28.11.1984
Neðri deild: 16. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 1443 í B-deild Alþingistíðinda. (922)

143. mál, álbræðsla við Straumsvík

Frsm. 1. minni hl. (Páll Pétursson):

Herra forseti. Það var nú gott og drengilegt hjá 3. þm. Reykv. að hlaupa undir bagga með félaga sínum hv. 5. þm. Austurl. Hins vegar finnst mér þrátt fyrir allt, þó það sé tímafrekara að hlusta á hv. 5. þm. Austurl. þá sé hann nú kunnugri málinu, talsvert mikið kunnugri málinu og skipulegri í sínum ræðum um það. Hv. 3. þm. Reykv. var með útúrsnúninga á afstöðu Framsfl. og ég vísa því nú öllu saman til föðurhúsanna. Hann fór þar með staðlausa stafi eins og ákaflega oft hendir hann. Hann er stórorður og stundum skemmtilegur eins og við hæstv. iðnrh. erum reyndar líka. En það sem ég taldi hv. fyrrv. iðnrh. mæla um of og kallaði fúkyrði, óskynsamleg fúkyrði, fyrr í kvöld, það var þegar hann ræddi um sviksamlegt athæfi hjá Alusuisse. Nú er ég ekki að segja að það hafi verið neinar englapíur þar að verki, síður en svo. Og þaðan af síður að það hafi verið neitt meinlaust þeirra athæfi. En með þessum orðum að tala um sviksamlegt athæfi, þá gaf hann þeim kærkomið tækifæri til að kippa að sér hendinni og snúa upp á sig. Það var illa farið því að okkur var nauðsynlegt að ræða við þá til að geta þjarmað að þeim. Mér fannst hv. 3. þm. Reykv. gera heldur betur úlfalda úr mýflugunni þegar hann fór að ræða stjórnarskrárbrotið sem hann taldi að hér væri verið að fremja.

Auðvitað langaði forráðamenn Alusuisse ekkert sérstaklega til að orðhákurinn hæstv. iðnrh. væri að hælast um af þessari sáttargerð. Í mínum augum er þetta ekki stórmál og ef ekkert ákvæði í þessu plaggi væri vara samara en þetta, þá væri ég nú ekki mjög kvíðinn. Ég er búinn með tíma minn, en þarf enn að koma örstuttri athugasemd á framfæri. Hv. þm. Hjörleifur Guttormsson kvartaði yfir því að ekki væri fjölmennara í þingsölunum. Ég get ekkert gert að því þó þingsalur tæmist þegar hann ætlar að fara að tala. Við mæltum með því 1966 að þessum samningi yrði vísað frá, en við gerum það ekki núna. Síðan hefur nefnilega töluvert vatn til sjávar runnið. Ég vek athygli hv. 5. þm. Austurl. á því að það er búið að reisa álver í Straumsvík, það er gerður hlutur. Og við ætlum ekki að loka því og við ætlum ekki að stöðva þar framleiðslu. Við ætlum heldur ekki að stoppa þær virkjanir sem búið er að reisa til að skaffa þessari fabrikku rafmagn, jafnvel þó að þeir borgi ekki rafmagnið með þeim hætti að hagur sé að því að selja þeim það. En það er búið að virkja, búið að reisa dýrar virkjanir. Það er búið að stofna fjárhag þjóðarinnar í hættu með orkuöflun til að hægt sé að skaffa þessu fyrirtæki rafmagn og við verðum að koma rafmagninu í lóg. Rafmagnsverðið hækkar með þessum samningi um helming og þess vegna er skynsamlegt að samþykkja þennan samning en ekki skynsamlegt að vísa honum frá, með tilliti til þess sem gerst hefur á þessum 18 árum. Hv. þm. ræddi um sögu málsins á ríkisstjórnarfundum og í álviðræðunefnd og varpaði þar steinum að einstökum framsóknarmönnum. Ég sat ekki ríkisstj.fundi og ekki heldur í álviðræðunefnd og veit ekki nákvæmlega hvað þar gerðist, og get því ekki andmælt því sem hv. þm. segir. Ég sat hins vegar í þingflokki Framsfl. þennan tíma og veit hvað þar gerðist. Ég get ekkert gert að því þó að Müller þessi tali við einhverja menn hér í Reykjavík aðra en Hjörleif Guttormsson sem þá var hæstv. iðnrh., og er aldeilis hissa á því að formaður Framsfl., núv. forsrh. skuli hafa sagt að sér litist vel á eitthvað án þess að spyrja hv. þm. Hjörleif Guttormsson fyrst um hvað honum mætti finnast. En iðulega kemur það fyrir að ég má búa við það að hæstv. forsrh. segir að sér lítist vel eða illa á hitt og annað án þess að hafa ráðfært sig nokkurn skapaðan hlut við mig um það áður. (Gripið fram í: Hvað ertu að segja?)