23.10.1985
Neðri deild: 6. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 127 í B-deild Alþingistíðinda. (107)

65. mál, tekjustofnar sveitarfélaga

Félmrh. (Alexander Stefánsson):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til laga um breytingu á lögum um tekjustofna sveitarfélaga nr. 73 frá 26. nóv. 1980. Það er 65. mál þingsins, þskj. 67.

Breytingin kemur fram í 1. gr. þessa frv., að f. liður 8. gr. tekjustofnalaga orðist þannig: „að greiða 1% af vergum tekjum sjóðsins til Sambands íslenskra sveitarfélaga og 1,16% til landshlutasamtaka sveitarfélaga sem skiptist jafnt á milli þeirra allra.“

2. gr. „Lög þessi öðlast þegar gildi.“

Hér er um þá breytingu að ræða að framlag til landshlutasamtaka sveitarfélaga hækkar úr 1% af tekjum Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga í 1,16%. Framlag til Sambands íslenskra sveitarfélaga verður óbreytt, 1%. Í hvoru tveggja tilvikunum er miðað við vergar tekjur sjóðsins.

Þegar ákvæði í 8. gr. fyrri lið laga nr. 8 1972 var lögfest voru landshlutasamtökin sex að tölu. Árið 1979 kom upp ágreiningur um hvort hvert þeirra ætti lögvarinn rétt til þessa framlags óskerts, þ.e. 1/6 hluta af 1%, án tillits til þess hvort þeim yrði síðar skipt. Með frv. þessu eru tekin af öll tvímæli um að svo er ekki. Framlög til landshlutasamtakanna eru til þeirra allra þannig að öll samtökin, sem nú eru sjö talsins, fái sama stuðning úr Jöfnunarsjóði og er það í samræmi við samþykkt fulltrúaráðs Sambands íslenskra sveitarfélaga um málið, en á fulltrúaráðsfundi sambandsins var gerð sú samþykkt, sem var einróma samþykkt, að mæla með hækkun á framlagi til landshlutasamtaka sveitarfélaga í 1,16% þannig að öll síðari landshlutasamtökin fái sama stuðning frá Jöfnunarsjóði.

Þetta hefur verið ítrekað síðan og er þetta frv. flutt til að verða við óskum sveitarfélaga að því er þetta varðar. Það má til frekari skýringar geta þess að þessi fjölgun úr sex í sjö er tilkomin vegna þess að það varð úr fyrir nokkrum árum að sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu mynduðu með sér samtök, Samtök sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu og Samtök sveitarfélaga á Suðurnesjum. Þau hafa til þessa ekki fengið nema sem svarar hálfu framlagi. Þetta frv. er flutt til að leiðrétta þetta þannig að öll sveitarfélög fái jafnt framlag. Það er talið réttlætismál og allir sveitarstjórnarmenn eru sammála um að þetta nái fram að ganga.

Í þessu sambandi má geta þess að stjórn sambandsins hefur margítrekað þessa samþykkt. Ég vil geta þess að hér er um talsverða fjárhæð að ræða fyrir landshlutasamtökin sem mun koma þeim að góðum notum. Árið 1984 voru almennar tekjur Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga 711,7 millj. kr. og 1% framlag sjóðsins til landshlutasamtakanna var það ár 7,1 millj.

Það þarf ekki að lýsa því fyrir hv. þm. að landshlutasamtökin hafa unnið sér fastan sess á sviði sveitarstjórnarmálefna. Þau gegna þýðingarmiklu hlutverki við vinnu að svæðisbundnum verkefnum fyrir sveitarfélögin í samvinnu við Samband íslenskra sveitarfélaga. Framlag það sem hér um ræðir úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga hefur ásamt beinum framlögum sveitarfélaganna skapað landshlutasamtökum þann fjárhagslega grundvöll sem þeim er nauðsynlegur.

Eins og ég áðan gerði grein fyrir er ljóst að það er algjör samstaða meðal sveitarstjórnarmanna um að óska eftir þeirri lagabreytingu sem frv. á þskj. 67 gerir ráð fyrir og ég vænti þess að hv. félmn., sem ég óska eftir að fái þetta mál til meðferðar eftir að umræðunni lýkur, hraði störfum við að afgreiða þetta mál í gegnum þingið.