17.12.1985
Efri deild: 34. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 1803 í B-deild Alþingistíðinda. (1433)

198. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Karl Steinar Guðnason:

Virðulegi forseti. Mér finnst ástæða til að spyrja að því hvernig stendur á að þetta frv. er borið fram svo seint sem raun er á, hvaða ástæða er til að draga að mæla fyrir frv. sem þessu svo að það eru aðeins örfáir dagar eftir þar til Alþingi verður frestað.

Það er ýmislegt jákvætt sem fram kemur í frv. og vonandi tekst samvinna um að afgreiða það, en mér finnst það fyrir neðan virðingu Alþingis hvernig að er staðið, að frv. skuli koma svo seint fram.

Í öðru lagi vildi ég segja að það er alveg merkileg leiksýning sem átt hefur sér stað varðandi tekjuskattinn. Því var lofað að lækka hann. Síðan er fólk hrætt með því að aðrir skattar muni hækka svo og svo mikið, en í staðinn fyrir að hækka þá skatta muni verða hætt við tekjuskattslækkunina. Þetta eru leiktjöld sem gerð eru til að blekkja fólk, en í raun er það svo að lítil alvara hefur fylgt því að ætla að lækka tekjuskattinn. Þetta er einungis gert til að blekkja almenning.