28.11.1984
Efri deild: 20. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 1367 í B-deild Alþingistíðinda. (901)

167. mál, Verðlagsráð sjávarútvegsins

Frsm. (Valdimar Indriðason):

Virðulegi forseti. Það frv. er hér liggur fyrir um breyt. á lögum um Verðlagsráð sjávarútvegsins var tekið fyrir í sjútvn. þessarar hv. deildar í gær. Nm. voru sammála um að mál þetta hlyti sem fyrst afgreiðslu, eins og meðfylgjandi nál. ber með sér. Einn nm., Karl Steinar Guðnason, var fjarstaddur vegna sinna starfa á þingi Alþýðusambandsins og tveir nm., hv. þm. Skúli Alexandersson og Stefán Benediktsson, rituðu undir með fyrirvara. Þeir munu gera nánari grein fyrir því sem þeir gera fyrirvara við.

Þetta frv. er ekki stórt í sniðum. Það fjallar um að nýtt fiskverð verði tekið upp fyrir tímabilið 21. nóv. til 31. ágúst 1985 með heimild um uppsögn á verðtímabilinu, þó ekki fyrr en 1. júní 1985. Það lágmarksverð sem nú er í gildi á ferskfiski á að standa til áramóta, en þá skyldi hefjast nýtt verðtímabil sem stæði til vertíðarloka þó að það sé nokkuð komið undir reglugerð sem Verðlagsráð vinnur eftir. En nú eru þær aðstæður í þjóðfélaginu að veruleg breyting hefur orðið á kjarasamningum meginþorra launþega landsins og því hafa forsendur síðustu fiskverðsákvörðunar, sem tekin var í júní s.l., raskast verulega. Er því fyllsta sanngirni í því að breyta áður gerðri fiskverðsákvörðun nú þegar, en bíða ekki með það til áramóta eins og núgildandi lög og reglur heimila. Með þessari breytingu, ef samþykkt verður, er leitast við að rétta hlut sjómanna nokkuð til samræmis við aðrar stéttir, enda hafa þeir þrátt fyrir þessa leiðréttingu dregist verulega aftur úr í launum vegna aflasamdráttar og nauðsynlegrar skömmtunar á okkar verðmætustu fiskistofnum á þessu ári og er því full þörf á því að þarna sé ekki beðið eftir því sem í gildi er til áramóta. Þó ekki lifi langur tími af þessu ári er það fullkomið réttlætismál að þeir fái þar leiðréttingu sinna mála því að þeir byggja mest sína afkomu á aflahlut eins og allir vita hér.

Ég ætla ekki að hafa hér öllu fleiri orð um, en þess er óskað að þetta frv. verði afgreitt sem fyrst hér á hæstv. Alþingi og vildi ég mælast til þess við þessa hv. þd. og virðulegan forseta að ljúka málinu hér í deildinni í dag ef mögulegt væri-og þá með afbrigðum-vegna þess að sjómenn, útgerðarmenn og aðrir bíða eftir því að hægt sé að takast á við nýja verðlagsákvörðun. Það er ekki hægt að gera nema fyrir liggi sú breyting á lögum sem rætt er um.

Ég ætla svo ekki að hafa hér fleiri orð um. Allir vita af hverju þetta er gert og ég hef leitast við að skýra það í fáum orðum.