11.12.1985
Efri deild: 25. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 1329 í B-deild Alþingistíðinda. (1023)

186. mál, almannatryggingar

Sigríður Dúna Kristmundsdóttir:

Virðulegi forseti. Þær umræður sem hér hafa nú orðið um skipan fæðingarorlofsmála hafa komið mér töluvert á óvart því að ég, eins og aðrir nm. í hv. fjh.- og viðskn. Ed., bjóst við að ræða lánsfjárlög, frv. til lánsfjárlaga á þessum fundi hér í hv. deild. Þau hafa enn ekki komist hér til umræðu og er þó fundartími deildarinnar meira en hálfnaður. Ástæða þess er sú að síðan fyrir helgi hefur rignt inn frv. frá ríkisstj. hér á síðustu dögum þessa þings fyrir jólaleyfi þingmanna. Það eru vinnubrögð sem ég hlýt að fordæma eins og aðrir þm. sem hér hafa talað um þau efni.

Ég vil lýsa því yfir að auðvitað styð ég það frv. sem hæstv. heilbr.- og trmrh. var að mæla fyrir hér áðan. Ef svo má segja snýst það um tæknileg atriði þess að framkvæma megi lög sem samþykkt voru hér á Alþingi, ef ég man rétt, fyrir einu og hálfu ári síðan. Það mun hafa verið vorið 1984 sem það frv. var samþykkt, sem það frv. sem hér er nú til umræðu, tekur til. Og mér er spurn: Hvers vegna í ósköpunum hefur það dregist í eitt og hálft ár að framkvæma þau lög? Ég gerði mér enga grein fyrir því að svo væri og hafði ekki um það nokkra einustu hugmynd. Það frv. sem hér er til umræðu er mér því mikið undrunarefni, en auðvitað styð ég það rétt eins og ég studdi þá breytingu sem gerð var á lögunum vorið 1984.

Hv. þm. Helgi Seljan kom hér upp og gerði frv. það, sem ég hef borið fram á tveimur umliðnum þingum og hef enn á ný borið fram á því þingi sem nú situr, að umtalsefni og spurði hæstv. heilbr.- og trmrh. að því hver væri hennar hugur til þessa frv., ef ég skildi hv. þm. Helga Seljan rétt. Það gleður mig ákaflega að heyra að hæstv. heilbr.- og trmrh. sé tilbúinn til að kanna umbætur í þessum efnum. Þær eru mjög brýnar og það er þess vegna sem ég hef borið þetta frv. fram í þrígang, þrjú þing í röð. Á tveimur umliðnum þingum hef ég ekki fengið það afgreitt frá hv. heilbr.- og trn. en hef samt ekki látið deigan síga og borið það fram enn á ný. Það er vegna þess að umbætur í þessum málum eru mjög brýnar. Því fagna ég því að hæstv. heilbr.- og trmrh. er tilbúinn til að kanna slíkar umbætur.

Hún minntist á það að fjármagn væri ekkert fyrir hendi til þessara mála. Ég vil þá benda henni á að með frv. til fæðingarorlofslaga á þskj. 205 er fylgifrv. þar sem gert er ráð fyrir fjármögnun til þessara mála. Ég vil biðja núv. hæstv. trmrh., sem er nýkominn í þetta embætti, að lesa þessi mál gaumgæfilega og vænti þess að fá að heyra frá henni um þessi mál þegar þetta frv. verður tekið á dagskrá hér í hv. deild.