14.12.1985
Efri deild: 30. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 1626 í B-deild Alþingistíðinda. (1239)

179. mál, rannsóknarnefnd til að rannsaka viðskipti Hafskips

Stefán Benediktsson:

Virðulegi forseti. Nú skal ég vera mjög snöggur.

Í tilefni þessarar þáltill. vildi ég einungis láta það koma fram að ég er henni að mörgu leyti mótfallinn en að einu leyti samþykkur. Þessi till. er í aðalatriðum í fjórum liðum. Þar er þessari litlu deild ætlað að skipa sjö manna nefnd, þ.e. hátt í helming deildarmanna. (RA: Það er nú ekki nema einn þriðji.) Jæja, fyrirgefið, einn þriðji deildarmanna, og allra með óflekkað mannorð, til að rannsaka viðskipti Hafskips og Útvegsbanka tíu ár aftur í tímann, öll viðskipti Hafskips við innlend og erlend fyrirtæki, og minni ég þá á orð hæstv. viðskrh. áðan um ferðafélög, en í þriðja lið að rannsaka öll afskipti ráðherra, alþm. og annarra forustumanna í stjórnmálum, svo sem fyrrum starfsmanna fulltrúaráða og þar fram eftir götunum. Þennan lið tel ég fyllilega eðlilegan. Síðan á að rannsaka skuldastöðu helstu stórfyrirtækja sem meiri háttar lán hafa fengið frá ríkisbönkunum. Þetta tel ég ekki vera okkar hlutverk, alla vega eins og málum er enn þá háttað í fyrirkomulagi samskipta Alþingis og bankanna.

Ég vildi að þetta kæmi fram strax og þar með get ég látið orðum mínum lokið.

Ég vil í tilefni af orðum hæstv. viðskrh. áðan mótmæla honum. Ég held að utandagskrárumræðan sem fram fór fyrir þrem dögum hafi, algjörlega andstætt því sem hann hélt fram, verið gagnleg. Hún tók í raun og veru yfir allt sviðið og hefur leitt til þess að það hefur verið hægt að ræða þessi mál, sem núna eru komin fram, tiltölulega málefnalega og ekki þurft að fara meiri en eðlilegur tími í þau.