18.12.1985
Efri deild: 36. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 1823 í B-deild Alþingistíðinda. (1455)

174. mál, heilbrigðisþjónusta

Frsm. (Davíð Aðalsteinsson):

Virðulegi forseti. Heilbr.- og trn. hefur fjallað um þetta mál, 174. mál, sem varðar lög um heilbrigðisþjónustu.

Í ákvæðum til bráðabirgða í lögum nr. 56 frá 1973 um heilbrigðisþjónustu var kveðið á um það að heilsuverndarstarf skv. lögum nr. 44/1955 skyldi haldast óbreytt þar til heilsugæslustöðvar hefðu verið skipulagðar til þess að annast það. Enginn tímafrestur var settur til þeirrar skipulagningar. Við endurskoðun heilbrigðisþjónustulaga á árunum 1977 og 1978 var ekki hróflað við þessu ákvæði en það var hins vegar gert við endurskoðun laganna sem stóð yfir seinni hluta árs 1982, sbr. lög nr. 40 frá 1983. Í ákvæðum til bráðabirgða var gefinn frestur til áramóta 1984-1985 til þess að koma á heilsugæslukerfi.

Á síðasta þingi var flutt og samþykkt frv. sem kvað á um að framlengja þennan frest um eitt ár til viðbótar.

Hér er raunar á ferðinni sams konar ákvæði um frestun enn um sinn eða til ársloka 1986. Þessu frv. fylgja athugasemdir og með leyfi forseta vil ég renna aðeins yfir þær.

„Hinn 24. júní 1984 skipaði heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra nefnd til þess að endurskoða ákvæði laga nr. 59/1983 um heilbrigðisþjónustu, sérstaklega með skipulag heilsugæslu á höfuðborgarsvæðinu í huga. Var stofnað til þessa nefndarstarfs í samræmi við niðurstöðu fundar, sem ráðuneytið“ - væntanlega heilbr.- og trmrn. - „hélt með sveitarstjórnarmönnum á höfuðborgarsvæðinu í apríl 1984.

Nefndin skilaði tillögum í búningi lagafrumvarps á s.l. sumri og hafa tillögurnar verið til umfjöllunar í ráðuneytinu á undanförnum mánuðum.

Þar sem fyrirsjáanlegt er að ekki vinnst tími til þess að leggja endanlegar tillögur fram fyrir áramót hefur orðið að ráði að leggja til eins árs framlengingu á fresti þeim sem lögin áskilja vegna kerfis heilsugæslu í Reykjavíkurlæknishéraði og heilsugæsluumdæmum í Kópavogi, Garðabæ og Hafnarfirði.“

Það hefur sem sagt ekki enn þá verið tekin ákvörðun um það fyrirkomulag sem á þessum málum verður í framtíðinni og þess vegna er þetta frv. flutt. Heilbr.- og trn. hefur eins og ég sagði fjallað um málið, er samþykk þessu frv. en tveir hv. nm. skrifa undir með fyrirvara, hv. þm. Helgi Seljan og hv. þm. Karl Steinar Guðnason.