23.10.1985
Neðri deild: 6. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 126 í B-deild Alþingistíðinda. (104)

61. mál, kosningar til Alþingis

Guðrún Helgadóttir:

Herra forseti. Ég vil aðeins nota tækifærið í umræðu um þetta frv., sem að sjálfsögðu er allra ósk að gangi eðlilega hér í gegnum hið háa Alþingi, til að vekja athygli á þeim erfiðleikum sem eru við kosningar nú orðið. Nú þekki ég ekki svo forsögu þess máls, en það er staðreynd að samnorræn ákvæði vantar sárlega um ýmis þau atriði sem varða kosningarrétt. T.d. gerist það nú eftir að samnorrænt flutningsvottorð var tekið upp að námsmenn sem eru á Norðurlöndum falla út af þjóðskrá og verða þess vegna í mörgum tilvikum að kæra sig inn á kjörskrá. Þetta veldur ýmsum erfiðleikum og þess eru dæmi að menn sem hafa verið nokkur ár erlendis hafa ekki haft kosningarrétt neins staðar. Nú hafa Norðurlandaþjóðir reynt að hafa samstarf um þessi mál, en það liggur fyrir og er nú til umræðu í Norðurlandaráði, að löggjafarsamkomur hinna norrænu þjóða reyni að samræma kosningalöggjöf, þannig að um árekstra verði ekki að ræða.

Ég vil því leyfa mér að áskilja mér allan rétt til þess að fara nánar ofan í þetta frv. og leitast við að koma með brtt. við það sem kynnu að létta þessum erfiðleikum af við kosningar. Mér hefur ekki gefist tími til þess enn þá, en til þess hlýtur að vera tími.

Ég vildi aðeins vekja athygli á þessu og beina þeim tilmælum til hæstv. dómsmrh. að hann líti ofan í þessi mál. Ég hef rætt þau nokkuð við hagstofustjóra og honum er vel kunnugt um þessa erfiðleika og skort á samræmingu sem þarna er.