12.12.1985
Neðri deild: 27. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 1485 í B-deild Alþingistíðinda. (1167)

182. mál, málefni aldraðra

Guðrún Helgadóttir:

Herra forseti. Eðli þessa máls samkvæmt og vegna þeirra miklu vandræða sem steðja að högum aldraðra í landinu má vel fallast á þessa hækkun úr 580 kr. í 1000 kr. En það hlýtur að koma á óvart að í brtt. fjvn., sem hér liggja fyrir á þskj. 244, er ekki annað að sjá á bls. 16 en fjárveiting skerðist. Hér stendur í lið 20 við 4. gr. 08-385 Framkvæmdasjóður aldraðra: Fyrir 79 millj. koma 65 millj. Ég verð að játa að ég skil ekki í hverju þessi lækkun er fólgin og vildi leyfa mér að spyrja hæstv. ráðh. hvað liggur að baki og hvert verði í raun og veru framlag ríkisins.

Einnig langar mig að spyrja hvort fyrir liggi áætlun um úthlutun úr sjóðnum á næsta ári. Það væri ekki óeðlilegt að þá úthlutun mætti skoða jafnframt því sem fjallað er um þetta mál í hv. heilbr.- og trn. sem ég vænti að fái málið til umfjöllunar. Ég held að það sé alveg nauðsynlegt að við fáum að sjá fyrirhugaðar úthlutanir á næsta ári.

En fyrst af öllu vil ég spyrja hvers vegna þetta framlag var lækkað úr 79 millj. í 65.

Jafnframt vil ég tilkynna hæstv. ráðh. og þingheimi að við munum, ég og hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir, flytja brtt. við fjárlög þar sem við leggjum til að Framkvæmdasjóður fatlaðra verði hækkaður til jafns við Framkvæmdasjóð aldraðra. Það getur ekki talist óeðlilegt að þessir sjóðir fylgist að.