03.12.1984
Efri deild: 22. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 1516 í B-deild Alþingistíðinda. (976)

189. mál, skattur á verslunar- og skrifstofuhúsnæði

Fjmrh. (Albert Guðmundsson). Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til l. um sérstakan skatt á verslunar- og skrifstofuhúsnæði á þskj. 208.

Eins og þingheimi er kunnugt var skattur þessi fyrst lagður á á árinu 1979 og hefur verið svo allar götur síðan. Ég hef reyndar margoft lýst því yfir að mér sé í nöp við skattheimtu af þessu tagi og þá sérstaklega þennan skatt. En staða ríkissjóðs er nú þannig að hann má alls ekki við því að afsala sér frekari tekjum. Í ljósi þessa þykir ekki verða hjá því komist enn einu sinni að innheimta sérstakan skatt af skrifstofu- og verslunarhúsnæði. Eins og sjá má í frv. að fjárlögum fyrir næsta ár er gert ráð fyrir að framhald verði á skattlagningu þessari og er áætlað að álagning skattsins nemi um 95 millj. kr. en að innheimta hans komi til með að skerðast lítið eitt og verður líklega ekki meiri en um 85 millj. kr. að meðtöldum eftirstöðvum fyrra árs.

Frv. þetta er efnislega alveg eins og lög nr. 74/1983, er vörðuðu álagningu og innheimtu skattsins í ár. Skatthlutfallið verður óbreytt frá fyrri lögum eða 1.1 % af skattstofni sem er fasteignamatsverð í árslok 1984.

Virðulegi forseti. Ég tel ekki þörf á að ræða frekar um frv. þetta að sinni, enda er hér aðeins um að ræða ársframlengingu á skattinum sem varað hefur í fimm ár þó tímabundinn hafi átt að vera í fyrstu.

Að svo mæltu legg ég til að frv. þessu verði að þessari umr. lokinni vísað til hv. fjh.- og viðskn. og 2. umr.