06.02.1986
Sameinað þing: 42. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 2387 í B-deild Alþingistíðinda. (1993)

56. mál, svört atvinnustarfsemi

Flm. (Stefán Guðmundsson):

Herra forseti. Ég tala hér fyrir till. á þskj. 57 um skipan nefndar til þess að gera úttekt á „svartri atvinnustarfsemi“ og tillögur þar til úrbóta. Till. hljóðar svo:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstj. að skipa fimm manna nefnd til að gera úttekt á „svartri atvinnustarfsemi“, þ.e. atvinnustarfsemi þar sem m.a. er komist hjá að greiða lögboðin opinber gjöld, og benda á leiðir þar til úrbóta.

Forsrh. skipi formann nefndarinnar.

Nefndin skal skila tillögum sínum fyrir árslok 1986.“ Í grg. segir m. a.:

"„Svarta atvinnustarfsemi“ á Íslandi má nánast skilgreina á tvo vegu:

1. Skattsvik þar sem fjármunum er velt án þess að gerð séu skil á opinberum gjöldum eða staðið við aðrar þær reglukvaðir sem almennur atvinnurekstur verður að hlíta.

2. Starfsemi án tilskilinna leyfa og réttinda.

Hér skal ekki fullyrt hversu stórt og víðtækt þetta vandamál er. Um það liggja ekki fyrir upplýsingar. Það er hins vegar mat þeirra er um hafa fjallað að umfang þess sé mikið. Hér er um að ræða óþolandi mismunun milli einstaklinga og fyrirtækja. „Svört atvinnustarfsemi“ raskar grundvelli samkeppni milli þeirra sem hana stunda og þeirra sem reka atvinnufyrirtæki sín eftir settum reglum og standa skil á sköttum og skyldum. Fyrirsvarsmenn þeirra fyrirtækja krefjast þess að samkeppnisstaðan verði í þessum efnum jöfnuð.

Iðnþing Íslendinga hefur á undanförnum árum fjallað ítarlega um þessa starfsemi og leitað leiða til að sporna gegn þessari spillingu. Það er ástæða til að fagna því alveg sérstaklega að Landssamband iðnaðarmanna hefur lýst sig reiðubúið til samstarfs ef verða mætti til að finna orsök þessa vanda. Á 40. iðnþingi 1983 var eftirfarandi tillaga samþykkt:

„Koma þarf á samstarfi ríkisvaldsins og samtaka fyrirtækja, sem rísa undir því nafni, til þess að uppræta svarta atvinnustarfsemi, enda eigi þessir aðilar sameiginlegra hagsmuna að gæta í þessum málum. Landssamband iðnaðarmanna vill leggja sitt af mörkum til að koma slíku samstarfi á og óskar eindregið eftir því að ríkisvaldið hafi forgöngu um þá samvinnu.“

Í stefnuskrá, sem samþykkt var á 39. iðnþingi, segir m.a.:

„Ríkisvaldið, sveitarfélög og fleiri aðilar, sem reka alls konar þjónustu, t.d. viðhalds- og viðgerðarþjónustu, í tengslum við starfrækslu ýmissa stofnana sinna og fyrirtækja, ættu að meta hagkvæmni þessara eigin þjónustudeilda út frá því að skatta og skyldur bæri að greiða af þeim. Af þessari „eiginþjónustu“ er lítið sem ekkert greitt í skatta, t.d. í söluskatt. Sé þessi þjónusta hins vegar veitt af almennum fyrirtækjum, sem sérhæfa sig í slíkri þjónustu, er hún margskattlögð. Hér má því segja að fjölmargir aðilar, þar á meðal úr hópi opinberra stofnana, leggi stund á nokkurs konar svarta atvinnustarfsemi.

Iðnlöggjöfin er m.a. sett til að tryggja atvinnuréttindi iðnaðarmanna í löggiltum iðngreinum. Atvinnuréttindi fjölmargra annarra stétta eru nú á tímum lögvernduð og þeim lagaákvæðum virðist fylgt eftir af ríkisvaldinu. Þess er krafist að iðnréttindi njóti sama réttar í þessu efni, en verði ekki hornreka í kerfinu.

Iðnaðarlögin eru ekki síður sett í þeim tilgangi að gæta hagsmuna neytenda og tryggja þeim góða og faglega þjónustu og/eða framleiðsluvörur af hendi þeirra sem reka löggiltar iðngreinar. Þess er krafist að ríkisvaldið takmarki starfsemi ófaglærðra á hefðbundnu starfssviði löggiltra iðngreina, enda teljist slíkt liður í almennri neytendavernd. Þeir aðilar, sem lögum samkvæmt ber að fylgjast með framkvæmd iðnaðarlöggjafarinnar, þurfa að taka á sig rögg og fara með iðnlagabrot í samræmi við það sem lög bjóða.“

Á það er skylt að benda að „svört atvinnustarfsemi“ er ekki aðeins bundin iðnaði, hún þrífst í ýmsum atvinnugreinum. Það eru ekki aðeins atvinnurekendur sem slíka iðju stunda. Það er algengt að launþegar, sem margir stunda aðalstarf sitt hjá fyrirtækjum sem bera þær atvinnurekstrarlegu kvaðir sem ríkisvaldið leggur þeim á herðar, hverfi að reglubundnum vinnutíma loknum til starfa við „svarta atvinnustarfsemi“ í beinni samkeppni við aðalvinnuveitanda sinn.

Á það er einnig rétt að benda að ýmis starfsemi á sér stað hér á landi með innflutning, sölu og dreifingu ásamt framleiðslu á ýmiss konar varningi án þess að viðkomandi hafi aflað sér nauðsynlegra leyfa. Sú starfsemi er einnig svört.“

Þessir aðilar hafa oft ekki fasta starfsaðstöðu heldur koma og fara á markaðinn eftir því hve hagstæður hann er hverju sinni. Þessir leyfislausu aðilar veita því hinum, sem sinna þjónustu við almenning, samkeppni þegar markaðurinn er hagstæður, en hverfa þegar kemur að því að uppfylla þarf skyldurnar.

Það er alveg sérstök ástæða að skora á stjórnvöld og almenning að berjast hart gegn þessari atvinnustarfsemi, sem hér er kölluð svört, í hverri þeirri mynd sem hún kann að birtast. Fólk þarf að átta sig á því að hafna þjónustu þessara aðila og stjórnvöld að herða aðgerðir gegn þessari starfsemi.

Þegar talað er um „svarta atvinnustarfsemi“ detta mönnum fyrst í hug undanbrögð frá því að skila innheimtum söluskatti eða alls ekki að innheimta hann. M.a. af þessu hefur söluskattsformið ekki verið talin góð skattheimtuaðferð ef svo mætti segja. Áætlaðar tekjur ríkissjóðs af innheimtum söluskatti á þessu ári eru um 15 milljarðar kr. Ef við lítum á hve söluskatturinn er mikilvægur tekjustofn fyrir ríkissjóð og hversu formið er ódýrt í innheimtu er það umhugsunarefni hve lítið hefur verið gert til að lagfæra þá galla sem komið hafa í ljós þannig að skilvísin væri sem best.

Hér þurfa hinir hæfustu menn um að fjalla. Ég held að ástæða sé til að íhuga þetta mál af gaumgæfni áður en breytt er um form. Spurning er í mínum huga hvort ekki sé skynsamlegra hér að bæta en að breyta. Það er ekki hægt að fullyrða að ósanngjörn og órökræn skattheimta sé hér orsökin. Ég held einmitt að svo sé alls ekki.

Eftir þá úttekt sem skattrannsóknarstjóri lét framkvæma nú í haust á starfsemi ákveðinna fyrirtækja í nokkrum kjördæmum landsins vona ég að menn átti sig betur á þeim vanda sem hér er verið að tala um.

Herra forseti. Ég hlýt að harma að þessi þáltill. skyldi ekki hafa verið afgreidd á síðasta þingi. Þann 23. mars var málið tekið fyrir í atvmn. Sþ. og sent til umsagnar. Þann 17. apríl höfðu umsagnir borist. Af einhverjum ástæðum komst málið aldrei frá nefndinni þrátt fyrir að allar umsagnir væru mjög jákvæðar.

Með leyfi, herra forseti, ætta ég að lesa örstutta kafla úr nefndum umsögnum.

Landssamband iðnaðarmanna segir m.a. í sinni umsögn:

„Landssambandið fagnar því að svört atvinnustarfsemi skuli rædd á hinu háa Alþingi og athygli þingheims á þann hátt vakin á því vandamáli sem hér er við að etja. Þáltill. og grg. sú er fylgir till. úr hlaði er í flestum atriðum á þann veg að Landssamband iðnaðarmanna getur lýst stuðningi við framgang till. Er það að vonum þar sem flm. vísa mjög til þess kafla stefnuskrár Landssambands iðnaðarmanna er ber yfirskriftina: Svört atvinnustarfsemi.“

Síðar í þessari umsögn frá Landssambandi iðnaðarmanna segir:

„Landssambandið leyfir sér því að vænta þess að þáltill. fái jákvæða afgreiðslu á þessu þingi og að ríkisstj. tryggi skilvísa framkvæmd hennar.“

Alþýðusamband Íslands mælir einnig með samþykkt till. og segir hér:

„Miðstjórnin vísar til umsagnar stjórnar frá 25. mars um till. um sama efni og mælir með till."

Vinnuveitendasamband Íslands hefur þetta um till. að segja m.a.:

„Vinnuveitendasamband Íslands telur að með þáltill. þessari sé hreyft mjög þörfu máli. Mikilvægt er að öll atvinnufyrirtæki sitji við sama borð gagnvart opinberum reglum og álögum og ekki sé um mismunun að ræða eftir rekstrarformi eða öðrum ástæðum. Komist einhverjir undan því að standa skil á sköttum og skyldum skekkir það að sjálfsögðu samkeppnisstöðu almenns atvinnurekstrar. Með vísan til þess er Vinnuveitendasambandið hlynnt því að fram fari athugun af því tagi sem gert er ráð fyrir í þáltill. þessari.“

Skattrannsóknarstjóri var einnig spurður og niðurlagsorð hans í umsögninni eru þessi:

„Ég er í meginatriðum sammála þeim sjónarmiðum er að baki till. liggja.“

Það voru fleiri spurðir. Fjmrn. svaraði einnig og ég ætla að lesa kafla úr svari frá fjmrn. um þessa till. Þar segir m.a.:

„Eins og fram kemur í till. eru aðalþættir þessa vandamáls þeir að hið opinbera verður að öllum líkindum af verulegum tekjum af ýmsum gjöldum, auk þess sem starfsemi af þessu tagi raskar mjög samkeppnisstöðu á markaðnum. Að auki má nefna að hagsmunir neytenda eru ekki eins tryggir og ella væri ef um starfsemi af þessu tagi væri að ræða. Því má segja að tímabært sé að úttekt af þessu tagi fari fram.“

Ég hef að vísu velt því mjög fyrir mér hvernig á því gat staðið að þessi till. komst ekki frá hv. nefnd. Herra forseti. Ég legg áherslu á að sú nefnd sem till. gerir ráð fyrir að skipuð verði skoði bæði orsakir og afleiðingar þessarar starfsemi og leggi fram tillögur. Tilgangurinn með þessum tillöguflutningi er að vekja athygli á og fá umræður um það margslungna vandamál sem nefnist hér „svört atvinnustarfsemi“ og leita leiða til að brjótast úr þeim vítahring spillingar sem viðgengist hefur hér á þessu sviði. Ég ætla ekki að nefna neinar tölur um hugsanleg undanbrögð frá því að greiða lögboðin gjöld til samfélagsins, en ég ætla þó að fullyrða að hér er um gífurlega háar fjárhæðir að ræða. - Ég endurtek að hér er um gífurlega háar fjárhæðir að ræða. Og þá neðanjarðarstarfsemi og þann hulduher sem hér hefur viðgengist verður að uppræta.

Herra forseti. Að lokinni þessari umræðu legg ég til að málinu verði vísað til 2. umr. og atvmn.