24.10.1985
Efri deild: 7. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 219 í B-deild Alþingistíðinda. (166)

Um þingsköp

Eyjólfur Konráð Jónsson:

Hæstvirti forseti. Ég skal ekki vera að munnhöggvast við hv. þm. Ragnar Arnalds um tímasetningar nákvæmlega. Ég held við munum það öll að við komum ekki heim til okkar fyrr en, held ég, fjögur eða hálf fimm um morguninn og þar voru afgreidd fleiri en eitt og fleiri en tvö mál sem komu beint frá Nd. Það gerist svo að segja á hverju einasta þingi að það eru næturfundir þar sem mál eru tekin til afgreiðslu. Hæstv. forseti Sþ. tjáði mér það, sem rétt mun vera, að tímasetningar séu ekki á þeim umræðum eða þeim skjölum sem út eru gefin, þannig að þetta sé ekki hægt að rekja þá nema með einhverri rannsóknarnefnd kannske að fara að mæla spólur eins og hjá Nixon eða eitthvað slíkt og ég ætla nú ekki að standa í því. Það vita allir að þetta er altítt, en við skulum ekki vera að deila neitt frekar um það.