03.12.1984
Neðri deild: 19. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 1530 í B-deild Alþingistíðinda. (994)

167. mál, Verðlagsráð sjávarútvegsins

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Mér finnst ástæða til þess við 1. umr. um þetta mál í þessari þd. að drepa á nokkur atriði sem þetta mál snertir óhjákvæmilega. Ég vil taka það fram fyrst að ég tel auðvitað eðlilegt að allt verði gert sem hægt er til að tryggja að sjómenn fái sömu hækkanir á sínum hlut og landverkafólk hefur þegar fengið samkvæmt kjarasamningum og því eðlilegt að fiskverð taki gildi fyrr en ella hefði verið að óbreyttum lögum.

En ég vil í fyrsta lagi gera þá athugasemd að það eru auðvitað ekki aðeins nýir kjarasamningar sem gera það nauðsynlegt að nýtt fiskverð verði ákveðið hið fyrsta, heldur kemur þar og fleira til, m.a. almenn afkoma útgerðarinnar í landinu. Ég vil í tilefni af þessu frv. spyrja hæstv. sjútvrh.: Hver er afkoma útgerðarinnar eins og staðan er talin vera núna, helst eftir útgerðargreinum, þ.e. í fyrsta lagi bátar, í öðru lagi minni togarar og í þriðja lagi stærri togarar. Þetta eru upplýsingar sem ég geri ráð fyrir að hæstv. ráðh. hafi á hraðbergi og geti greint okkur frá hér við þessa umr.

Í öðru lagi vil ég benda á að það tímabil sem hér er gert ráð fyrir að fiskverð gildi er mjög langt, óvenjulega langt tímabil, það er talað um að fiskverðið gildi frá 21. nóv. 1984 og ekki til 1. mars, eins og stundum hefur verið miðað við eða 1. júní, heldur til 31. ágúst 1985. Þetta er auðvitað óvenjulega langur tími miðað við það sem áður hefur gilt um verðákvarðanir í Verðlagsráði sjávarútvegsins. Þetta er ekki síst langur tími með tilliti til þess að þó að kjarasamningar renni út 31. ágúst, eða unnt sé að segja þeim upp frá 1. sept. öllu heldur, þá er í lögum um launamál o.fl. frá í des. 1983, en þau voru staðfesting á brbl. frá 27. maí 1983, gert ráð fyrir því að verðbætur á laun séu bannaðar og Ólafslög svokölluð tekin úr gildi út maí 1984, en í lögunum um launamál er þar með gert ráð fyrir því að vísitölubætur geti komið á laun 1. júní 1985, ef ekki verða sett ný lög í millitíðinni. Ekkert frv. hefur komið fram um það enn frá hæstv. ríkisstj. að banna vísitölugreiðslur á laun áfram eftir 31. maí 1985. Það er þess vegna ekki samræmi í því annars vegar að gera ráð fyrir því að Ólafslög fari að telja á ný og hins vegar svo því að fiskverð gildi til 31. ágúst 1985. Ég vil því spyrja hæstv. sjútvrh. hvort hann telji ekki að hér sé um að ræða óeðlilega langt tímabil og hvaða rök séu fyrir því að hafa tímabilið svona langt með tilliti til allra aðstæðna, m.a. þeirra almennu hreyfinga á okkar efnahagslífi sem fyrirsjáanlegar eru á árinu 1985.

Þetta eru þau atriði, herra forseti, sem ég vildi koma hér á framfæri um leið og ég ítreka að það er okkar skoðun í Alþb. að það sé auðvitað eðlilegt að sjómenn fái hækkun á sínu fiskverði til samræmis við þær hækkanir sem hafa verið ákveðnar á launatöxtum í landi, enda þótt slík hækkun komi auðvitað fyrir lítið hjá sjómönnum eins og öðrum eftir þær ráðstafanir sem ríkisstj. hefur gripið til, þá pólitísku gengisfellingu sem hún ákvað fyrir nokkru, sem ekki einasta hafði það í för með sér að kaupmáttur launa verður ekki meiri en á fjórða ársfjórðungi 1983 heldur verður kaupmáttur launanna jafnvel ívið minni en þá var, en það var kaupmátturinn sem ríkisstj. þó gerði ráð fyrir að reyna að ná og lýsti yfir aftur og aftur að hún mundi miða við. Ríkisstj. er m.ö.o. búin að taka með gengislækkuninni meira en nemur þeirri kauphækkun sem samið var um en auðvitað verða sjómenn að fá þessa hækkun allt að einu til þess að vera þó jafnstæðir öðrum andspænis þeim almennu kjörum sem um er að ræða í landinu.