11.02.1986
Sameinað þing: 45. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 2452 í B-deild Alþingistíðinda. (2047)

Verðlagning á olíuvörum

Kjartan Jóhannsson:

Herra forseti. Það var haft eftir hæstv. viðskrh. í DV nýlega að þegar verð hækkaði á heimsmarkaði hækkaði ekki olíuverðið hjá okkur og þegar það lækkaði lækkaði það að sjálfsögðu ekki heldur. Við höfum nú orðið að upplifa ýmsar hækkanir að undanförnu en lækkanir virðast vera æðilengi á leiðinni.

Ég tók eftir því í ræðu hæstv. viðskrh. að hann talaði um að varasamt væri að miða við lægsta daginn. Það er í sjálfu sér rétt miðað við það kerfi sem við búum við vegna þess að það er engin hætta á því að nokkurn tíma komi til Íslands olía sem keypt er þá daga sem verð á olíunni er lægst. Í fyrsta lagi er þannig frá gengið í samningum við Sovétmenn að þeir hafa val um það á hvaða degi þeir afgreiða olíuna og þeir sem hafa skoðað línurit yfir olíuverðssveiflur á Rotterdam-markaði verða þess fljótlega varir að það er ekki í dölunum heldur er það í toppunum sem innkaupin eru gerð. Það er eitt af því sem skýrir olíuverðlagið á Íslandi.

Í annan stað hafa olíufélögin engan hag af því að vera að berjast við að kaupa olíu lágu verði því að þau fá ekki að njóta þess í neinu og fyrir bragðið fáum við ekki heldur að njóta þess í neinu. Ef eitthvert olíufélagið skyldi slysast til þess að kaupa ódýra olíu hefur það engan hag af því. Það lendir bara á einhverjum innkaupajöfnunarreikningi sem ævinlega er öfugur, eins og kunnugt er, a.m.k. þegar um hann er spurt.

Ég held að það sé tímabært fyrir Íslendinga að hugleiða fyrirkomulag olíuinnkaupanna í heild sinni. Við höfum búið hér við skömmtunar- og leyfiskerfi varðandi olíumálin, skriffinnsku og sjóðsreikninga út og suður, bæði að því er varðar innkaup og verðjöfnun og þar fram eftir götunum, og það skilar okkur ævinlega háu olíuverði, skilar okkur fyrst og fremst háu olíuverði af því að olíufélögin hafa engan hag af því að gera góð og hagkvæm innkaup.

Ég lagði hér í fyrra fram till. til þál. um það að við skyldum taka upp frelsi í innflutningi á olíuvörum. Ég held að það sé eina raunhæfa leiðin til þess að ná hér fram raunverulegri lækkun á olíuvörum, lækkun sem mundi stafa af því að menn færu að haga innkaupum sínum með hagkvæmum hætti og sem mundi leiða til þess að það væri öfugmæli að ráðherra stæði upp og segði: Auðvitað má ekki miða við olíuna þegar hún er ódýrust, vegna þess að það er því miður rétt að miðað við núgildandi kerfi verður það aldrei, að hún sé keypt þegar hún er ódýrust, en ef við værum með skynsamlegt kerfi fengjum við líka ódýra olíu stundum.