04.02.1986
Sameinað þing: 40. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 2302 í B-deild Alþingistíðinda. (1934)

183. mál, eiginfjárstaða ríkisbankanna

Kjartan Jóhannsson:

Herra forseti. Sérstaklega vegna þeirra ummæla sem hér féllu hjá hv. síðasta ræðumanni vil ég inna eftir því hvort ég hafi ekki skilið það rétt að taldir hafi verið upp í röð fimm stærstu lántakendurnir hjá hverjum banka fyrir sig og fyrsta talan sem tilgreind var fyrir hvern banka hafi verið fyrir þann sem hæst hafði hlutfallið, þar næst fyrir þann sem næsthæst hafði og þannig upp í fimm hjá þeim bönkum sem tilgreindir voru. Út úr þessu megi því lesa að samtals hafi lánafyrirgreiðslan til fimm stærstu aðilanna hjá Landsbanka Íslands verið nálægt 300% af eigin fé, hjá Búnaðarbanka Íslands eitthvað um 180% samtals af eigin fé og hjá Útvegsbankanum samtals til þessara fimm efstu einhvers staðar í kringum 400% af eigin fé. Það komi þannig í ljós skv. þessum tölum þegar þær eru skoðaðar að fimm stærstu lántakendurnir hjá Landsbanka Íslands hafi á hendi sér um það bil þrefalt eigið fé Landsbankans, að fimm stærstu lántakendurnir hjá Útvegsbankanum hafi um ferfalt eigið fé Útvegsbankans, eða útlán til þeirra nemi því, og að því er Búnaðarbankann varði sé þetta innan við 200%.