12.12.1985
Neðri deild: 26. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 1477 í B-deild Alþingistíðinda. (1154)

Um þingsköp

Steingrímur J. Sigfússon:

Ég vil þá spyrja, virðulegur forseti, hvort meiningin sé að taka hér fyrir frv. um fiskveiðistjórnun til 3. umr. Í því máli bar ég fram spurningar til hæstv. sjútvrh. Hann var tepptur við umræður í Ed. þegar að því kom að hann hefði getað svarað og ég féllst á það að þær spurningar lægju ósvaraðar og umræðunni lyki, en ég mun ekki una öðru en að hann svari þá þeim spurningum eða geri tilraun til þess, verði frv. tekið hér til umræðna nú á eftir og það gæti lengt fundartímann eitthvað. Ég bendi virðulegum forseta á þetta.