03.12.1984
Efri deild: 22. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 1520 í B-deild Alþingistíðinda. (985)

187. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Fjmrh. (Albert Guðmundsson):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til l. um breyt. á lögum nr. 75 frá 14. sept. 1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum.

Á seinni árum hefur skattlagning á tekjur manna sætt mikilli og vaxandi gagnrýni. Hefur sífellt borið meira á tillögum um verulega lækkun tekjuskatta eða afnám þeirra. Þessar almennu óvinsældir tekjuskattsins eiga sér. eflaust margar skýringar, tekjuskatturinn eins og aðrir beinir skattar er ávallt sérgreindur og honum beint að tilteknum gjaldendum til greiðslu. Gjaldendur gera sér því mun betri grein fyrir hver skattbyrðin raunverulega er en gerist með óbeina skatta sem bæði leynast ósérgreindir í verði á vörum og þjónustu og falla þar að auki til greiðslu í fjölmörgum smáum greiðslum jafnóðum og stofnað er til útgjalda eða við vörukaup.

Önnur ástæða fyrir óvinsældum tekjuskattsins er sú að hann kemur nokkuð misjafnt niður á gjaldendum. Hefur í því sambandi verið á það bent að skattalög sköpuðu mönnum í atvinnurekstri rýmri möguleika til frestunar á greiðslum en launamönnum, en þó einkum að menn hefðu misgóða aðstöðu til ólöglegs undandráttar á tekjum frá skatti og ýmsir þeirra hópa, sem besta aðstöðu hafa í þeim efnum, nýttu sér hana til hins ýtrasta.

Skattsvik eru óneitanlega mikið þjóðfélagsvandamál.

Það dylst engum að þau eru útbreidd hér á landi og að mikið vantar á að skattasiðferði þjóðarinnar sé sem skyldi. Öllu erfiðara er þó að gera sér grein fyrir því tölulega hversu miklu fé er stungið undan skatti. Er reyndar að störfum hópur sérfræðinga sem leitast við að leggja mat á þetta, en þennan starfshóp skipaði ég í haust í framhaldi af þál. þar að lútandi á síðasta vori. Meira máli skiptir þó í þessu sambandi að grípa til raunhæfra aðgerða til að draga úr skattsvikum. Þar skiptir hert skatteftirlit langmestu máli og hafa nú þegar verið veittar stöðuheimildir fyrir 20 nýjum stöðum skatteftirlitsmanna.

Þriðja gagnrýnisatriðið á tekjuskattinn er að óhófleg tekjuskattsálagning dregur úr framtaki og vinnuvilja gjaldenda, en þessara áhrifa gætir lítt varðandi aðra skatta. Sú vitneskja manna að upp undir 60% af viðbótartekjum þeirra muni renna til hins opinbera hlýtur að draga verulega úr áhuga þeirra að leggja á sig aukið erfiði við viðbótartekjuöflun.

Þessi atriði og mörg fleiri hafa leitt til þess að margir stjórnmálamenn hafa gerst talsmenn þess að lækka verulega eða afnema tekjuskatt a.m.k. sem skattstofn ríkissjóðs. Ég dreg í efa að slíkt hjal sé alvara þeirra manna sem annars eru meðmæltir auknum ríkisumsvifum og ríkisforsjá á sem flestum sviðum. Hvað okkur sjálfstæðismenn áhrærir er afnám tekjuskatts af almennum launatekjum hins vegar eðlilegur liður í þeirri grundvallarstefnu flokksins að færa aukið vald til einstaklinga og samtaka þeirra og afnema óþarfa íhlutun og afskipti ríkisvaldsins, jafnframt því sem framtak einstaklinga og uppbygging atvinnurekstrar verði örvuð m.a. með aðgerðum í skattamálum.

Á s.l. vori var samþykkt hér á Alþingi þáltill. um afnám tekjuskatts af almennum launatekjum í áföngum. Í framhaldi af þeirri samþykkt var í samkomulagi stjórnarflokkanna frá 7. sept. s.l. tekið upp ákvæði um að fyrsti áfangi þessa afnáms tekjuskatts skuli nema 600 millj. kr. og skuli hann koma til framkvæmda við álagningu tekjuskatts á árinu 1985. Í þessum áætlunum er ekki að því stefnt að tekjuskatturinn verði afnuminn með öllu. Áfram yrði tekjuskattur í einhverjum mæli lagður á þá sem best mega sín þannig að tekjuskattgreiðslur þeirra standi undir kostnaði við þá tekjuöflun sem felst í greiðslu ríkissjóðs á álögðum útsvörum þeirra sem standa höllum fæti og útborgun á barnabótum til láglaunafólks. Hins vegar er þess ekki að vænta að ríkissjóður muni hafa nettótekjur af tekjuskattinum eftir að þessi breyting er komin til framkvæmda. Verður því samhliða hinum einstöku áföngum í afnámi tekjuskatts að laga aðra þætti ríkisfjármálanna að þessum breyttu aðstæðum. Að mínu mati verður það helst gert með minnkun ríkisútgjalda samfara minnkandi ríkisumsvifum og minnkandi afskiptum ríkisvaldsins.

Það frv. sem hér er til umr. er útfærsla á fyrsta áfanga afnáms tekjuskatts af almennum launatekjum. Með því er stefnt að skattalækkun hjá öllum gjaldendum tekjuskatts og að sú lækkun verði hlutfallslega mest hjá gjaldendum með lágar tekjur og tekjur í lágu meðaltali.

Annað meginstefnumið frv. er að draga úr þeim ójöfnuði sem ríkt hefur um skattlagningu hjóna með hliðstæðar tekjur eftir því hvernig tekjuöfluninni er skipt milli hjónanna. Í fjárlagafrv. er gengið út frá því að meðaltekjur á mann hækki um 22% milli áranna

1983 og 1984 og um 11.4% milli áranna 1984 og 1985. Í ljósi breyttra forsendna liggja nú fyrir nýjar áætlanir Þjóðhagsstofnunar um tekjuþróun og er þar gert ráð fyrir að meðalhækkun tekna verði svipuð milli áranna 1983 og 1984 og 1984 og 1985 eða því sem næst 25% í báðum tilvikum. Skattbyrði 1985 yrði því sú sama og 1984 ef skattvísitala verði nú hækkuð um 25%. Breytingar á fjárhæðum í lögum um tekju- og eignarskatt samkv. þessu frv. eru að megninu til grundvallaðar á slíkri hækkun skattvísitölu.

Til að ná þeim markmiðum, er að ofan greinir, er þó vikið frá þessu er varðar brtt. í 3. og 4. gr. frv. varðandi skattstiga og persónuafslátt. Er þess þar fyrst að geta að öll skatthlutföll eru lækkuð en þó mest hið fyrsta. Er gerð tillaga um að fyrsta skattþrepið verði 20% í stað 23%, annað skattþrepið verði 31% í stað 32% og þriðja 44% í stað núgildandi 45%. Jafnframt er gerð tillaga um að skattþrep verði þrengd nokkuð, en það veldur því að heldur dregur úr skattalækkun hinna tekjuhærri og fjárhagslegt svigrúm er skapað til að beina skattalækkuninni einkum að hinum tekjulægstu. Í annan stað er gerð tillaga um að ónýttur hluti neðsta skattþreps hjá hinu tekjulægra hjóna verði millifærður til hins makans allt að 100 þús, kr. og lengist neðsta skattþrep tekjuhærri makans sem þessu nemur á kostnað miðþrepsins. Sú mismunun milli skattlagningar heimila með hliðstæðar tekjur sem viðgengst nú hefur verið mönnum nokkur þyrnir í augum. Er innbyggt í núgildandi skattkerfi hagræði fyrir þær fjölskyldur þar sem bæði hjónin afla tekna umfram þær fjölskyldur sem hafa aðeins eina fyrirvinnu. Samkv. núgildandi lögum gæti sá munur sem er milli heildarskattlagningar hjóna, eftir því hvernig tekjuöflun skiptist á milli þeirra, mestur orðið 80 300 kr. við skattlagningu árið 1985. Með framangreindri tillögu er dregið úr þessum hámarksmismun.

Þrátt fyrir þessa lagfæringu er enn allnokkur munur á skattlagningu hjóna eftir skiptingu tekjuöflunar. Ég tel að nokkur munur sé mjög vel réttlætanlegur í þessum efnum. Það er augljóst mál að því getur fylgt kostnaður að bæði hjónin vinni úti, ekki síst ef börn eru á heimilinu. Er eðlilegt að tillit sé tekið til þessa kostnaðarauka við skattlagningu. Hitt er alltaf matsatriði hvaða fjárhæðir sé eðlilegt við að miða.

Frv. þetta leiðir til verulegrar lækkunar á tekjuskatti allra hópa gjaldenda. Nemur lækkun þessi frá 17.1% að meðaltali hjá hjónum upp í 18.6% að meðaltali hjá einstæðum foreldrum. Meðallækkun á álögðum tekjuskatti einhleypinga er þar á milli eða um 18.3%.

Eins og ég sagði hér að framan lækkar skattbyrði nær allra gjaldenda skv. till. frv. Sú lækkun er þó mismikil eftir tekjum gjaldenda. Sem hlutfall af tekjum er lækkunin þannig mest hjá hjónum með samanlagðar tekjur á bilinu 350–500 þús. kr. og lætur nærri að tekjuskattslækkun hjóna á þessum tekjubilum nemi að meðaltali 2% af tekjum ársins 1984. Hjá einhleypingum er lækkun skatta sem hlutfall af tekjum hæst á tekjubilinu 200–300 þús. kr. og er rúmlega 1% af tekjum ársins 1984 á þessum tekjubilum.

Þar sem lagt er til að álagningarkerfi tekjuskatts verði endurskoðað með frv. þessu er ekki gert ráð fyrir að skattvísitala fyrir árið 1985 verði ákveðin í fjárlagafrv. Af þessu leiðir nauðsyn til að breyta ákvæðum nokkurra laga til að hækka fjárhæðir í hlutfalli við verðlagsþróun milli ára. Er hér um að ræða lög um frádrátt frá tekjum manna vegna fjárfestingar í atvinnurekstri, lög um Framkvæmdasjóð aldraðra og lög um tekjustofna sveitarfélaga. Mun verða mæli fyrir stjfrv. um þetta efni á næstu dögum. Einnig er gert ráð fyrir að hinn sérstaki barnabótaauki til lágtekjufólks sem samþykktur var á Alþingi s.l. vor verði einnig greiddur úr ríkissjóði árið 1985. Hefur þegar verið dreift frv. um framlengingu hans. Loks er gert ráð fyrir að lög um sjúkratryggingagjald verði framlengd.

Ég vil að lokum leggja áherslu á að brýna nauðsyn ber til að þetta frv. hljóti hraða meðferð í þinginu. Í því er kveðið á um ýmsa þætti sem nauðsynlega þurfa að liggja fyrir er kemur að framtalsskilum í byrjun næsta árs. Vegna þeirra breyttu forsendna sem leiddu af nýgerðum kjarasamningum hefur þetta frv. orðið síðbúnara en æskilegt hefði verið, en ég treysti því að sá tími sem til stefnu er verði því betur nýttur og afgreiðslu þess verði lokið fyrir jólaleyfi þm.

Virðulegi forseti. Ég legg til að frv. verði vísað til 2. umr. og hv. fjh.- og viðskn.