06.02.1986
Sameinað þing: 42. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 2410 í B-deild Alþingistíðinda. (2008)

219. mál, sjálfstæðar rannsóknastofnanir

Jón Baldvin Hannibalsson:

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir till. til þál. um sjálfstæðar rannsóknastofnanir, eflingu hagnýtrar vísinda- og rannsóknarstarfsemi og aukin tengsl atvinnulífs og rannsókna. 1. flm. þessarar till. var hv. 3. þm. Vestf. Sighvatur Björgvinsson er sat hér sem varaþm. á liðnu hausti, en meðflm. eru aðrir þm. Alþfl.

Þessi till. kom fyrst fram í yfirgripsmiklum brtt. Alþfl. við afgreiðslu fjárlaga fyrir árið 1986 og er í flokki þeirra till. okkar Alþýðuflokksmanna sem kveða á um sparnað í ríkisrekstri, fækkun ríkisstofnana og flutning verkefna frá ríki til annarra aðila. Markmið till. er að þær stofnanir, sem fást við hagnýtar rannsóknir í þágu atvinnuvega og eru nú ríkisstofnanir, verði teknar úr ríkiseigu og gerðar að sjálfseignarstofnunum og starfi eftir það á eigin ábyrgð og undir sjálfstæðri stjórn í nánu samstarfi við atvinnuvegina.

Ályktunarorðin eru þau að fela ríkisstj. að hefja nú þegar undirbúning að eftirtöldum skipulagsbreytingum á sviði hagnýtrar rannsóknarstarfsemi í því skyni að efla slíkar rannsóknir, auka tengsl hagnýtra rannsókna og atvinnulífs, svo og sjálfstæði rannsóknastofnana:

1. Iðntæknistofnun Íslands, Rannsóknastofnun fiskiðnaðar, Rannsóknastofnun landbúnaðar og Rannsóknastofnun byggingariðnaðar verði gerðar að sjálfseignarstofnunum þar sem m.a. samtökum viðkomandi atvinnuvega verði boðið að gerast stofnaðilar. Í skipulagsskrá er nánar kveðið á um stjórn stofnananna og rekstrarfyrirkomulag. En þær skulu starfa sem sjálfstæðar stofnanir, verðleggja sjálfar þjónustu sína og taka sjálfar allar ákvarðanir um rekstur, mannahald, verkefnaval og viðfangsefni. Aðalhlutverk þessara stofnana verði að annast hagnýtar rannsóknir í þágu viðkomandi atvinnuvega eftir óskum og þörfum í atvinnugreininni og ákvörðun stjórnar stofnunarinnar.

2. Samningur skal gerður milli fjmrn. fyrir hönd ríkissjóðs og viðkomandi stofnunar þar sem ríkissjóður leggur hverri stofnun til ákveðið grunnframlag á ári hverju sem greiðist upp í fastakostnað við starfrækslu. Sérstakur samningur skal einnig gerður milli stofnananna og ríkissjóðs um áframhaldandi nýtingu stofnananna á ríkiseignum, svo sem húsnæði, en tæki, vélar og annað það sem þessar stofnanir hafa nú yfir að ráða skal áfram fylgja þeim og skoðast stofnframlag ríkisins til sjálfseignarstofnananna.

3. Önnur hagnýt rannsóknarstarfsemi sem ríkið hefur rekið og kostað í beinum og óbeinum tengslum við Iðntæknistofnun, Rannsóknastofnun byggingariðnaðar, Rannsóknastofnun landbúnaðar og Rannsóknastofnun fiskiðnaðar eða aðrar opinberar stofnanir - og er þá fyrst og fremst átt við tilraunastöðvar og tilraunabú - skal eftirleiðis skoðast sem viðfangsefni viðkomandi sjálfstæðra rannsóknastofnana og á ábyrgð þeirra hvort og þá hvernig starfseminni verður haldið áfram.

4. Ákveðið verði í sérstökum lögum fast árlegt framlag úr ríkissjóði til næstu fimm ára til rannsóknar og þróunarstarfsemi og með reglugerð ákveðin almenn skilyrði til lán- og styrkveitinga af því fé sem sjálfstæðar rannsóknastofnanir hafi sama rétt og aðrir til þess að sækja um styrki eða lán til einstakra verkefna.

Undirbúningi þessum verði lokið á árinu 1986 þannig að Alþingi geti samhliða afgreiðslu fjárlaga fyrir árið 1987 gert þær lagabreytingar sem nauðsynlegar eru til þess.að það fyrirkomulag, sem hér hefur verið lýst, nái fram að ganga.

Með þessum skipulagsbreytingum vinnst að okkar mati margt:

1. Rannsóknastofnanir öðlast aukið sjálfstæði og sjálfræði, bæði í stjórn, starfsemi og í verkefnavali.

2. Líklegt er að áhrif vísindamanna og rannsóknarmanna á starfsemina aukist og mun það án efa styrkja vísindalega rannsóknarstarfsemi að hagnýtum viðfangsefnum.

3. Beinni tengsl verða á milli atvinnulífs og rannsóknastofnana, meðal annars af því að gert er ráð fyrir að bein kostnaðarleg tengsl verði á milli rannsóknarverkefna og atvinnufyrirtækja eða atvinnugreina þar sem í till. er gert ráð fyrir að ríkið greiði grunnkostnað við rannsóknastofnanirnar en einstök verkefni séu valin í samráði við atvinnuvegina og kostuð af þeim.

Frá sjónarmiði ríkisins er einnig um ótvíræða kosti að ræða við þá skipulagsbreytingu sem till. gerir ráð fyrir. Eðlilegt er að ríkisvaldið kosti rannsóknarstarfsemi sem fremur er vísindaleg en hagnýt eða a.m.k. skilar ekki sjáanlegri framleiðniaukningu, tekjuaukningu eða framleiðslunýjungum á tiltölulega skömmum tíma. Einnig er sjálfsagt og eðlilegt að ríkisvaldið greiði tiltekinn grunnkostnað við starfsemi að hagnýtum rannsóknum og tryggi þannig að sú starfsemi geti farið fram.

Jafnframt er eðlilegt að ríkið styðji með öðrum hætti rannsóknar- og vísindastarfsemi í landinu, t.d. með sjóðsstofnun eða framlagi í sjóð sem rannsóknaraðilar geta sótt fyrirgreiðslu til vegna tiltekinna verkefna. Hins vegar er óeðlilegt að ríkið reki og kosti hagnýt rannsóknarverkefni í þágu atvinnuvega eða fyrirtækja. Slíkt leiðir til óæskilegs viðhorfs til atvinnurekstrar og þeirra verkefna sem atvinnurekendur sjálfir eiga að annast og er þáttur í því sem við jafnaðarmenn höfum kennt við velferðarkerfi fyrirtækjanna.

Með því kerfi hefur ríkisvaldið verið að taka á sig ýmis verkefni fyrirtækja og atvinnuvega og jafnvel gengið svo langt að veita beina og óbeina ríkisábyrgð á rekstri einstakra fyrirtækja. Það fyrirbæri hafa menn ýmist nefnt „þjóðnýtingu tapsins“ eða „sósíalisma andskotans“ eftir atvikum. Er merkilegt að þeir aðilar, sem þar hafa gengið fram fyrir skjöldu um að setja slíkar ábyrgðir og verkefni á ríki og skattgreiðendur, hafa seinastir manna viljað láta kenna sig við þjóðnýtingu eða sósíalisma.

Hagnýt rannsóknarstarfsemi í þágu atvinnuvega og fyrirtækja á fyrst og fremst að vera viðfangsefni fyrirtækjanna sjálfra. Vilji atvinnulífsins til að kosta slík verkefni eða taka þátt í kostnaði við þau á að vera mælikvarði á hvort þessi verkefni teljist vera fýsilegur og arðvænlegur kostur. Þetta er hinn eðlilegi grundvöllur hagnýtrar rannsóknarstarfsemi og með slíku fyrirkomulagi öðlast atvinnulífið sjálft jafnframt bein áhrif á verkefnaval og starfsemi stofnunarinnar.

Eins og fram kemur í till. eru þær ríkisstofnanir sem lagt er til að gerðar verði að sjálfseignarstofnunum og starfræktar í nánum tengslum við atvinnulífið þessar:

Iðntæknistofnun Íslands, Rannsóknastofnun byggingariðnaðarins, Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins og Rannsóknastofnun landbúnaðarins. Till. gerir ráð fyrir því að búnaður þessara stofnana, svo og tækjakostur og eigið húsnæði, verði áfram lagður þeim til og skoðist sem stofnfé frá ríkissjóði. Aðilum í viðkomandi atvinnugreinum verði jafnframt boðið að gerast stofn- og eignaraðilar og á stofnfundi verði sjálfseignarstofnununum sett stofnskrá er kveði á um hlutverk þeirra, stjórn og starfsemi. Eftir það starfi þær sjálfstætt að rannsóknarverkefnum sínum á eigin ábyrgð og án starfslegra eða fjármálalegra fyrirmæla frá hinu opinbera.

Í samningi milli fjmrh. fyrir hönd ríkissjóðs og sjálfseignarstofnananna verði kveðið á um árlegt grunnframlag úr ríkissjóði til stofnananna, sem gæti t.d. verið framlag er næmi áætluðum fastakostnaði stofnananna, en verkefnakostnaður verði greiddur af sjálfsaflafé. Þá er jafnframt gert ráð fyrir því að gerð verði fimm ára áætlun um aukin fjárframlög ríkisins í sjóð til að efla rannsóknar- og þróunarstarfsemi í landinu og að samin verði reglugerð eða sett lög um þá starfsemi þar sem m.a. er gert ráð fyrir að stofnanir, fyrirtæki, einstaklingar eða samtök geti sótt um lán eða styrki úr sjóðnum til einstakra verkefna og hafi jafnan rétt til slíkra umsókna. Vísir að slíkri starfsemi er sérstakt fjárframlag í þessu skyni sem veitt hefur verið á fjárlögum 1985 og 1986.

Að lokum skal tekið fram að till. gerir ráð fyrir því að öll hagnýt rannsóknarstarfsemi, sem nú er á vegum ríkisins, skuli færð til umræddra aðila eða annarra slíkra sem nauðsynlegt kann að þykja að koma á fót. Þetta á við t.d. um tilraunabú, sem nú eru rekin á kostnað ríkisins, nema e.t.v. Fóður og fræ í Gunnarsholti, en álitamál getur verið hvort fé fengist frá öðrum aðilum til hennar þar sem ekki er víst að viðfangsefnið þyki fjarska hagnýtt fyrir íslenskan landbúnað frá skammtímasjónarmiði. Engu að síður er nauðsynlegt að halda þeim rannsóknum og tilraunum áfram sem þar eru gerðar og kæmi vísast á ríkið að standa straum af þeim kostnaði hver svo sem hefði framkvæmdina á hendi.

Herra forseti. Ég legg svo til að þessari till. verði vísað til síðari umr. og til umfjöllunar í allshn.

Umr. (atkvgr.) frestað.

1

1