27.11.1984
Sameinað þing: 25. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 1361 í B-deild Alþingistíðinda. (890)

1. mál, fjárlög 1985

Fjmrh. (Albert Guðmundsson):

Herra forseti. Ég vil taka undir það með hv. síðasta ræðumanni að allt það, sem hann hefur hér úr þessum stól farið með eftir fjmrh., er að sjálfsögðu rétt og honum er heimilt að vitna til þess hér og hvar annars staðar sem er.

Áður en ég kem að því að svara hv. 3. þm. Reykn. vil ég svara hér lítillega hv. þm. Kristínu Halldórsdóttur. Það er ekki rétt að skerðing jöfnunarsjóðsframlags til sveitarfélaga sé 140 millj. Það er 38 millj. Það er heldur ekki rétt að ríkisstj. öll eða fjmrh. hafi lofað gulli og grænum skógum til húsbyggjenda. Ég gerði þveröfugt, ég varaði við þegar aðrir lofuðu við gerð fjárlaga fyrir 1984. Svona var ræðan full af fullyrðingum sem ekki standast. Ég sé ekki mikla ástæðu til að elta þær uppi, t.d. ef sveitarfélög hefja byggingarframkvæmdir, þá gera þau það á eigin ábyrgð ef ekki er samþykki ríkisins fyrir byggingarframkvæmdunum áður en þær eru hafnar. Ég tel ekki ástæðu til að elta það.

Ég verð að biðja hv. þm. Kristínu Halldórsdóttur innilega afsökunar á því að það plagg, sem ég dreifði í gær til stjórnarandstöðunnar, Skyldi ekki hafa komist í hendur stjórnarandstöðunnar um leið og ríkisstj. fékk það og þá líklega áður en þingflokkar þeir sem standa að ríkisstj. fengu það til athugunar. Það er ekki vegna þess að það hafi dregist umfram það sem eðlilegt getur talist að afhenda stjórnarandstöðunni viðkomandi plagg frá 17. nóv. heldur vegna þess að stjórnarflokkarnir voru ekki búnir að skoða þetta fyrr en eftir að ríkisstj. fékk það um miðja viku. Síðan kom helgi inn á milli og gerði ég tilraunir, eins og hv. þm. Ragnar Arnalds veit, til að ná stjórnarandstöðunni saman fyrir helgi. Það tókst ekki en það tókst á mánudeginum.

Ég tel mig hafa staðið við það — þó að það hafi kostað umfram ádeilu má segja á mig sem.fjmrh., enda gefur það tilefni til og ég átti von á því — sem ég gat um við gerð fjárlaga 1984 að ég mundi endurskoða fjárlögin fljótlega eftir að þau voru samþykkt. Það var gert. Ég tel að núna sé að koma í ljós að gjaldalega séð, rekstrarlega séð, séu þau nokkuð rétt miðað við þá útkomu eins og virðuleg stjórnarandstaða veit af þeim gögnum, þessum yfirlitum, sem ég hef afhent henni reglulega. Tekjulega séð koma þau betur út en búist var við skv. áætlun í maí. Ég hef líka talið að það væri rétt af fjmrh. að leggja hreinskilnislega fram allar upplýsingar sem hann hefði um stöðu ríkissjóðs. Það hef ég gert, m.a.s. með lista yfir þær aukafjárveitingar sem samþykktar hafa verið, jafnvel þó ein og ein sundlaug læðist með hér og þar um veröldina. En það vill svo til að mér er sagt að þessi sérstaka sundlaug, líklega sú eina sem hefur verið byggð á þennan hátt, hafi verið á loforðalista a.m.k. þriggja eða fjögurra fjmrh. Þeir sem hafa búið við það loftslag sem er í Bandaríkjunum, sérstaklega á þessum stað í Bandaríkjunum, Washington, vita að sundlaug sem slík er heimilistæki sem tæplega er hægt að vera án vegna hita. Við þurfum okkar sundlaugar af allt öðrum ástæðum. En ég hef sjálfur búið í heitu loftslagi og get sagt að það er ekki óþarfafjárfesting.

En mig langar til að leiðrétta eitt sem hv. 7. landsk. þm. kom að. Hv. þm. spurði um 600 millj. kr. hækkun söluskatts — (Gripið fram í: Lækkun.) — Það kom nú út sem hækkun. (Gripið fram í: Lækkun.) — Lækkun söluskatts? Það er engin lækkun söluskatts (Gripið fram í.) Það er ekki lækkun söluskatts nema þm. eigi við þær 400 millj. kr. rúmar sem á að endurgreiða til sjávarútvegsins. En hér er líklega átt við — úr því að talan 600 millj. kemur upp — þann söluskatt sem átti að innheimta skv. frv., eins og það var lagt fram, til að mæta niðurfellingu tekjuskatts. (Gripið fram í: Já.) En það hefur verið horfið frá því. Þær 600 millj. verða ekki innheimtar, þannig að söluskattshækkunin verður ekki, en 600 millj. tekjuskattslækkun verður. Ég vil bara leiðrétta það.

En hvað varðar Lánasjóð ísl. námsmanna vil ég á þessu stigi ekki svara því, enda get ég það ekki og verð að vísa þeirri spurningu til hæstv. menntmrh.

Hv. 3. þm. Norðurl. v. er farinn, en ég ætla samt að svara spurningu hans, sem reyndar var líka spurning hv. 3. þm. Reykn., um 320 millj. kr. nýja tekjuöflun. Svar mitt er svohljóðandi: Ríkisstj. hefur ákveðið að beita sér fyrir sérstakri nýrri fjáröflun allt að 320 millj. kr. til að draga úr þeim halla sem ella yrði fyrirsjáanlegur á fjárlögum næsta árs. Ég gat um þetta í minni framsöguræðu í dag. Þessi fjáröflun verður kynnt síðar og ég vonast til að það verði innan fárra daga eða a.m.k. ekki seinna en við 2. umr. fjárlaga. Þetta er sem sagt til skoðunar í ríkisstj. og þingflokkunum. En skv. till., sem liggja nú hér frammi, finnst mér furðulegt ef fulltrúar þeirra, sem ég með fullum sanni get kallað skattpíningarflokka, fara að gera athugasemdir við það þó að hér verði um fjáröflun upp á 320 millj. að ræða miðað við þær hugmyndir sem hér hafa komið fram.

Rétt er að geta þess að frv. um skattstiga og útfærslu á 600 millj. kr. tekjuskattslækkuninni mun líklega koma fram á morgun. Þá sjá menn hvernig þessi 600 millj. kr. niðurfelling á tekjuskatti verður í framkvæmd.

Hv. 3. þm. Reykn. spurði um gjaldtöku á lyfjum og lækniskostnaði. Ég vil svara því á eftirfarandi hátt: Það er ekki ætlun að auka þátttöku sjúklinga í lyfja- og lækniskostnaði frá því sem nú er í krónutölu. Það er rétt hjá hv. þm. að í frv. er gert ráð fyrir að gjaldtakan hækki miðað við almenna verðlagsbreytingu. Ef sá háttur hefði verið viðhafður mundi gjaldtakan vegna verðbreytinga nema um 40 millj. kr. En í því endurmati, sem nú hefur verið gert á gjöldum ríkissjóðs, hefur verið tekið tillit til þess að ríkissjóður taki þennan kostnaðarauka á sig. Ég vona að þetta sé nógu skýrt svar.

Þá spurði sami hv. þm. um útflutningsbætur. Svar mitt er: Í lögum um ráðstafanir í ríkisfjármálum, sem samþykkt voru á s.l. vori var ákveðið að úr ríkissjóði yrði ekki greidd hærri fjárhæð til útflutningsbóta en 468 millj. kr. Í fjárlagafrv. fyrir 1985 er gert ráð fyrir 380 millj. kr. í þessu skyni og hefur því ekki verið gert ráð fyrir að þessi fjárhæð hækkaði með endurmati á gjaldahlið frv. sem ég hef gert grein fyrir hér í dag. Þessi ákvörðun er í fullu samræmi við þá stefnumörkun ríkisstj. að draga svo úr þessum framlögum að þau verði alveg horfin eftir nokkur ár. Í þessu sambandi þarf að grípa til margháttaðra ráðstafana til að draga svo úr landbúnaðarframleiðslunni að þessara framlaga verði ekki lengur þörf. Að þessu er nú unnið á vegum landbrh. í nánu samráði við hagsmunaaðila í landbúnaði. Þetta vona ég að svari þessari spurningu hv. 3. þm. Reykn.

Þá vil ég svara fyrirspurn um jarðeignir ríkisins. Hv. 3. þm. Reykn. benti réttilega á að til jarðeigna ríkisins eru ætlaðar 4 millj. 905 þús. kr. skv. frv. Þetta framlag miðast eingöngu við það að inntar séu af hendi greiðslur sem samningsbundnar eru. Hv. þm. spurði hver afgjöld af ríkisjörðum séu talin verða. Því er til að svara að skv. frv. er talið að þetta geti numið um 900 þús. kr. eins og kom fram hjá hv. þm. hér fyrir stundu. En til glöggvunar fyrir þm. vil ég upplýsa að 1983 námu afgjöld ríkisjarða 629 þús., 1982 480 þús., 1981 183 þús. og 1980 100 þús. Tel ég mig hafa svarað þessari spurningu.

Síðasta spurningin sem ég held að ég hafi fengið frá hv. 3. þm. Reykn. fjallar um framsetningu frv. skv. reglum Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Ég hef beitt mér sérstaklega fyrir því að í frv. yrði gerð grein fyrir fjárhag ríkissjóðs skv. þessum reglum. Þetta er gert að gefnu tilefni því að þm. jafnt sem embættismenn hafa margoft bent á það að fjárhagur A-hluta ríkissjóðs einn og sér gefi ófullnægjandi yfirlit yfir lánsfjármál ríkisins sérstaklega. Ég vona að þetta sé nægilegt svar. Þetta var gert til að þm. og embættismenn hefðu betra yfirlit yfir stöðu ríkissjóðs. Ég tek hjartanlega undir með hv. þm. að það er sannarlega kominn tími til að við höfum málin og tölurnar, niðurstöðurnar, það ljósar fyrir okkur að við áttum okkur á að hér eftir — og þó fyrr hefði verið – þarf að fara hægar í sakirnar, sérstaklega hvað erlendar lántökur snertir, en hingað til hefur verið gert.

Ég held að ég hafi þessi orð ekki fleiri, en ég vil þakka virðulegri stjórnarandstöðu fyrir málefnalegar umr. við þessa 1. umr. fjárlaga.