28.11.1984
Neðri deild: 16. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 1412 í B-deild Alþingistíðinda. (914)

143. mál, álbræðsla við Straumsvík

Kjartan Jóhannsson:

Herra forseti. Afstöðu Alþfl. í þessu máli var lýst í Ed. í nál. 1. minni hl. sem undirritað var af Magnúsi H. Magnússyni varaþm. Það er kunnara en frá þurfi að segja að við Alþfl.-menn höfum talið að við ættum að nýta þá möguleika sem felast í fallvötnum okkar til að efla hér atvinnulíf. Við stóðum á sínum tíma að þeim samningi sem gerður var varðandi álbræðsluna í Straumsvík.

Ég tel að þeir sem skoðað hafa þennan samning og hvernig hann hefur reynst hljóti að telja að hann hafi reynst traustur að öllu leyti nema að því er varðar tvö átriði. Vegna þessara tveggja atriða hafa komið upp deilumál og ýmiss konar harðrétti fyrir okkur Íslendinga vegna breytinga sem hafa orðið á ytri aðstæðum í heiminum. Í ljósi þeirrar reynslu á fyrst og fremst að endurskoða þann samning sem hér um ræðir.

Fyrra atriðið sem brast er það að orkuverð hefur ekki fylgt verðlagsþróun í heiminum og þrátt fyrir nokkra leiðréttingu 1975 — sem var reyndar að mestu leyti í því fólgin, ef ekki öllu, að lækka skatttekjur ríkisins en færa í staðinn samsvarandi hlut yfir í orkuverðið - hefur orkuverð dregist mjög aftur úr. Í samningunum frá 1975 var einhvers konar verðviðmiðun sem átti að vera í átt við verðtryggingu. Hún reyndist ekki duga betur en raun ber vitni þannig að orkuverðið var langt fyrir neðan það sem eðlilegt gat talist þegar sú deila, sem hér er lagt til að leyst verði með þeim pappírum sem hér er til umfjöllunar, upphófst. Orkuverðið reyndist sem sagt of lágt og það reyndist torsótt að fá breytingar á því.

Hitt atriðið, sem hefur valdið árekstrum, er það að túlkun á afkomu fyrirtækisins hefur ekki verið einhlít. Það hefur ekki verið sama skoðun sem hefur verið uppi af hálfu íslenska ríkisins um afkomu fyrirtækisins og þar með skattlagningu og fyrirtækið lagði fram reikninga um. Það var þess vegna að vonum að þegar núv. iðnrh. tók til starfa skyldi hann lýsa því yfir að við þyrftum með óyggjandi hætti í fyrsta lagi að tryggja okkur það verð fyrir orkuna sem svaraði til kostnaðarverðs, að hún yrði ekki seld á undirverði, og í annan stað að það yrði að vera óyggjandi að ekki yrðu deilur um skattamál áfram.

Nú er spurningin: Hefur þessum markmiðum ráðh. verið náð með þeim pappírum sem hér eru til umfjöllunar? Ég tel að svo sé ekki. Hv. þm. Gunnar G. Schram talaði um að skattamálin væru eiginlega öll eftir. En var ekki hugmyndin að það tak, sem Íslendingar höfðu á þessu máli, væri notað, til að leysa málið í heild? Einn veigamesti þátturinn í því að hafa tök á þessu máli var ákvæðið í aðstoðarsamningi sem varðaði bestu k]ör. Ég tel að það hljóti að vera mikið áfall fyrir okkur Íslendinga að hafa fallið frá þessu ákvæði og að það hafi verið mikil mistök að fallast á að viðskiptakjör skyldu vera eins og milli óháðra aðila en ekki miðað við bestu kjör eins og var í hinum upprunalega samningi.

Sannleikurinn er sá að langstærstur hluti af aðföngum til ÍSALs kemur frá móðurfyrirtækjum og dótturfyrirtækjum þess. Það er hætta á því að eftir að sú breyting yrði gerð, sem hér er lögð til um að bestukjaraákvæði gildi einungis um viðskipti við þriðja aðila, mundi þessi hlutfallstala enn hækka. Þá yrði móðurfyrirtækið enn frekar milligönguaðili. Ég tel að það hafi verið alveg einhlítt að þegar þessi samningur var gerður hafi það vakað fyrir þeim sem að honum stóðu, hvort sem þeir hétu Jóhann Hafstein, Bjarni Benediktsson, Emil Jónsson, Gylfi Þ. Gíslason eða Ingólfur Jónsson, að nauðsynlegt væri að hafa mjög stíf ákvæði um það hvers konar kjara ÍSAL nyti vegna þess að það væri hluti af hring, hluti fyrirtækjasamsteypu og það hefði þess vegna alls ekki verið nein tilviljun að þetta ákvæði var sett í aðstoðarsamninginn. Stefnan var sú í upphafi að hafa það sem mest á hreinu að sveiflur í afkomu fyrirtækisins hefðu sem ritinnst áhrif á íslenskt efnahagslíf og hafa skattamálin sem skýrust. Þetta var að ráðum allra þeirra sérfræðinga sem leitað var til. Þess vegna var líka grunnhugmyndin sú varðandi skattana að greitt skyldi framleiðslugjald, sem stæði í beinu hlutfalli við framleiðslumagn eftir ákveðinni formúlu, en rafmagnsverð skyldi vera fast, því að menn höfðu ekki gert sér grein fyrir þeirri sprengingu sem fram undan var í orkuverði og verðbólgu og gjaldmiðlaumróti.

Það sem hins vegar er gert með þeim samningi, sem hér er lagður fram, er að hverfa frá þeim grundvallaratriðum sem lögð voru í upphafi. Í fyrsta lagi um að Íslendingar skyldu ekki láta sveiflur í atvinnurekstrinum hafa áhrif á atvinnulíf sitt, því að hér er innleitt í staðinn fyrir verðtryggingu að binda orkuverðið við verðlag á áli, sem allir geta séð á línuritum að sveiflast mjög mikið milli ára. Þetta getur þýtt það að tekjur Landsvirkjunar muni verða mjög sveiflukenndar í framtíðinni. Í þessu sambandi hlýt ég þó að skjóta því inn að telja verður til mikilla bóta að út hafi verið tekið ákvæði, sem var í drögum að þessum samningum þar sem gert var ráð fyrir því að ÍSAL gæti skert orkukaup sín, því að það hefði heldur betur magnað skellinn, þegar herti að á álmarkaði, að saman færi að samdráttur yrði í orkukaupum frá fyrirtækinu og verðlækkun á orkunni.

Í stað þess að hafa áhættu Íslendinga sem minnsta, verja þá sem mest fyrir þessum sveiflum í rekstri ÍSALs er nú farið inn á þá braut í þessum samningi að taka áhættu af rekstrinum og leiða inn í íslenskt atvinnulíf og efnahagslíf, ekki einungis að því er varðar skattalega afkomu fyrirtækisins, heldur líka að því er raforkuverð varðar.

Verðtrygging hefði á hinn bóginn miðast við einhvern stöðugan verðmælikvarða eins og orkuverðið í heiminum. En ég held engu að síður að nauðsynlegt hefði verið-og á það höfum við Alþfl.-menn lagt áherslu — að uppsagnarákvæði væru ótvíræð vegna þess að nægar höfum við haft uppákomurnar í þessum samningi til þess að fyllsta ástæða væri til að geta tekið hann til endurskoðunar, án þess að nokkurt sérstakt harðrétti þyrfti til að koma, á fimm ára fresti. Það hefur heyrst úr þessum ræðustól og reyndar frá ýmsum öðrum að það uppsagnarákvæði, sem nú sé gert ráð fyrir að setja inn, sé verra en ekkert. Ég skal ekki leggja á það dóm, en það stenst alls ekki þær kröfur sem er eðlilegt og réttlátt að Íslendingar geri með hliðsjón af þeirri reynslu sem þeir hafa haft af samningnum.

Að því er þessa þrjá þætti varðar er niðurstaðan sú að skattamálin hafa ekki verið leyst, en takinu, sem menn höfðu á skattamálunum og til að sjá til þess að afkoma fyrirtækisins væri reiknuð eins og upphaflega var til ætlast, hefur verið sleppt með því að brjóta á bak aftur það ákvæði sem var í aðstoðarsamningnum. Í stað þess að taka ekki sveiflurnar inn í íslenskt efnahagslíf af rekstri fyrirtækisins er nú innleitt að við skulum vera þátttakendur í áhættunni. Þessi atriði ein sér eru nægileg til þess að menn hljóta að telja að hér sé horfið af þeirri braut sem margir héldu að hefði verið við lýði fram undir þetta, af þeirri braut sem var mörkuð í upphafi, af þeirri braut sem menn töldu að væri verið að fara inn á þegar samningaumleitanir hófust, af þeirri braut sem maður gat helst ráðið að iðnrh. væri að fara.

Þessar ástæður gera það að verkum að Alþfl. telur ekki fært að mæla með samþykkt þessa samnings. Nú heyrir það til málsins að hæstv. iðnrh. hafði ekkert samráð við Alþfl. frekar en aðra aðila stjórnarandstöðunnar um meðferð þess. Tækifæri til að fylgjast með málsmeðferðinni hefur því verið vægast sagt mjög takmarkað, reyndar nánast ekki neitt. Venjulega hafa menn orðið að búa við það að heyra í fjölmiðlum einhvern leka frá einhverjum nm. um hvað væri að gerast. Það hafa verið einu tíðindin sem menn hafa fengið. Ég held að það hefði verið langtum hollara ef farið hefði fram opinber umræða um þetta mál, um stefnuna sem menn ætluðu að taka í þessum samningum áður en í þá var gengið. Það hefði verið mun farsælla en að fara þá leyndarbraut með lekum sem hér var farin.

Ég hef áður sagt að sú formúla sem hér er valin og menn telja að eigi að vera eins konar verðtrygging en felur fyrst og fremst í sér áhættu fyrir okkur Íslendinga að því er orkuverðið varðar, sú formúla mundi gefa okkur um 13.5 mill að jafnaði á núvirði. Ég hef ekki breytt þeirri skoðun minni af þeim umr. sem hér hafa nú farið fram. Þeir spádómar sem hafa verið lagðir fram af hálfu sérfræðinganna eru ekki þess eðlis að séð verði að það sé fram undan slík hækkun á álverði að raunverðið á orkunni fari upp úr þessari tölu. Og menn verða að gæta að því að þessi formúla er þar að auki þannig samin að til þess að standist á hækkun á álverði og hækkun á orkuverði, þannig að um raunverulega verðtryggingu ætti að vera að ræða, ef þetta væri nú bein og breið braut upp á við eins og spádómar Landsvirkjunar hafa sýnt, þá er formúlan með þeim hætti að álverðið verður að hækka 50% meira en almennt verðlag til þess að um raunverulega verðtryggingu sé að ræða, miðað við almennt verðlag eða hvaða verðlagsmælikvarða sem menn vilja velja sér.

Herra forseti. Ég skal ekki lengja þessar umr. sem hafa staðið í allan dag. En ég hefði talið að menn hefðu átt að læra af reynslunni. Og menn áttu von á því að af hálfu hæstv. ráðh. yrði tekið á þessu máli með öðrum hætti.

Við Alþfl.-menn höfum líka sagt að það væri nauðsynlegt og rétt að ágreiningurinn í skattamálum færi í dóm. Nú valdi ráðh. dómsátt. Það var í sjálfu sér hugsanlegt að velja dómsátt ef út úr því kom jafnframt úrskurður um ótvíræðan skilning Íslendingum í hag á því ákvæði aðstoðarsamningsins sem hefur reyndar samkvæmt þessum tillögum verið felli úr gildi. Og varðandi þau bréf sem hér hafa verið lesin upp frá lögfræðingum vil ég benda á að þeir eru einungis að tala um dollarakröfurnar, hvort Íslendingar geti hugsanlega sætt sig við 3 millj. dollara miðað við þær kröfur í peningum sem hafi verið lagðar fram. Vissulega voru sumar af þeim vafasamar, allt í lagi með það. Við höfum rætt það hér áður. Og ég get vel skilið álit lögfræðinganna um það að frekar en að standa í frekara stappi út af þessum aurum gætu menn þegið 3 millj. dala sem eins konar uppgjör í þeim efnum. En það kemur hvergi stafkrókur fram hjá þessum lögfræðingum um það að Íslendingar eigi í ofanálag og í kaupbæti að afsala sér sterkasta ákvæðinu, sem þeir byggðu allar sínar kröfur á, ákvæðinu um bestu kjör í aðstoðarsamningnum.

Við töldum nauðsynlegt að úrskurðað yrði með dómi hvernig bæri að túlka þetta ákvæði svo að það færi ekkert á milli mála og það lægi fyrir og menn þyrftu ekki að vera að tætast í því í framtíðinni hvers konar túlkun ætti þar að vera. En ef menn hins vegar völdu dómsáttina þá varð það líka að vera hluti af henni að skattaútreikningar væru héðan í frá óyggjandi og að það ákvæði héldist sem var í aðstoðarsamningnum.

Herra forseti. Ég skal ekki fjölyrða frekar um þetta á þessu stigi. Ég tel að ég hafi komið að öllum þeim helstu atriðum sem varða þetta mál og ætla ekki að lengja umr. frekar.