19.12.1985
Efri deild: 40. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 1921 í B-deild Alþingistíðinda. (1621)

145. mál, stjórn fiskveiða

Frsm. meiri hl. (Valdimar Indriðason):

Virðulegi forseti. Hér er búið að halda margar og snjallar ræður. Það hefur náttúrlega farið á ýmsu um innihaldið. Ég ætla ekki að blanda mér í það nú í lok umræðnanna neitt sérstaklega.

Ég vildi aðeins láta koma fram vegna ræðu 8. landsk. þm. Kolbrúnar Jónsdóttur að ég held að það hafi verið misskilningur hjá henni að ég hafi haldið því fram í minni ræðu hér í upphafi að auka ætti afla sunnanskipanna eða svæðis 1 á kostnað svæðis 2. Ég held að hún hafi misskilið mig. Það sem ég sagði var að í reglugerðinni, eins og hún var síðast þegar ég vissi, væru hugmyndir um að hækka skip, sem væru allt að 500 tonnum, á svæði 1 úr 800 tonnum upp í 1050 tonn, en skip, sem væru á svæði 2 eða vestur/norður-svæðinu, hækkuðu úr 1500 í 1750 tonn. Þetta er nákvæmlega sama tonnatala sem bætist við skipin - í prósentum reiknað gæti hún fengið hærri tölu en þá sem ætti að koma fyrir norðan, það er alger jöfnun þarna á milli, vegna þess slaka afla sem orðið hefur í þessum aukabúgreinum okkar í karfa, ufsa og öðru sem hefur farið stórminnkandi í veiði sunnanskipanna. Þetta er réttlætismál sem ég vildi benda á en ég mótmæli því að þarna sé verið að mismuna á milli svæða. Menn halda þar sömu tonnatölu.

Ég ætla svo ekki að hafa fleiri orð um þetta, það er farið að fækka í salnum. Ég vona bara að frv. geti gengið til atkvæða sem fyrst af því að við höfum lofað því í nefndinni að við skyldum ljúka þessu máli í kvöld. Ég sé því ekki að margar fleiri ræður hafi miklu við að bæta í þessum efnum. Við getum geymt okkur margt af því til seinni tíma sem hér hefur verið sagt í kvöld.