29.11.1984
Neðri deild: 18. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 1478 í B-deild Alþingistíðinda. (950)

143. mál, álbræðsla við Straumsvík

Kjartan Jóhannsson:

Herra forseti. Góðir hlustendur. Það mál sem hér er til meðferðar er alvarlegt og afdrifaríkt og hentar þá illa galgopaskapur eins og ráðh. stundaði hér lengstum áðan í stað málefnalegrar umræðu. Ég tel það ekki til fyrirmyndar.

Til umræðu eru einkum tveir þættir í samningum Íslendinga við Alusuisse, eigendur ÍSALs: annar vegar verð á raforkusölu okkar til ÍSALs og hins vegar skattagreiðslur fyrirtækisins. Málið tengist á hinn bóginn tveimur öðrum atriðum sem rétt er að víkja að. Málið tengist í fyrsta lagi stefnu okkar í atvinnumálum og viðhorfunum til orkufreks iðnaðar. Í öðru lagi varðar það spurninguna um hvernig staðið sé að virkjunarmálum og hvers vegna verð á rafmagni sé svo hátt sem raun ber vitni hér á landi. Ég mun fyrst gera þessi tvö síðarnefndu atriði að umtalsefni, en síðan fjalla um samningagerðina.

Við Íslendingar höfum löngum horft til orkunnar í fallvötnum landsins sem auðlindar sem beisla mætti til hagsbóta fyrir þjóðina og til atvinnuuppbyggingar. Öllum, sem um þessi mál hugsa, ætti að vera ljóst að slík atvinnuuppbygging hlýtur að hluta til að gerast með tilstyrk orkufreks iðnaðar. Við Alþfl.-menn höfum talið það einsýnt og beitt okkur fyrir því, að orkufrekur iðnaður ætti hlut í atvinnuuppbyggingunni. Þessi afstaða okkar hefur ítrekað komið fram hér á Alþingi.

Þessu er hins vegar ekki þannig farið með alla aðra flokka hér á Alþingi. Alþb. vildi t.d. löngum enga stóriðju og hefur ævinlega haft horn í síðu hennar. Sérstaklega hefur Alþb. verið illa við alla samvinnu við erlenda aðila. Gagnrýni Alþb. nú eins og fyrr byggist á þessum sjónarmiðum. Þess vegna verður málflutningur þeirra oft að ofstækiskenndum upphrópunum sem ekki er unnt að taka mark á. Þess vegna hafa þau mál, sem varða orkufrekan iðnað og samvinnu við aðra um hann, gjarnan hlaupið í hnút þegar Alþb.-menn koma að þeim.

Kvennalistinn virðist svo vera alfarið á móti öllum orkufrekum iðnaði og gagnrýni hans um einstök atriði er vitaskuld byggð á því sjónarmiði og þess vegna þeim mun léttvægari.

Alþfl. telur á hinn bóginn að samstarf við erlenda aðila sé eðlilegt, m.a. til þess að minnka áhættu og binda ekki okkar takmarkaða fjármagn í þessum fyrirtækjum í of ríkum mæli. Það fjármagn, sem við Íslendingar höfum til umráða, viljum við Alþfl.-menn að notað verði sem mest til almennrar iðnþróunar og nýjunga í atvinnulífi sem er ekki síður mikilvægt. Orkufreki iðnaðurinn á að stuðla að þeirri þróun, en ekki að hindra hana. Hugmyndin var sú og á að vera sú að hinn orkufreki iðnaður stuðli að því að almennt raforkuverð á Íslandi verði lægra stóriðjunnar vegna, en ekki hærra. Einmitt þetta var lagt til grundvallar þegar samtímis var ákveðið að virkja stórt, að virkja Búrfell, og ráðast í byggingu ÍSALs. Þá vildu Alþb. og Framsfl. hins vegar fara smásprænuleiðina, virkja smátt og láta ógert að nota orkuna til slíks átaks í atvinnuuppbyggingunni. Það var þeirra viðhorf og má vera dæmigert.

Í hinum upphaflegu samningum frá 1966 varðandi ÍSAL kom hins vegar fram alvarlegur veikleiki varðandi orkuverðið og við þann veikleika höfum við verið að fást annað veifið síðan. Í samningunum komu þó jafnframt fram ýmsar styrkleikahliðar, en það er einmitt á þeim styrkleikapunktum sem við höfum byggt sókn okkar í málinu, en þeir hafa m.a. varðað hráefnisverðlagningu og skattaákvæði, og kem ég að því síðar.

Umbót á gjaldeyrismörkuðum, alheimsverðbólga og orkuverðssprenging áttu sinn þátt í því að orkuverðið til ÍSALs hefur reynst og lágt og af þeim sökum hefur almennt orkuverð á Íslandi orðið hærra en ella. En fleira kemur til. Hið háa raforkuverð á Íslandi verður ekki skýrt með þessu einu. Við skulum líta í eigin barm. Kröfluævintýrið var dýrt. Það hefur og mun hafa sín áhrif á orkuverðið. Við fórum geyst í svonefnda byggðalínu. Það hefur líka sín áhrif á orkuverðið.

Með þessu er þó langt í frá öll sagan sögð. Landsvirkjunarrafmagnið, án tillits til þessa, er nefnilega óþægilega dýrt. Við hljótum að spyrja hvort bruðlað hafi verið í virkjunarframkvæmdum, hvort offjárfest hafi verið hjá Landsvirkjun miðað við markaðinn, hvort Landsvirkjun hafi fylgt réttri lántökustefnu eða tekið óhagkvæm og dýr lán. Ja, lánin. Þau hafa greinilega orðið Landsvirkjun dýr og ég get ekki staðhæft að þau hafi yfirleitt verið hagkvæm. Og við höfum gert virkjanirnar óþarflega dýrar, sbr. ótrúlega háar fjárhæðir sem varið er í vegalagningu, gangnamannahús, girðingar, uppgræðslu og hvers kyns sporslur sem samið var um vegna Blönduvirkjunar af fyrrv. iðnrh. og er langt umfram eðlilegar bætur, og enn munu þó ekki öll kurl komin til grafar. Fyrir þetta er almenningur látinn borga í hærra raforkuverði. En síðast en ekki síst er nú upplýst að fjárfest hefur verið í orkuvinnslugetu hjá Landsvirkjun sem er u.þ.b. 15– 20% fram yfir orkuþörf og orkusölumöguleika. Af þessum sökum er kostnaðarverð orkunnar sem þessu nemur hærra.

Þegar menn nú þrátta um hvort kostnaðarverð raforkunnar sé 16,18 eða 20 mill er það ekki síst vegna þess að ýmist er reiknað með að öll orkan sé seld eða einungis sú orka sem í rauninni selst. Þessi atriði öll krefjast sérstakrar rannsóknar. Á s.l. þingi fékk Alþfl. samþykkta till. um að slík athugun færi fram og til þess yrðu kvaddir þrír óvilhallir menn. Iðnrh. Sverrir Hermannsson barðist gegn till. á þingi og dró síðan að skipa nefndina þangað til núna á seinustu vikum. Þau atriði sem ég hef hér nefnt sýna hins vegar að fyllsta ástæða er til að hraða þessari rannsókn og vinna hana vel. Við getum ekki unað því, Íslendingar, að fyrir glappaskot og rangar ákvarðanir búi almenningur á Íslandi við hærra raforkuverð en t.d. í Danmörku þar sem orkan er framleidd með olíu. Þess vegna leggjum við Alþfl.menn áherslu á að þessi rannsókn verði unnin ítarlega og af fullri alvöru. Þjóðin á nefnilega kröfu á skýrum svörum.

Víkjum þá að samskiptunum við Alusuisse, eigendur ÍSALs. Sú rimma, sem staðið hefur yfir undanfarin ár, er önnur atlaga okkar til leiðréttingar á orkuverði. Hinni fyrri lauk árið 1975. Í báðum tilvikum hefur málið snúist annars vegar um orkuverðið til ÍSALs og hins vegar um skattamál fyrirtækisins. Í báðum tilvikum höfum við sótt á um lagfæringar á orkuverðinu, en jafnframt höfum við haft uppi kröfur varðandi skattagreiðslur ÍSALs. Þær kröfur höfum við reist á ströngum ákvæðum í samningunum varðandi samskipti móðurfyrirtækisins Alusuisse við ÍSAL og hvernig grunnur til skattlagningar skuli ákveðinn. Þessi ákvæði hafa verið sóknarvopn okkar í þessum deilum.

Samningarnir frá 1966 og 1975 fólu hins vegar báðir í sér sama veikleikann varðandi orkuverðið. Það sem mönnum fannst e.t.v. viðunandi þegar samningarnir voru gerðir reyndist í báðum tilvikum vera orðið allt of lágt orkuverð að fáeinum árum liðnum.

Reynslan hlaut því að kenna okkur þrennt:

1. Það er ekki nóg að semja um orkuverðið þannig að viðunandi sé í bili eða um stundarsakir, heldur verðum við að ná fram bæði öruggri verðtryggingu og skýrum ákvæðum um reglulega endurskoðun með hliðsjón af ófyrirsjáanlegum atvikum sem reynslan hefur sýnt að alltaf koma fyrir og hafa reyndar leikið okkur grátt.

2. Við yrðum að halda fast á þeim ákvæðum sem vörðuðu samskipti móðurfyrirtækisins Alusuisse við ÍSAL og þar með skattlagningargrundvöllinn.

3. Gera ætti samninginn þannig úr garði að sem minnstum deilum mundi valda í framtíðinni svo að ekki þyrfti að standa í eilífu málastappi.

Með hliðsjón af þessu hefur Alþfl. allar götur lagt áherslu á sanngjarnt orkuverð sem væri ekki lægra en kostnaðarverð orkunnar, verðtryggingu orkuverðsins og endurskoðunarákvæði, jafnframt því sem náð yrði ótvíræðri niðurstöðu í skattamálum til að fækka árekstrum og deilumálum.

Þegar tíðindi tóku að berast af því, reyndar eftir óbeinum leiðum, að til umfjöllunar væri að tengja rafmagnsverðið til ÍSALs við verð á áli, þá vöruðum við Alþfl.-menn sérstaklega við því. Sannleikurinn er nefnilega sá, að með slíku fyrirkomulagi er verið að láta Íslendinga taka þátt í áhættu af rekstri sem þeir eiga ekkert í og ráða í engu yfir.

Varðandi skattamálin höfðum við Alþfl.-menn talið eðlilegt að þau færu til úrskurðar í gerðardóm og vorum sammála þeirri málsmeðferð til þess að fengist gæti ótvíræð niðurstaða um túlkun samningsins. Þegar frá leið valdi ráðh. hins vegar það sem nefnt hefur verið dómsátt. Auðvitað kom hún til álita, en þá skipti máli hvernig hún væri, ekki fyrst og fremst í peningum talið heldur varðandi framtíðartúlkun samningsins. En einmitt í því máli, í túlkun samningsins, hefur ráðh. greinilega brugðist því hann fórnaði öllu Alusuisse í vil.

Lítum þá á einstaka þætti málsins og þá fyrst á orkuverðið. Í þeim samningi, sem hér liggur fyrir, er gert ráð fyrir að það verði á bilinu 12.5–18.5 mill, eins og áður hefur verið greint frá. Sé litið til baka yfir næstliðin ár sést að orkuverðið hefði samkvæmt þessum samningi orðið að meðaltali nálægt 13.5 mill. Mitt mat er að raunvirði samningsins í framtíðinni muni verða lægra en ekki hærra en þessi 13.5 mill þó svo að millin kunni að teljast eitthvað upp á við vegna verðbólgu í Bandaríkjunum.

Þessi mörk, þessi viðmiðun frá 12.5 og upp í 13.5 að jafnaði, fela vissulega í sér verulega hækkun á orku — verði og stórar fjárhæðir, eins og ráðh. gat um hér áðan, sem alls ekki má vanmeta. Þetta er ávinningur. En við verðum að skoða málið í heild og í ljósi reynslunnar. Þetta orkuverð nær því ekki að rísa undir því kostnaðarverði sem tilgreint hefur verið og það er mun lægrá en meðalorkuverð til annarra óháðra áliðjuvera í Evrópu og Ameríku. Þótt hækkunin sé veruleg næst samt ekki nægilega hátt meðalverð.

En hvað þá um verðtrygginguna? Í samningnum er í sannleika sagt ekki raunveruleg verðtrygging. Jafnvel þótt litið sé fram hjá sveiflum á álmarkaði er ljóst að samkvæmt þeirri formúlu sem tengir rafmagnsverðið við verð á áli er ekki um verðtryggingu að ræða. Samkvæmt formúlunni þyrfti verð á áli að hækka 50% örar en almennt verðlag til þess að um raunverulega verðtryggingu á rafmagnsverðinu yrði að ræða. Allir spádómar um slíka hækkun á áli eru gersamlega út í hött. Þess vegna mun verðgildi orkuverðsins alveg eins og áður, alveg eins og í samningunum 1966 og 1975, því miður, fara rýrnandi er fram líða stundir.

Hitt er þó hálfu verra, að með tengingu rafmagnsverðsins við verðlag á áli er verið að veita sveiflum í afkomu fyrirtækisins inn í íslenskt efnahagslíf. Álverð sveiflast mjög ört og tekur stórar dýfur. Nú á Landsvirkjun, nú eiga Íslendingar að taka þessa skelli á sig og gerast þátttakendur í áhættubúskap að óþörfu.

Það kemur líka einkar spánskt fyrir sjónir að núverandi iðnrh. skuli leggja inn á þessa áhættubraut því að enginn hefur talað skýrar eða meira um það en þessi hæstv. ráðh., Sverrir Hermannsson, að Íslendingar ættu einmitt ekki að taka áhættu vegna stóriðju. Við ættum t.d. engan hlut að eiga í stóriðjufyrirtækjum vegna þess að í því fælist áhætta og það væri af hinu illa. Að því er orkuverðið varðar fer því ráðh. ekki að eigin ráðum. Hann vill að Landsvirkjun taki áhættu af rekstri ÍSALs samkvæmt þeim samningum sem hann leggur hér til að verði samþykktir. Þessar sveiflur í álverði munu nefnilega skv. þessum nýja samningi speglast í sveiflum í orkuverði og þar með í tekjum Landsvirkjunar.

Menn geta spurt: Hvað mun gerast þegar álverðið tekur dýfu og Landsvirkjun er búin að reikna með tekjum sem hún fær ekki? Ætli byrðunum verði ekki velt yfir á almenning eins og venjulega og almennir raforkunotendur, þú og ég, verði ekki þannig í rauninni látnir borga með ÍSAL þegar þetta kemur fyrir? Ekki skyldi mig undra það.

Ég sagði líka að með tilliti til reynslunnar væri nauðsynlegt að hafa skýr endurskoðunarákvæði í samningunum sem gæfu möguleika á endurskoðun á raforkuverðinu á nokkurra ára fresti. Nú er það reyndar svo að endurskoðunarákvæði eru í samningunum og af því hældist ráðh. hér á undan. En þau eru með slíkum endemum að margir telja þau langtum verri en engin ákvæði. Þau eru þannig að Íslendingar eiga ekki rétt til endurskoðunar nema þeir geti sýnt fram á og sannað að þeir séu sérstöku harðrétti beittir, annars gildir samningurinn áfram. Hann var meira að segja framlengdur um 14 ár fram yfir núverandi gildistíma sinn.

Þetta var ekki það sem við hlutum að gera sanngjarna kröfu um. Þvert á móti er ákvæðið nánast ónýtt. Sumir segja verra en ekkert.

Lítum þá á skattamálin. Það varðaði í fyrsta lagi uppgjör gamalla mála þar sem Íslendingar gerðu kröfu um að ÍSAL greiddi hærri skatta en það hefði gert vegna þess að hagnaður fyrirtækisins hefði verið vantalinn. Hins vegar var spurningin um það að tryggja óyggjandi aðferðir við skattlagningu í framtíðinni og niðurstöðu um túlkun samningsins.

Allur málatilbúnaður okkar að því er skattamálin varðaði var á grundvelli samningsins og þá sérstaklega ákvæðis sem kvað á um að Alusuisse skyldi sjá til þess að ÍSAL nyti bestu fáanlegra kjara á aðföngum sínum, svo sem eins og hráefnum. Deilan var um hvort súrálsverð byggðist á þessu ákvæði.

Í dómssáttinni, sem svo er nefnd og gerð er í skattamálunum, er gert ráð fyrir því að ÍSAL greiði tiltekna upphæð, 3 millj. dollara, með tilliti til þeirrar kröfu sem íslenska ríkið hafði gert. En það var gert meira. Jafnframt því var þessu ákvæði, sem allur málatilbúnaður Íslendinga byggðist á, fórnað. Því ákvæði sem kvað á um að ÍSAL skyldi njóta bestu kjara að því er varðaði hráefni og önnur aðföng var fórnað í leiðinni. Ef menn vildu gera dómsátt, þá var auðvitað meginatriði að halda í þetta ákvæði og að hluti af sáttinni væri túlkun á þessu ákvæði í samræmi við okkar sjónarmið. Það var kjarni málsins og það er ekki um þennan kjarna málsins sem þeir Coopers & Lybrand og lögfræðingur í New York eru að fjalla í bréfinu sem ráðh. vitnaði til hér áðan. Þeir eru að tala um hvort 3 millj. séu hæfileg upphæð, en millj. þrjár, hvort þær séu krónunum fleiri eða færri, skipta ekki meginmáli. Kjarni málsins var samningsgrundvöllurinn og þetta ákvæði í honum.

Það er í rauninni meiri háttar slys að fallist skuli á að gera þetta ákvæði óvirkt með því að það gildi einungis um þau 2–3% viðskipta sem ÍSAL á við aðra en móðurfyrirtækið. Í þessu ákvæði fólst nefnilega það tak sem Íslendingar höfðu á málinu. Nú er talað um að síðar eigi að endurskoða skattlagningarreglur ÍSALs. Hvernig halda menn að samningsstaðan sé þegar búið er að fórna því ákvæði sem menn hafa reist málatilbúnaðinn á? Það var áreiðanlega ekki tilviljun að þetta ákvæði var sett inn í samninginn á sínum tíma. Þeir sem stóðu að samningnum, Bjarni Benediktsson, Jóhann Hafstein, Emil Jónsson, Gylfi Þ. Gíslason o.fl., gerðu sér vitaskuld ljóst að ÍSAL er hluti af hringasamsteypu. Þeir gerðu sér ljóst að það yrði að tryggja að ekki yrði með bókhaldsgerðum innan þessa hrings talið fram of hátt verð á aðföngum sem rýrði afkomu fyrirtækisins og þar með skattgreiðslurnar.

Þegar gengið var til þessara samninga í upphafi settu menn sér það markmið að áhrifin af sveiflum í rekstri þessa fyrirtækis á íslenskt efnahagslíf skyldu vera sem minnst. Með þeim samningi sem hér er gerður er einmitt vikið út af þessari braut í öllum meginatriðum. Sveiflurnar á að leiða inn í íslenskt efnahagslíf og ákvæði sem átti að tryggja öruggar skattgreiðslur er gert óvirkt. Sem betur fer hefur verið fellt út úr þessum samningi, eins og hann liggur nú fyrir, ákvæði sem var að finna í fyrri drögum um að minnka skyldu ÍSALs til þess að kaupa raforku. Slíkt ákvæði hefði auðvitað haft margföldunaráhrif á íslenskt efnahagslíf og getað skapað atvinnuleysi hjá stórum hópi fólks. Ég verð að segja að það var þó lán í óláni að horfið var frá þessari skerðingu á kaupskyldunni á raforku hjá ÍSAL.

Þó að hér fáist þannig veruleg orkuverðshækkun, sem sjálfsagt er að meta, eru slíkir megingallar á þessum samningi að þeir sem að honum stóðu án samráðs við nokkurn aðila utan ríkisstj. verða að axla ábyrgð á honum sjálfir.

Það er jafnframt skoðun okkar Alþfl.-manna, að eins og frá samningunum er gengið núna muni ekki verða friður um þetta mál, heldur þurfi að taka málið upp að nýju áður en langt um liður. En það hlaut einmitt að vera meginmarkmiðið þegar gengið var til samninga núna að koma málum svo fyrir að ekki þyrfti sífellt að standa í stappi út af þessu.

Málið á sér nokkurn aðdraganda. Skoðun mín er sú, að það hafi liðið fyrir hvernig á því var haldið, bæði hjá fyrrverandi iðnrh. og núverandi iðnrh.Í höndum Hjörleifs Guttormssonar varð málið að pólitísku bitbeini. Morgunblaðið átti sinn þátt í því. En það kom jafnframt í ljós að Hjörleifur fór offari í málinu. Hann fór fram með gífuryrðum og málið var komið í mikið óefni. Annaðhvort gat Hjörleifur Guttormsson ekki eða vildi ekki semja.

Þegar núverandi iðnrh. tók við málinu fékk hann tækifæri til þess að taka upp þráðinn að nýju. Núverandi ráðh. valdi þann kost að fara laumulega með þetta mál, en þó fengust af því smáfréttir vegna fréttaleka frá ýmsum samningamönnum. Þessi málsmeðferð var með öllu óviðunandi. Málið og niðurstaðan hefur auðvitað liðið fyrir þessa málsmeðferð. Hreinskilnar umræður um það hver stefnan ætti að vera í samningamálum áður en til samninganna var gengið og meðan á þeim stóð hefðu getað breytt miklu til hins betra.

Það gildir um ýmis ákvæði: Ég nefni endurskoðunarákvæðið. Ég nefni ákvæðið um að ÍSAL skuli njóta bestu kjara sem nú á að gera óvirkt. Og ég nefni þá aðferð að veita sveiflum í álverði inn í íslenski efnahagslíf í stað þess að hafa raunverulega verðtryggingu. Þess vegna verður ekki hjá því komist að gagnrýna bæði fyrrverandi og núverandi iðnrh. fyrir málsmeðferð þeirra.

Reynslan átti að kenna okkur hversu mikilvægt væri að ná hreinum og skýrum samningum varðandi þau efni sem ég hef hér rakið. Það hefur ekki verið gert og það er af þeim ástæðum og þeim ástæðum, sem ég hef áður rakið um ágalla samningsins, sem við Alþýðuflokksmenn munum greiða atkvæði gegn þessum samningi. Við teljum að ágallar hans séu of miklir til þess að hægt sé að samþykkja hann óbreyttan. — Góðar stundir.