu til að taka á því sem einn af nm. í henni.

En vegna upplýsinga og yfirlýsinga hæstv. iðnrh. hér og skýringa á hans orðum 25. okt. s.l. vil ég í fyrsta lagi ekkert vera að vefengja að þar sé rétt og satt greint frá að þetta ákvæði, sem liggur fyrir í þessu frv. um aðstoðarsamning — rekstur, hafi komið fram og inn á eftir að sú umr. fór fram. Það er sjálfsagt að fá það leitt í ljós. Hins vegar kemur það meira en lítið spánskt fyrir sjónir ef vinnubrögð í þessum samningum hafa verið með þeim hætti sem hæstv. iðnrh. var hér að upplýsa, og þá fer maður nú að skilja eitt og annað sem komið er á blað og undirritað hefur verið af samninganefnd hæstv. ráðh. ef þannig hefur tiltekist kannske með fleiri atriði eftir að búið var að ganga frá samningi af hálfu samninganefndar íslenska ríkisins til fullnustu því að ekki var annað upplýst en svo væri.

Ég man ekki betur en það hafi verið 8. og 9. okt. sem þeir stigu hér á land, hv. samninganefndarmenn þrír, mjög brosleitir og ánægðir sérstaklega með uppskeruna, komu akandi með þetta í körfum út af Keflavíkurflugvelli og voru sem sagt kampakátir. Maður átti satt að segja von á að upp úr körfunni kæmi allt annað heldur en hér liggur nú fyrir, miðað við stemmninguna sem þarna ríkti við landgöngu þeirra frá Zurich. Síðan kemur hæstv. iðnrh. hér í utandagskrárumr. 25. okt. og hafði sólarhring áður fengið hnitmiðaðar fsp. af minni hálfu sem dreift var hér til þm., þ. á m. um það atriði sem ég gerði hér að umtalsefni. Um nokkrar fsp. gaf hann þær skýringar að hann gæti ekki veitt Alþingi svör vegna þess að á það hefði verið fallist, ég skildi það nú svo nánast, mót hans vilja, af samninganefndinni, án þess að ég vilji um það fullyrða, að ekki yrði upplýst um önnur atriði samninga en sem báðir aðilar féllust á að greint yrði frá, en um annað ríkti þögn uns ríkisstj. og Alusuisse hefðu formlega staðfest þá með sinni undirskrift. Það varðaði m.a. þriðju spurninguna, sem laut að því hvaða greiðslu Alusuisse hefði boðið inn í hina svokölluðu sáttargerð. Þar taldi ráðh. sig hafa tunguhaft sem Alusuisse hefði á hann lagt.

Síðan kom þessi þáttur um aðstoðarsamning — rekstur og þá kemur hæstv. ráðh. hér og skýrir málið með því að þetta atriði, sem hér er mjög gilt og gífurlega stórt atriði í þessu frv. upp á okkar samningsstöðu alla í þessu máli og skattalega aðstöðu Íslendinga gagnvart Alusuisse, hafi bara ekki verið komið á blað í Zürich 8. og 9. okt. — hér er nú einn hv. samninganefndarmanna undir þessari umr. sem ætti um það að vita, löglærður að auki, hv. 2. þm. Reykn., — og þessi túlkun, eins og hæstv. ráðh. orðar það, hafi fyrst fæðst 3. nóv., jafnvel að næturlagi, án þess að ég tæki nú alveg glöggt eftir því, og ekki aðeins að hún hafi þá komið á blað, heldur að hún hafi verið uppfundin af sérfræðingi íslensku ríkisstjórnarinnar, nafngreindum lögmanni, Hirti Torfasyni, sem niðurstaða úr athugun þessa máls og væri nánast bara lagaleg túlkun sem þessir heiðursmenn vildu af eðlilegum ástæðum halda til haga og byggja inn í þennan samning. Ja, svo mikil ástæða sem það kynni að vera að athuga nefndar dagsetningar hæstv. ráð., en ég ætla ekki að vefengja hér nú, þá er nú orðin mun ríkari ástæða til þess að kanna í iðnn. þessarar hv. þd. hvernig hafi verið staðið að samningagerðinni á hinum ýmsu stigum. Það gæti verið ástæða til þess fyrir hv. iðnn. að óska eftir því að fá aðgang að bókunum samninganefndarinnar á hinum ýmsu stigum, allt það sem á blað var fest í samningaáþreifingum við Alusuisse frá því að bráðabirgðasamningurinn var gerður 23. sept. 1983 til þess dags er íslenska ríkisstj. undirritaði samninginn 5. nóv. s.l. eða a.m.k. fram til þess tíma sem heiðursmennirnir þrír gengu frá samningi fyrir hönd íslensku ríkisstj. í Zürich 9. okt. s.l. Ég hygg að hér opinberist hv. þd. enn frekar en orðið er og með enn skýrari hætti en mér var kleift í orðum mínum áðan í hvaða stöðu hæstv. iðnrh. hefur sett sig í þessu stóra máli og hvernig hann er á sig kominn sem hagsmunagæslumaður Íslands að þessu leyti.

Hæstv. ráðh. kemur hér væntanlega í bestu trú og einfeldni og upplýsir Alþingi um það að einn aðalráðgjafi Íslands í þessum samningum, Hjörtur Torfason lögmaður, hafi troðið þessu afbrigði inn til að létta á samvisku sinni á allra síðustu stigum máls tveimur dögum áður en íslenska ríkisstj. og Alusuisse skrifuðu undir þennan samning. Er það hugsanlegt að eitthvert það farg hvíli á íslenskum samninganefndarmönnum sem hafa lengi vélað um þetta mál — og í þeim hópi er nefndur lögmaður sem hefur fylgt því álíka lengi, að ég hygg, sem traustur förunautur, formaður íslensku samninganefndarinnar nú, og a.m.k. má sjá á myndum frá undirskrift álsamninganna 1966 — að þeir séu hættir að gera greinarmun á því hvar íslenskir hagsmunir liggja og hvar hagsmunir auðhringsins sem við er að fást í þessu samhengi? Ég vil ekki trúa því að óreyndu. Ég þekki Hjört Torfason m.a. sem fulltrúa í álviðræðunefnd að góðum samskiptum og glöggskyggni á marga þætti mála og mér er það með öllu fyrirmunað að trúa því að hann hafi borið fram kröfu um það og sérstaka ósk að þau ákvæði, sem er að finna í þessu frv. um aðstoðarsamning, rekstur sem eins og ég segi skipta hér gífurlega miklu máli fyrir íslenska hagsmuni og ekki síður fyrir hagsmuni Alusuisse, hafi komið fyrir hans tilstilli og annarra ráðgjafa Íslands inn í þennan samning. Hæstv. ráðh. kemur svo hér í sinni einfeldni og lýsir því yfir að þetta sé nánast ekki breyting, efnisbreyting sé þetta ekki, þetta sé lagaleg útlistun, hér sé verið að gera hlutina ótvíræða.

Vissulega er þetta lagaleg útlistun, en í hvers þágu? Og fyrir hvaða hagsmuni er hér verið að tala? Hefur hæstv. iðnrh. kynnt sér lögfræðilegar álitsgerðir sérfræðinga iðnrn. um þessi efni frá fyrri tíð, þ. á m. álit breskra lögfræðiráðgjafa? Veit hann hversu þungt þetta atriði hlaut að vega fyrir þeim dómnefndum sem fyrir hans tilstilli voru að starfi til skamms tíma? Er honum kunnugt um það? Svo kemur það hér sem eins konar hreinsunaraðgerð af hálfu íslenskra sérfræðinga, eftir því sem ráðh. upplýsir, að koma þessu hér inn á elleftu stundu. Mikill er nú máttur Alusuisse ef það hefur tekist með þeim hætti.

Maður hefur að vísu heyrt í ansi mörgum búktölurum í tengslum við þetta mál í gegnum árin og maður veit um það úr sögu þessa máls að Alusuisse hefur oft og iðulega í flóknum samningaviðræðum á fyrri stigum tekist að smeygja á elleftu stundu inn þungvægum atriðum í samningagerð og leikið sér með þeim hætti að samningamönnum Íslands eða komið í bakið á þeim á elleftu stundu, eins og einnig mætti orða það. Ég tek undir það, hæstv. iðnrh., á þetta atriði verður að varpa ljósi. Ég vænti þess að ráðh. stuðli að því að það verði hægt og einnig á aðra þætti sem snerta samningsgerðina að nú þegar henni er lokið af hálfu hæstv. ráðh. og málið komið fyrir Alþingi komi öll gögn og bókanir funda samninganefnda Íslands og Alusuisse á fyrri stigum fram í hv. iðnn. Nd. Það er ekkert minna sem hægt er að biðja um hér í tengslum við þetta þegar draugagangur af því tagi sem hér er upplýst af hæstv. ráðh. hefur orðið fáum nóttum áður en ráðh. setti nafn sitt undir samningana. Ég ætla ekki að hafa fleiri orð um þetta atriði.

Ég ætla hins vegar að vekja athygli hæstv. ráðh. á einum þætti máls sem ekki er kannske stór, ekki í neinni líkingu við það sem hér var verið að nefna, en er á bls. 50 í þessu frv. Þar segir í sáttargerðarsamningi svonefndum undir 9. lið:

„Hvorugur aðila skal gefa út neina fréttatilkynningu eða aðra svipaða tilkynningu varðandi sáttargerðarsamning þennan án samþykkis hins aðilans.“

Það getur farið að vandast málið, einnig varðandi það atriði sem ég gerði að umtalsefni áðan og hæstv. ráðh. vék að. En það er ekki það sem ég er með í huga heldur greinarstúf sem birtist í Morgunblaðinu föstudaginn 16. nóv. 1984 eftir Ragnar Halldórsson framkvæmdastjóra álversins í Straumsvík og sérstakan trúnaðarmann þess fyrirtækis og eiganda þess, Alusuisse. Þar er verið að rekja hluta, hygg ég, úr ræðu sem framkvæmdastjórinn hélt miðvikudaginn 7. nóv. s.l. í tilefni þess að milljónasta áltonnið var framleitt í Straumsvík. Framkvæmdastjórinn segir þarna m.a.:

„Svo skemmtilega vill til að einmitt í dag lagði Sverrir Hermannsson iðnrh. samkomulagið fyrir Alþingi. Með því er endir bundinn á þær deilur sem fyrrv. iðnrh. hóf á ofanverðum vetri 1980. Í fjölmiðlum hefur ranglega verið skýrt frá því að ÍSAL greiði skaðabætur að upphæð 3 millj. dollara. Hið rétta er“ — Hér er túlkun á ferðinni. — „að skattinneign ÍSALs hjá ríkissjóði verður lækkuð um 3 millj. dollara sem samsvarar vöxtum af inneigninni frá 1975, þegar síðast var samið. Þetta var samþykkt með tilliti til þess mikla kostnaðar sem áframhaldandi málaferli hefðu haft í för með sér og vegna þess, sem skiptir miklu máli, að leyfi hefur fengist til stækkunar, að nánari skilyrðum uppfylltum. Ríkisstj. hefur jafnframt lýst yfir að Alusuisse og ÍSAL hafi ekki í neinu brotið gegn fyrri samningum, þ.e. ágreiningurinn var um skilning á samningsákvæðum.“

Hvernig fer þetta, hæstv. iðnrh., saman við þá yfirlýsingu í sáttargerðarsamningi sem ég vitnaði til? Er hugsanlegt að mati ráðh. að Alusuisse sé hér tekið að vanefna þann samning sem félagið gerðist aðili að 9. okt. s.l. og forráðamenn þess höfðu undirritað 5. nóv. ásamt hæstv. ráðh.? Mér sýnist að svo geti verið með tilvitnuðum ummælum framkvæmdastjóra álversins í Straumsvík sem Morgunblaðið hefur séð ástæðu til að taka upp orðrétt og sérstaklega 16. nóv. s.l.

Það væri í rauninni ekki rétt af mér að víkja hér úr stóli og gleyma garminum honum Katli með öllu. Hér kvaddi sér hljóðs talsmaður Framsfl., hv. þm. Sverrir Sveinsson, 2. þm. Norðurl. v. og ég hygg nú formaður iðnn. í fjarveru Páls Péturssonar. Hann gaf yfirlýsingar um það að Guðmundur G. Þórarinsson fyrrv. alþm. hafi túlkað stefnu og afstöðu Framsfl. í einu og öllu þegar hann tók sínar ákvarðanir í álviðræðunefnd og setti þar úrslitakosti. Ég vænti að hv. þm. sé hér í húsinu enn þá af því að hann tók til máls og ég hefði kunnað því betur að hann heyrði þau orð sem ég vildi við hann mæla.

Ég lét að því liggja í mínu máli að Guðmundur G. Þórarinsson hafi talið sig eiga nokkurn bakhjarl í Framsfl. þegar hann steig sín skref 6. og 7. des. 1982. En að hann hefði haft Framsfl. sameinaðan bak við sig og nánast verið að framkvæma stefnu hans og flokksþingssamþykktir með sínum tilþrifum, það er alveg nýtt og mjög fróðlegt að fá það upplýst hér á Alþingi Íslendinga. Ég vænti þess að virðulegur forseti hafi gert ráðstafanir til að kanna hvort hv. þm. sé í húsinu. (Forseti: Já, forseti hefur gert ráðstafanir til þess og væntanlega er hv. þm. ekki farinn úr húsinu. Enn hefur ekki borist vitneskja þar um.) Ég held að nauðsynlegt sé að rifja hér aðeins upp í samþjöppuðu máli, því að það er auðvelt, till. Guðmundar G. Þórarinssonar í álviðræðunefnd þann 6. des. 1982. Ég hef hana hér fyrir framan mig eins og hún var þar lögð fram. Hún var í sjö liðum og hljóðaði þannig, með leyfi virðulegs forseta.:

„1. 20% hækkun raforkuverðs frá og með 1. febr.

2. Aðilar eru samþykkir lið 1 a-

c í símskeyti Alusuisse frá 10. nóv. með breytingum, ótilteknum að öðru leyti.

3. Aðilar samþykkja tafarlaust viðræður um raforkusamning skv. lið 2 a í sama símskeyti með verðhækkunarformúlu.

4. Aðilar samþykkja tafarlausar viðræður um endurskoðun aðalsamnings varðandi ákvörðun framleiðslugjaldsins skv. lið 2 b í sama símskeyti.

5. Ríkisstj. samþykkir sem meginatriði (í prinsippinu):

a) Stækkun álbræðslunnar skv. frekari samningaviðræðum, m.a. 3. og 4. lið hér að ofan.

b) Þátttöku nýs hluthafa í ÍSAL.

6. Alusuisse samþykkir sem meginatriði (í prinsippinu) að gefa ríkisstj. Íslands kost á að gerast hluthafi í ÍSAL.

7. Samningaviðræðum skal vera lokið fyrir 1. apríl 1983.“ Undir þessu er fangamarkið GGÞ.

Staðan í álviðræðunefnd þann dag, sem Guðmundur G. Þórarinsson bar fram þessa kröfu og lét reyna á hana til úrslita og tók síðan sínar ákvarðanir, var sú að Alusuisse hafði þá enn og aftur neitað nokkurri hækkun raforkuverðsins án skilyrða svo sem sett var fram af hálfu íslensku álviðræðunefndarinnar, þ.e. ráðuneytis, og með stoð í samþykktum ríkisstj. frá 26. febr. 1982. Því höfðu þeir staðfastlega neitað.

Í öðru lagi höfðu þeir þann sama dag sett fram kröfu um það — og um það var Guðmundi G. Þórarinssyni fullkunnugt — að Íslendingar léttu af kaupskyldu álversins á raforku úr 85% niður í 50%. Þessar kröfur stóðu á Íslendingum þegar Guðmundur G. Þórarinsson gerir um það till. í álviðræðunefnd að fá fram 20% hækkun raforkuverðsins upp í 7.8 mill frá 1. febr. 1983 að telja og jafnframt yrði gengist inn á ákveðin meginatriði sem Alusuisse hafði teflt fram 10. nóv. í símskeyti til ríkisstjórnar Íslands, þ. á m. að í prinsippi yrði skrifað upp á stækkun álversins og hið stóra atriði auðhringsins að fá heimild til þess að draga helming hlutabréfa út fyrir sviga samsteypunnar og létta því af bankareikningum fjölþjóðafyrirtækisins. Þessu var neitað af mínum fulltrúa í álviðræðunefnd og ekki tekið undir það af fulltrúum annarra flokka sem gerðu sér þessa stöðu ljósa og hversu fráleit hún var.

Það er fróðlegt að fá það hér upplýst af fulltrúa Framsfl., hv. 2. þm. Norðurl. v., að Guðmundur G. Þórarinsson hafi ekki verið einn. Nei, hann var að framkvæma stefnu Framsfl. eins og frá henni hafði verið gengið á þingum og í stofnunum flokksins.

Hvað hafði formaður álviðræðunefndar aðspurður að segja um þessa frammistöðu fulltrúa Framsfl. í Tímanum þann 10. des. 1982. Með leyfi forseta sagði hann þetta í stuttu viðtali við Tímann undir yfirskriftinni „Vilhjálmur Lúðvíksson um till. Guðmundar G. Þórarinssonar í álviðræðunefndinni: „Algerlega úr samhengi“.

„Það voru allir nefndarmenn sammála um að það þyrfti með einhverjum hætti að kalla fram viðbrögð hjá Alusuisse til að sjá hvort þeir hefðu vilja til að hækka raforkuverð. Það var þó matsatriði með hvaða hætti ætti að kalla þessi viðbrögð fram, en allir nefndarmenn voru sammála um að það ætti ekki að setja fram úrslitakosti á þessum fundum, sagði Vilhjálmur Lúðvíksson formaður álviðræðunefndar í samtali við Tímann.

Vilhjálmur sagði að þó nefndarmenn hefðu e.t.v. verið að leita að því sem kalla mætti ýtrustu tilraun, sem þá væri forsenda úrslitakosta, þá hefðu allir verið sammála um að engir úrslitakostir yrðu lagðir fram að þessu sinni. Guðmundur G. Þórarinsson hefði sjálfur nefnt og talið sanngjarnt að Alusuisse yrðu gefnar ein til tvær vikur til að svara.

Um till. Guðmundar G. Þórarinssonar sagði Vilhjálmur: — Ég verð að segja sem formaður þessarar nefndar að ég skil ekki hvernig á því stendur að Guðmundur skuli krefjast þess af ráðh. hálfri klukkustundu fyrir lokafundinn með Alusuisse að þessi till. hans, sem ekki var búið að ganga frá í nefndinni, yrði tekin upp við Alusuisse. Þetta hafi verið enn fráleitara í ljósi þeirrar kröfu sem fulltrúar Alusuisse lögðu fram um lækkun kaupskyldu úr 85% í 50%. Þá hafi slíkir hagsmunir verið í veði að till. Guðmundar um 20% hækkun raforkuverðs hafi algjörlega verið úr samhengi.

Um stöðu álviðræðunefndarinnar nú eftir þessa síðustu atburði sagði Vilhjálmur að það væri ljóst að nefndin væri ekki starfhæf í bili. Það væri aðstandenda nefndarinnar að taka ákvörðun um framhaldið, en enn sem komið væri hefðu engin fyrirmæli borist þar að lútandi.“

Ég taldi nauðsynlegt að upplýsa hv. þdm., þá aðra en þm. Framsfl., um þetta efni. Það er fróðlegt að það skuli hafa verið staðfest hér úr ræðustóli þessum að forusta Framsfl. hafi öll verið í fylkingu á bak við Guðmund G. Þórarinsson varðandi þau vinnubrögð sem hér var um að ræða. En till. hans var svohljóðandi skv. bókun þriðjudaginn 7. des., hún er ekki löng, virðulegi forseti:

„Á fundi álviðræðunefndar sem haldinn var þriðjudaginn 7. des. 1982 milli kl. 14 og 15.30 gerði Guðmundur G. Þórarinsson svohljóðandi bókun:

„Verði till. mín frá í gær, með breytingu í svipuðum dúr og formaður nefndarinnar lagði til, ekki borin fram á fundi iðnrh. og dr. Müller hér á eftir sem svartilboð af Íslands hálfu lít ég þannig á að grundvöllur samráðs í nefndinni sé brostinn og segi ég mig hér með úr nefndinni og lýsi allri ábyrgð á framgangi samningaviðræðnanna á hendur iðnrh.“

Síðan segir í þessari bókun nefndarinnar: „Bókun þessi var borin undir Guðmund G. Þórarinsson í símtali í dag og frá orðalagi bókunarinnar gengið. Lýsti hann því jafnframt yfir að fyrst slík till. hefði ekki verið lögð fram kæmi bókun hans til framkvæmdar og hann væri genginn úr nefndinni.“

Ég vona satt að segja að hv. þm. Sverrir Sveinsson hafi mælt sín orð hér án þess að kunna glögg skil á þeirri mynd sem ég er hér að draga upp varðandi þau skref sem Guðmundur G. Þórarinsson tók sem fulltrúi Framsfl. í álviðræðunefnd 7. des. 1982. En á meðan annað er ekki upplýst hlýtur það að standa sem hér hefur verið sagt um þau efni og vissulega kom mér ekkert á óvart að hann átti hauka í horni innan forustu Framsfl.

Ég kom að því hér fyrr í dag að sú pólitíska meginbreyting, sem varð á stöðunni í samskiptum við Alusuisse, gerðist innan Framsfl. Fylgi Sjálfstfl. að meiri hl. til og þess liðs, sem var í stjórnarandstöðu á þessum tíma, lá fyrir út af fyrir sig og kom ekkert á óvart. Þó sýndi þingflokkur Sjálfstfl. þann lit að starfa innan álviðræðunefndar þar sem allir þingflokkar áttu sinn fulltrúa og það voru ekki þeir sem rufu þennan samstarfsvettvang þótt í stjórnarandstöðu væru. Það var fulltrúi stærsta stjórnarflokksins sem það gerði.

Það mætti margt segja um þá sérkennilegu þróun sem varð innan Framsfl. frá þeim árum, sem núv. formaður og hæstv. forsrh. var þar í bullandi minni hl. 1965 og 1966 þegar álsamningarnir voru á dagskrá, og þar til sjónarmið hans urðu að meirihlutasjónarmiði innan flokksins á síðasta áratug smám saman og kristölluðust í þeirri afstöðu og aðstöðu sem Framsfl. setti sig í í álmálinu á seinni hluta stjórnarsamstarfs ríkisstj. dr. Gunnars Thoroddsens.

Svo kom hv. þm. Sverrir Sveinsson hér að lokum síns máls og rétt tæpti á þeirri áróðurslummu sem á að hjálpa Framsfl. í því máli, sem hann stendur nú í við hlið hæstv. iðnrh. og Sjálfstfl., að berja hér fram á Alþingi Íslendinga þá óhæfu sem er að finna í því frv. sem hér er til umr. Þessi aðalbjarghringur flokksins er ekki betur fenginn en svo að hann byggir á lygum og fölsunum. Og ætli sá sem kveður í þeim kór hafi ekki verið að tala yfir fulltrúaráði Framsfl. í hádeginu í gær og haft vísuna yfir? Hún var endurtekin hér úr stólnum, hv. talsmaður, en hv. 2. þm. Norðurl. v. hafði ekki fyrir því að taka skýrt til orða. Hann sagði að komið hefði fram frv. á Alþingi í fyrra, held ég að hann hafi sagt, þar sem gert var ráð fyrir orkuverðinu 12.5 mill. Í hvað ætli sé verið að vitna hér? Af hverju setja framsóknarmenn sig í þá stöðu að ætla að byggja sína vörn á ósannindum og hálfkveðnum vísum?

Ég lagði hér fram í Nd. Alþin is í febr. 1983 frv. til l. um leiðréttingu orkuverðs til Íslenska álfélagsins hf. Flm. með mér á þskj. 363 á 105. löggjafarþingi voru þm. Alþb. hér, þáv. þm. í þessari þd. Frv. er í fimm greinum. Það er rétt að rifja það upp, með leyfi forseta, að gefnu tilefni og væri ágætt fyrir þm. Framsfl., sem hér eru, að fá frv. í skjalavörslu Alþingis og hafa það með sér næst þegar þeir taka undir þá plötu sem forusta flokksins hefur sett á til að reyna að fleyta sér í þeirri stöðu sem flokkurinn nú er í í þessu máli:

„1. gr. Verð á raforku frá Landsvirkjun til Íslenska álfélagsins hf. skv. rafmagnssamningi dags. 28. júní 1966 með viðaukum dags. 28. okt. 1969 og 10. des. 1975 skal vera 12.5 mill á kwsf. (0.0125 Bandaríkjadalir á kwst.).

2. gr. Ákvæði í 13. gr. rafmagnssamningsins milli Landsvirkjunar og Íslenska álfélagsins hf. um orkuverð svo og önnur ákvæði í samningnum, sem fara í bága við ákvæði 1. gr. laganna, eru úr gildi numin.

3. gr. Lög þessi falla úr gildi þegar samningar hafa tekist milli ríkisstjórnar Íslands og Swiss Aluminium Ltd. um endurskoðun raforkuverðsákvæðis rafmagnssamningsins sem að framan greinir.

Sú endurskoðun skal byggjast á eftirfarandi:

a) Þeirri grundvallarstefnu, sem lögfest er í 11. gr. laga nr. 59/1965 um Landsvirkjun, að raforkuverð í samningum til langs tíma við stóriðjufyrirtæki megi ekki valda hærra raforkuverði til almenningsveitna en ella hefði orðið;

b) Raforkuverði því sem álver annars staðar í heiminum greiða;

c) Framleiðslukostnaði raforku hér á landi; d) Heimsmarkaðsverði á áli.

4. gr. Fari svo, að ekki náist samningar um endurskoðun raforkuverðsákvæðis skv. 3. gr. fyrir árslok 1983, skal stjórn Landsvirkjunar með stoð í þessum lögum ákvarða með gjaldskrá raforkuverðið til álversins í Straumsvík á bilinu 15–20 mill á kwst. (0.015– 0.020 Bandaríkjadalir á kwst.) frá og með 1. jan. 1984 og breytist verðið eftir það í samræmi við breytingar á skráðu heimsmarkaðsverði á áli, eins og það er skilgreint í ákvæðum 26.02 í aðalsamningi milli ríkisstjórnar Íslands og Swiss Aluminium Ltd. dags. 28. mars 1966 með viðaukum dags. 28. okt. 1969 og 10. des. 1975. 5. gr. Lög þessi öðlast þegar gildi.“

Í skýringum við þennan lagatexta er m.a. kveðið á um að verðbreytingar með viðmiðunum við heimsmarkaðsverð á áli, sem um er að ræða, „alcan price“ geti aðeins verið til hækkunar frá því lágmarki sem gert er ráð fyrir að ákveðið verði á bilinu 15–20 mill á kwst. og engin skerðingarákvæði eins og eru í gildandi samningi, sem gerir ráð fyrir skertri verðtryggingu í gildandi samningum á verðbilinu frá 40 cent á pund upp í 70 cent á pund. Miðað við 70 cent á pund, þá er verðtryggingin aðeins 40% eða 2/5. Þetta er það mál sem Alþb. lagði hér fyrir. Það er skýrt og ef eftir því hefði verið farið og undirtektir væru við það værum við í annarri stöðu nú en raun ber vitni.

Það er hins vegar undir frostmarki og sýnir í hvaða stöðu Framsfl. telur sig vera og hvaða meðul hann telur sér henta að nota í áróðri þegar hann gefur út dagskipun til sinna manna um að breiða það út að Alþb. hafi gert ráð fyrir að lögfesta raforkuverð til Íslenska álfélagsins í 12.5 millum og láta þar við sitja. Ég hef þegar heyrt þessa plötu leikna. Ég hef þegar heyrt utan úr bæ marga bera vitni um það að hún er í fullum gangi á vegum Framsfl. Ég segi við hv. þingbræður hér úr Framsfl. og þdm.: Verði þeim að góðu. Ef málstaðurinn er ekki betri og trúin á hann en svo, að grípa þurfi til áróðurs af þessu tagi, þá verði þeim að góðu. Svo lengi sem þeir vilja fylkja liði um stefnu Guðmundar G. Þórarinssonar í álmálinu, þá er það að sjálfsögðu þeirra mál. En ég er ansi hræddur um að það hafi á sínum tíma farið um marga fyrrv. heiðarlega stuðningsmenn Framsfl., sem urðu vitni að vinnubrögðum flokksforustunnar og þessa fulltrúa flokksins í álviðræðunefnd á sínum tíma, og þeir séu margir, sem enn binda e.t.v. einhverjar vonir við flokkinn, sem væntu þess að hann væri snúinn frá þeirri villu síns vegar. Svo virðist því miður ekki vera.

Virðulegi forseti. Það var brýn ástæða til þess að gefnu tilefni ráðh. og stjórnarþm. að koma þessum athugasemdum á framfæri.