12.12.1985
Neðri deild: 28. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 1493 í B-deild Alþingistíðinda. (1172)

173. mál, rannsóknarnefnd til að kanna viðskipti Hafskips hf.

Fjmrh. (Þorsteinn Pálsson):

Herra forseti. Það mál sem hér er til umfjöllunar kallar eðlilega á miklar umræður svo sem raun hefur orðið á síðustu daga. Gjaldþrot Hafskips er mikið áfall. Það er áfall fyrir það fólk sem missir atvinnuna og stendur nú frammi fyrir nýjum erfiðleikum af þeim sökum. Það er áfall fyrir Útvegsbanka Íslands sem missir stóran hluta af eigin fé sínu og stendur frammi fyrir nýjum rekstrarerfiðleikum af þeim sökum. Og það er áfall fyrir frjálsa samkeppni í flutningum milli Íslands og annarra landa.

Mín skoðun er sú að það hafi verið virðingarverð viðleitni að halda uppi öflugri samkeppni í siglingum og þeir sem að því hafa staðið eiga þakkir skildar og það hafi verið rétt og eðlilegt af hálfu banka að stuðla að því að þessi samkeppni gæti átt sér stað. Sú samkeppni leiðir bæði til lægra vöruverðs og heilbrigðari starfsemi í siglingum. Það er því augljóst að við höfum orðið fyrir verulegu áfalli.

Því hefur verið haldið fram í þessum umræðum og umræðum síðustu daga um þetta efni að gjaldþrot Hafskips kalli á nýja skattlagningu. Þetta er rangt. Það verða engir skattar lagðir á af þessum sökum. Við höfum mætt margs konar erfiðleikum í þjóðarbúskapnum. Fjárfestingarlánasjóðir hafa verið að tapa miklu fjármagni. Togarar hafa verið seldir á uppboði og fjárfestingarsjóðirnir hafa tapað hundruðum milljóna kr. Það talar enginn um pólitíska spillingu í þeim efnum og það talar enginn um sjóða- eða togaraskattlagningu af þeim sökum.

Við höfum lengi staðið frammi fyrir því verkefni að þurfa að stokka upp í bankakerfi þjóðarinnar. Þeir atburðir sem nú hafa gerst kalla á að þeim verkum verði hraðað. Ég fer ekki dult með það að mín skoðun er sú að eðlilegast væri að leita eftir því, ef föng eru á, að byggja upp sterkan einkabanka úr Útvegsbankanum með samstarfi við einkabankana. Á þann veg yrði eiginfjárstaða nýs banka tryggð með nýju hlutafé sem greiddist á nokkrum árum í samræmi við ný ákvæði viðskiptabankalöggjafarinnar. Þá þurfum við ekki að grípa til neinnar skattlagningar.

Það eru mikilvægir opinberir hagsmunir hér í húfi. Það er þess vegna ærin ástæða til þess að ítarleg athugun fari fram á öllu þessu máli og þeim atriðum sem komið hafa fram í umræðum þar að lútandi. Það er ástæða til þess að draga þá til ábyrgðar sem til þess hafa unnið og hreinsa þá af ásökunum sem bornir hafa verið röngum sakargiftum í öllu því moldviðri sem þyrlað hefur verið upp. Þess vegna er rétt og skylt að kanna og athuga og rannsaka þetta mál til hlítar og fyrir því hefur ríkisstj. beitt sér.

Málflutningur stjórnarandstöðunnar hefur verið býsna kynlegur, en líka mjög misjafn. Það er æðimikill munur á málflutningi hv. varaþm. Ólafs Ragnars Grímssonar og annarra stjórnarandstæðinga, svo að dæmi séu tekin. Hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson hefur fyrst og fremst verið hér í eins konar mannorðsstríði.

Fyrir ári stóðu talsmenn Alþb. hér uppi á hinu háa Alþingi og ræddu um ofsagróða skipafélaganna, kölluðu á að ríkisstj. gerði upptækan mörg hundruð milljón kr. gróða skipafélaganna, þar á meðal Hafskips, og setti í ríkissjóð og töldu það vera fáheyrt að leyfa skipafélagi eins og Hafskipi að græða annað eins og það gerði. Nú koma þeir og segja: Það átti öllum að vera ljóst að fyrir ári var Hafskip að tapa og var í raun og veru komið á hausinn. Þetta er nú samræmið í þeirra málflutningi. Þannig standa þeir að öllum sínum málflutningi og sést best hversu mikið mark er á honum takandi þegar þessi atriði eru höfð í huga.

Gagnrýni Alþfl. og BJ hefur verið af allt öðrum toga spunnin. Hún hefur meir lotið að grundvallarspurningum um skipulag, stjórn, ábyrgð og almennar viðskiptareglur í bankakerfinu. Ég hef ekki verið sammála öllu því sem talsmenn þessara flokka hafa sett fram, en sú umræða hefur lotið að efnislegum atriðum og verið málefnaleg. Það hefur verið hafdjúp á milli rógstungu hv. varaþm. Ólafs Ragnars Grímssonar og annarra stjórnarandstæðinga sem borið hafa fram gagnrýni í þessu máli.

En lítum nú á hverjar aðgerðir ríkisstj. hafa verið til þess að kalla fram og stuðla að því að allar upplýsingar, allar staðreyndir í þessu máli yrðu dregnar fram í dagsljósið.

Í fyrsta lagi skipaði ríkisstj. eftirlitsmann með samningum Útvegsbankans um leið og þær viðræður hófust. Ríkislögmanni var falið að fylgjast með málinu. Það var fyrsta aðgerð.

Í öðru lagi hefur ríkisstj. flutt frv. til 1. um breytingar á skiptameðferð. Málið er nú komið til skiptaráðenda. Þar verða allir þættir þess kannaðir, m.a. þær ásakanir að eignir hafi verið undan dregnar úr búinu og hagsmunir kröfuhafa þar með skertir. Þetta kannar skiptaréttur. Ríkisstj. hefur fyrir sitt leyti flutt frv. til þess að auðvelda skiptarétti þessa rannsókn, gera honum auðveldara að afla upplýsinga og gera það án milliliða annarra dómstóla.

Í þriðja lagi hefur hæstv. iðnrh. leitað eftir opinberri rannsókn vegna þeirra þungu ásakana sem á hann hafa verið bornar.

Í fjórða lagi hefur ríkisstj. ákveðið að skipa sérstaka nefnd sérfróðra manna er hefur það hlutverk að kanna hvort um óeðlilega viðskiptahætti hafi verið að ræða í viðskiptum Útvegsbanka Íslands og Hafskips á undanförnum árum. Í því skyni skal nefndin m.a. athuga hvort lánafyrirgreiðsla bankans til fyrirtækisins hafi verið í eðlilegu samræmi við starfsumfang fyrirtækisins, eiginfjárstöðu þess og tryggingar fyrir skuldum. Það hefur verið ákveðið að leita eftir óháðri tilnefningu manna til þess að framkvæma þessa athugun og lögin gera ráð fyrir að Hæstiréttur tilnefni þessa menn.

Í fimmta lagi ákvað viðskrh. fyrir mánuði eða svo að fela bankaeftirlitinu sérstaka athugun á lánastöðu stærstu viðskiptafyrirtækja ríkisbankanna, hversu há lán í hlutfalli við eiginfjárstöðu þessi fyrirtæki eru með og hvernig tryggingar standa að baki þeim.

Hér er um mjög mikilsvert mál að ræða vegna þess að ríkisbankarnir beita hér annarri reglu en einkabankarnir. Einkabankarnir hafa sett sér þá reglu að lána ekki einstökum fyrirtækjum umfram ákveðið hlutfall af eigin fé. Þessarar reglu er ekki gætt í ríkisbönkunum. Hér er því um eðlilega og sjálfsagða ráðstöfun að ræða til þess að kalla fram upplýsingar um þetta mál og önnur sem eru svipaðs eðlis í bankakerfinu og til þess að fá eðlilegan samanburð við það sem hér hefur gerst.

Í fimm atriðum hefur því verið stuðlað að því að allar upplýsingar yrðu dregnar fram, allar staðreyndir þessa máls yrðu ljósar.

En um hvað er þá ágreiningurinn í þessu máli? Ágreiningurinn er ekki um það að við séum þeirrar skoðunar að Alþingi Íslendinga eigi að grípa inn í rannsókn skiptaréttar. Ég hygg að flestir alþingismenn séu sammála um að svo á ekki að gera. Ég hygg að flestir alþingismenn séu sammála um að auðvelda og flýta fyrir þeirri rannsókn skiptaréttar með því að greiða fyrir framgangi frv. um það efni. Ég hugsa að flestir séu sammála þeirri ákvörðun sem hæstv. iðnrh. hefur tekið um opinbera rannsókn á ásökunum sem bornar hafa verið á hann í málinu. Og ég hygg að flestir séu sammála um þá ákvörðun viðskrh. að láta bankaeftirlitið rannsaka sérstaklega lánsviðskipti stærstu viðskiptaaðila í bankakerfinu.

Þá stendur eftir spurning um það hvort hér á að skipa þingmannanefnd eða nefnd sérfróðra manna. Það er ágreiningsefnið sem eftir er. Álitaefnið sem við erum að fjalla um er pólitísk stjórn á bankakerfinu. Bankaráðin eru kosin pólitískri kosningu. Bankastjórarnir hafa verið ráðnir eftir pólitískum viðhorfum. Hér hefur verið varpað fram spurningum og jafnvel dylgjum um hvort pólitísk viðhorf víki viðskiptareglum til hliðar. Og svo er sagt: Framkvæmdavaldið ætlar að fara að skoða sjálft sig. Í bankaráðunum sitja bankaráðsmenn frá pólitísku flokkunum á Alþingi og bankastjórar.

Hæstv. iðnrh. Albert Guðmundsson hefur verið borinn þeim sökum að hafa setið á sama tíma í bankaráði Útvegsbankans og verið formaður stjórnar Hafskips. Hann var að tillögu Alþb. og fyrrv. ríkisstjórnar - eins og hér hefur komið fram - gerður að formanni bankaráðs Útvegsbankans og það samþykkti þingflokkur sjálfstæðismanna.

Ég er sammála því að við eigum að huga að hagsmunaárekstrum þeirra sem taka þátt í opinberum störfum. En spyrjum nú í þessu falli: Er rétt að þeir menn sem hafa kosið bankaráðin, átt hlut að því að ráða bankastjórana og þeir menn úr mörgum flokkum og tveim ríkisstjórnum sem báru ábyrgð á því hver var skipaður formaður bankaráðs Útvegsbankans kanni nú þessi mál? Er rétt að alþm. séu að rannsaka sjálfa sig? Ég segi nei. Það er þess vegna ástæða til þess að fá óháða aðila til að tilnefna þá menn sem framkvæma eiga þessa rannsókn.

Það hefur líka komið fram í þessum umræðum að margir þm. gagnrýna setu þm. í bankaráðum, en þeir hinir sömu telja sjálfsagt að þm. rannsaki störf þm. í bankaráðunum. Í þessu felst mikil þverstæða.

Í þessari till. Alþfl., sem hér er til umræðu, er lagt til að sérstök rannsókn fari fram á ráðstöfun eigna í þrotabúi Hafskips. Þessi ráðstöfun fer fram á vegum skiptaréttar. Hér er verið að lýsa yfir vantrausti á skiptarétti. Ég hef ekki séð nein rök færð fram fyrir því að Alþingi Íslendinga eigi með þessum hætti að lýsa yfir vantrausti á dómstólunum. Það væri fáheyrt að mínu mati að samþykkja tillögu sem felur í sér slíkt vantraust.

Að öllu athuguðu hygg ég að ljóst megi vera að í fimm atriðum hefur ríkisstj. beitt sér fyrir því að allar upplýsingar í þessu máli komi fram, þeir verði dregnir til ábyrgðar sem ábyrgð eiga að bera og þeir verði hreinsaðir af ásökunum sem bornir hafa verið röngum sakargiftum. Því verður því ekki með neinum rökum haldið fram að ríkisstj. hafi fyrir sitt leyti staðið í vegi fyrir því að þessar upplýsingar lægju fyrir.