16.12.1985
Efri deild: 32. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 1653 í B-deild Alþingistíðinda. (1291)

2. mál, lánsfjárlög 1986

Frsm. meiri hl. (Eyjólfur Konráð Jónsson):

Hæstv. forseti. Hv. fjh.- og viðskn. hefur tekið mál þetta til skoðunar að nýju á milli umræðna eins og raunar lá fyrir við 2. umr. Flytur meiri hl. brtt. á þskj. 271 og skilar framhaldsnál. á þskj. 270. Ég mun nú leitast við að gera grein fyrir þessum brtt. og þeim störfum sem fram hafa farið í nefndinni á milli umræðnanna. Raunar kemur það allglöggt fram bæði í brtt. sjálfum og framhaldsnál., en engu að síður er skylt að fara yfir það þó að mín ræða verði keimlík því sem þar stendur.

Eftir afgreiðslu frv. við 2. umr. hefur nefndin bæði rætt um atriði sem voru óafgreidd og var getið í nál. og eins um nokkra nýja þætti og ný erindi sem borist hafa á milli umræðna. Á fskj. eru sýnd áhrif þeirra tillagna sem hér greinir, bæði á Byggingarsjóð ríkisins þar sem er um talsverða hækkun að ræða, Framkvæmdasjóð og lántökuheimildir innanlands og erlendis. Síðan hefur það allt verið fellt saman þannig að menn fái nokkuð heillega mynd af því hvernig skuldabreytingar og lánabreytingar muni verða að þessum tillögum samþykktum sem ég vona að verði hér í dag. Í öllu falli höfum við leitast við að ná um það samkomulagi að málið fari héðan út úr þessari hv. deild í dag og ætlað okkur ríflegan tíma ef þurfa þykir og eins ef menn vilja taka upp einhverja almenna umræðu um fjármál ríkisins o.s.frv. án þess að ég ætli að hafa af því frumkvæði. En hæstv. fjmrh. er hér með okkur að sjálfsögðu og við getum þess vegna rætt um þá þætti sem mönnum sýnist.

Í fyrra nál. meiri hl. er getið um fjögur atriði sem afstaða hafði ekki verið tekin til við 2. umr. Fyrst er um að ræða 100 millj. kr. lántöku til mengunarvarna í fiskimjölsverksmiðjum, þ.e. brtt. hv. þm. Helga Seljans. Að mati nefndarmanna allra er hér um þarft verkefni að ræða, en meiri hl. þykir rétt að beina óskum um lán í þessu skyni til langlánanefndar og innlendra lánastofnana. Svo mun hafa verið í sambandi við þær breytingar sem gerðar hafa verið á síldarverksmiðjum. Þar hefur verið leitast við að nota innlent fjármagn, t.d. hjá Síldarverksmiðjum ríkisins sem hafa staðið í miklum breytingum og lagfæringum á Siglufirði. Síðan hefur verið leitað til bankakerfisins og þá til langlánanefndar að svo miklu leyti sem hefur þurft að afla erlendra lána. Það félli þá undir lántökur atvinnufyrirtækja.

Útflutningslánasjóður óskaði eftir 100 millj. kr. lántöku á árinu 1986. Það er gert ráð fyrir að heimila sjóðnum einungis að taka 40 millj. kr. að láni í erlendri mynt. Það jafngildir endurgreiðslum á erlendum skuldum sjóðsins einvörðungu. Að sjálfsögðu getur Útflutningslánasjóður eins og aðrir sjóðir leitað fyrir sér á hinum innlenda lánamarkaði, t.d. með skuldabréfaútgáfu, enda er sjóðurinn á vegum Landsbankans sem þegar hefur greitt fyrir nokkrum atvinnufyrirtækjum um lánsfjáröflun á almennum markaði, en að öðru leyti yrði hann að hafa samvinnu við bankakerfið til að greiða úr umsóknum.

Það er rétt að geta þess að við fengum yfirlit frá Útflutningslánasjóði yfir lánveitingar sem sjóðurinn hefur annast að undanförnu. Er þar margt merkilegt sem hann hefur lagt af mörkum þó að kannske sé ekki beinlínis hægt að tengja þær lánveitingar nafninu Útflutningslánasjóður því að það hefur meira verið til þess að lána íslenskum fyrirtækjum til að standast samkeppni við erlenda aðila á innlendum markaði fremur en hitt að greiða fyrir útflutningslánum til íslenskra fyrirtækja. Það var upphaflega tilætlunin með þessum sjóði. Auðvitað er hann allt of lítill til að geta veitt nokkurt mótvægi gegn svokölluðum exportlánasjóðum í nágrannalöndunum sem eru öflugar stofnanir og greiða fyrir iðnaði og atvinnurekstri í heimalandinu með útflutning fyrir augum. En miðað við þá stefnu, sem verið er að reyna að fylgja sem mest, þótti ekki rétt að heimila meiri erlendar lántökur en einvörðungu til að standa undir þeim skuldbindingum sem eru þegar í erlendri mynt og reiða þarf af hendi á næsta ári.

Þá er það grænfóðurverksmiðjan Vallhólmur hf. sem fór fram á 24 millj. kr. lántökuheimild á árinu 1986. Meiri hl. getur ekki fallist á afgreiðslu þessa erindis þar sem ljóst er að fjárhagsstaða fyrirtækisins í heild verður að fá ítarlegri umfjöllun. Skuldir þessa fyrirtækis eru orðnar geigvænlega miklar. Þetta er hlutafélag. Ríkið er þar langstærsti hluthafinn og ber að því leyti ábyrgð á rekstri þessa fyrirtækis. Það getur ekki farið á milli mála að ríkissjóður verður að taka þetta mál miklu fastari tökum en svo að eingöngu sé farið að bæta við erlendum lánum. Það var gert í allstórum stíl í fyrra, eins og menn minnast. Það voru í fyrsta lagi teknar að láni 12 millj. kr. beint til þessa fyrirtækis en síðan aðrar 12 millj. til grænfóðurverksmiðja almennt og mun Vallhólmur hafa fengið nokkuð af þeim fjármunum til viðbótar. Það er því ekki skortur á auknum erlendum lánum sem háir þessu fyrirtæki, a.m.k. ekki einvörðungu, heldur verður að fara algerlega þar ofan í saumana og átta sig á því hvað um það skuli verða. Það hlýtur að verða fyrst og fremst verkefni ríkisins sjálfs og stjórnar fyrirtækisins sem ríkið á aðild að.

Þá leggur meiri hl. að lokum til að lánveitingar til fiskeldis frá Framkvæmdasjóði nemi 250 millj. kr. Það er ekki lagt til að binda lánveitingar Byggðastofnunar til fiskeldis og er því ljóst að hún hefur frjálsar hendur til slíkra lánveitinga. Eins og menn vonandi minnast var hér við 2. umr. talað um að reyna að ná samstarfi eða samvinnu við Byggðastofnun um að a.m.k. 100 millj. kr. af fé stofnunarinnar rynnu til fiskeldis. Slíkt samkomulag hefur ekki verið gert. En mín skoðun er sú að það hljóti að fara svo að Byggðastofnun láni verulegt fé til fiskeldis því að það er áreiðanlega eitt það arðvænlegasta sem við getum lagt í núna alveg á næstunni. Við erum nú að heyra fréttir um allsvimandi framkvæmdahugmyndir erlendra aðila, síðast í sjónvarpi í gær, og það þarf að huga betur að þeim málum öllum.

Ég leyfi mér að nota þetta tækifæri til að skjóta því hér inn í að þótt ég hafi verið hvatamaður samvinnu við erlenda aðila um fiskirækt á byrjunarstigi hef ég margsinnis lagt á það megináherslu að útlendingar næðu aldrei meirihlutaaðstöðu í íslenskum fiskiræktarstöðvum, hvorki nú sé síðar, og þannig þurfi að búa um hnútana að það geti ekki orðið. Þá þarf auðvitað að huga að því að í sumum fiskiræktarfyrirtækjum, sem eru að rísa á fót, hafa menn kannske ekki leitt að því hugann að algerlega er nauðsynlegt að íslenski hlutinn sé á einni hendi ef um hlutafélag er að ræða þannig að ekki sé hægt fyrir erlenda aðila að ná beint eða óbeint meirihlutavaldi með því að kaupa kannske 1 eða 2% af íslenskum aðilum sem þá væru kannske meira og minna umboðsmenn hinna erlendu fyrirtækja. Veit ég að hæstv. dómsmrh. mun hyggja grannt að þessu máli, enda er á hans valdi að veita þær undanþágur sem nauðsynlegar eru til að útlendingar geti fjárfest meira en 20% í slíkum fyrirtækjum. En það er rétt að nefna þetta nú strax því að það hefur hvorki verið mín hugmynd né nokkurs annars að útlendingar gætu náð yfirráðum yfir fiskirækt á Íslandi.

En þetta fé verður vonandi 350 millj. eins og við lögðum til. Kannske verður það eitthvað meira, kannske eitthvað minna, en alla vega eru þarna bundnar þessar 250 millj. kr.

Þá eru það önnur atriði sem meiri hl. leggur til að verði breytt. Í fjárlagafrv. fyrir árið 1986 var ekki tekin afstaða til lántöku hitaveitna en gert er ráð fyrir óskiptri fjárhæð, 95 millj. kr. Þessi upphæð reyndist vera of lág. Fjárlaga- og hagsýslustofnun hafði raunar bent nefndinni á það strax fyrir 2. umr. að þarna mundi þurfa til að koma leiðrétting og lagfæring. Raunin hefur orðið sú að þessi upphæð er hækkuð um 35 millj. kr. og verði alls 130 millj. kr. Til að greiða fyrir hinu allra brýnasta hjá hitaveitunum, sem ég skal koma að nánar á eftir, eru að auki til ráðstöfunar, eftir að skipt hefur verið til ákveðinna hitaveitna, um 18 millj. kr., annars vegar af þessum 130 millj. og hins vegar úr Orkusjóði.

1. brtt. nefndarinnar á þskj. 271 er um það að Hitaveita Akraness og Borgarfjarðar fái að taka lán að upphæð 60 millj. kr., Hitaveita Akureyrar 40 millj., Hitaveita Egilsstaða og Fella 6 millj. kr., Fjarhitun Vestmannaeyja 10 millj., Hitaveita Reykjahlíðar 6 millj. og aðrar hitaveitur þær 8 millj. sem ég var að nefna. En jafnframt eru til 10 millj. hjá Orkusjóði sem gætu komið þar til aðstoðar. Er þar sérstaklega getið um Hitaveitu Siglufjarðar sem átti erindi sem ekki var afgreitt og þarf frekari skoðunar við. Þá mun vera hjá enn öðrum hitaveitum þörf á nýju lánsfé, einkum þó til skuldbreytinga.

Í frv. til fjárlaga 1986 eru lánveitingar Byggingarsjóðs ríkisins áætlaðar alls 2050 millj. kr. Þar eru áætlaðar 150 millj. til orkusparandi breytinga á húsnæði og 1900 millj. kr. til annarra lána. Á milli umræðna hefur verið litið á tillögur mþn. um húsnæðislán, en lánveitingar sjóðsins eru með þeim brtt., sem nú eru fluttar, auknar um 230 millj. kr. eða í 2280 millj. Ráðgert er að afla þessa fjár með auknum skuldabréfakaupum lífeyrissjóða af Byggingarsjóði ríkisins, þ.e. að afla innlendra lána þannig að erlendar lántökuheimildir hækki ekki við þessa ráðstöfun.

Þá barst nefndinni erindi frá nefnd sem fjallar um innlenda skipasmíði þar sem óskað var eftir 300 millj. kr. lántökuheimild til viðgerða á skipum innanlands. Það er lagt til að afla Fiskveiðasjóði 200 millj. kr. láns í þessum tilgangi frá Framkvæmdasjóði. Erlend lántaka Framkvæmdasjóðs lækkar þá sem þessu nemur og verður 1442 millj. kr. á árinu 1986.

Bent hefur verið á að sjálfsagt sé að nýta hagstæðustu lánakjör hverju sinni sem þau bjóðast og hafa það auðvitað alltaf að leiðarljósi að rýra ekki lánstraust þjóðarinnar út á við. Þótt við séum býsna skuldug, eins og margrætt er, er traust ríkissjóðs enn mikið á erlendum lánamörkuðum og stundum er það svo að hagstæðari kjör fást ef ríkið er ábyrgðaraðili eða beinn lántakandi en ef það eru einhverjir sjóðir sem kannske eru misjafnlega þekktir.

Það verður að segja þá sögu eins og hún er og gleðjast yfir því að ég hygg að bankakerfið hafi staðið sig mjög vel í því að láta erlendar kröfur ekki falla í gjalddaga. Bankarnir hafa þá reynt og ríkissjóður líka að greiða úr erfiðleikum einstakra fyrirtækja og krefja þau á síðara stigi ef þau hafa ekki getað staðið í skilum. Orðspor hygg ég að sé því nokkuð gott fyrir okkur Íslendinga á peningamörkuðum, kannske ekki ósvipað og Finna sem gjarnan eru annálaðir fyrir skilvísi og voru víst þeir einu sem eftir fyrra stríð greiddu upp allar sínar stríðsskuldir o.s.frv. Við skulum fagna því að lánstraust okkar er enn mikið, en þá kannske fyrst og fremst þegar það er ríkissjóður sjálfur sem lánin tekur. Þess vegna flytjum við í meiri hl. brtt. um að ríkissjóður gæti komið þarna inn, t.d. tekið lán fyrir Framkvæmdasjóð. Flutt er brtt. við 10. gr. frv. af þessu tilefni.

Þá er gert ráð fyrir að fjmrh. verði heimilað að ábyrgjast lán vegna sölu fimm fiskiskipa sem voru raðsmíðuð, eins og það er kallað, á árunum 1982-1985. Þar að auki er lagt til að ríkissjóður yfirtaki hluta fjármagnskostnaðar af þeim lánum sem skipasmíðastöðvarnar tóku til að fjármagna smíði skipanna. Þetta ber mönnum saman um að sé óhjákvæmilegt til að unnt verði að selja skipin og koma þeim í rekstur. Meiri hl. leggur til að orðið verði við þessu því að að sjálfsögðu verða þessi skip að komast í rekstur og þeir miklu fjármunir, sem í þeim liggja, að nýtast með þeim hætti. Þó kannske megi kalla þetta „raðsmíðaskatta“ eða eitthvað slíkt er það ekki neitt grín. Þetta hefur verið gert og menn verða að horfast augu við raunveruleikann.

Miðað við allar þessar framangreindu tillögur meirihl. nema heildarlántökur opinberra aðila, fjárfestingarlánasjóða og atvinnufyrirtækja 11 246 millj. kr. á árinu 1986. Það þýðir ekki að draga dul á það að lántökur atvinnufyrirtækja verða eitthvað meiri þó að þær séu ekki kallaðar langtímalántökur, þ.e. lántökur sem eru til meira en eins árs. Vitað er að auk þeirra er mjög mikið erlent fé í umferð. Sumt af því er kallað innlent fé en það er auðvitað meira og minna erlent og hefur verið um langa tíð, löngu áður en þessi hæstv. ríkisstj. var mynduð. Hér er sem sagt eingöngu um að ræða þau lán sem tekin eru til lengi tíma en eins árs. Gert er ráð fyrir að 3820 millj. af þessari miklu upphæð verði aflað innanlands en 7426 millj. kr. með erlendum lántökum sem að langstærstum hluta eru afborganir og vextir og þá hugsanlegar skuldbreytingar.

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að orðlengja um þetta. Á milli 2. og 3. umr. hafa verið fluttar tvær brtt. af hálfu hv. stjórnarandstæðinga. Það er annars vegar till. frá hv. þm. Sigríði Dúnu Kristmundsdóttur um að fella niður heimild Landsvirkjunar til 200 millj. kr. aukalánveitingar ef ákveðin yrði frekari stóriðja eða samningar væru að nást um slíkt. Ég legg til að sú till. verði felld.

Brtt. frá hv. þm. Helga Seljan varðar málefni fatlaðra og er um það að framlag ríkissjóðs til Framkvæmdasjóðs fatlaðra fari eigi fram úr 125 millj. kr. á árinu 1986. Ég legg einnig til að sú till. verði felld. Því miður vantar fé í þennan þátt eins og svo margt annað. Við þurfum orðið að skera og beinskera, eins og þar stendur, og getum því miður ekki orðið við nema örfáu af því sem við vildum. Kannske eru flest atriði þannig vaxin að enginn getur verið ánægður með það fjármagn sem okkur skilst að hægt sé að verja til hinna margvíslegu framkvæmda og margvíslegu fjárlagaliða og liða á lánsfjárlögum. Við höfum þess vegna orðið að greiða atkvæði gegn ýmsum þeim till. sem við gjarnan hefðum viljað greiða atkvæði með. En málin standa eins og ég nú hef skýrt og um það stendur meiri hl. óskiptur.