03.12.1984
Efri deild: 22. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 1517 í B-deild Alþingistíðinda. (978)

189. mál, skattur á verslunar- og skrifstofuhúsnæði

Fjmrh. (Albert Guðmundsson):

Virðulegi forseti. Ég vil svara hv. 5. landsk. þm. því til að ég hef ekki hugsað mér að leggja fram tillögu um tvöföldun á þessum skatti þrátt fyrir það að verslun og þjónustustarfsemi blómstri í landinu. Ég held að það sé löngu liðin tíð að við getum haldið áfram að skattleggja eða jafnvel skattpína þær atvinnugreinar sem blómstra eða ganga vel. Þær þurfa að ganga vel, það þarf allur atvinnurekstur að ganga vel. Þeir skattar, sem hafa verið beint felldir niður eða endurgreiddir, hafa verið fyrst og fremst til undirstöðuatvinnuvega þjóðarinnar. En þessi atvinnurekstur hefur ekki, svo ég viti til, notið neinnar sérstakrar fyrirgreiðslu frá opinberum aðilum. Ég held því að ég verði að svara þessari spurningu neitandi og valda mínum ágæta starfsfélaga, hv. 5. landsk. þm., vonbrigðum hvað það snertir.

En það skil ég ekki hvers vegna menn tala alltaf um að hitt og þetta blómstri endilega hér á Reykjavíkursvæðinu. Ég veit ekki til þess að verslun eða þjónusta blómstri neitt minna eða gangi nokkuð verr þar sem hún er yfirleitt stunduð í landinu. Það er þó kannske eðlilegt að í Reykjavík, þar sem mannfjöldinn er hvað mestur og um helmingur af þjóðinni býr, gangi verslun og þjónusta kannske eitthvað betur en á fámennustu stöðum úti á landi. Ég held að það sé kominn tími til að hætta þessum neikvæða samanburði fyrir Reykjavík, eins og hér búi ekkert annað en þjófar og ræningjar, en alls staðar utan við Reykjavík búi fólk sem er eðlilegt að öllu leyti. Það þarf að hætta þessu tali.