13.02.1986
Sameinað þing: 46. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 2548 í B-deild Alþingistíðinda. (2127)

213. mál, laun, samnings- og verkfallsréttur og lögverndun á starfsheiti kennara

Fyrirspyrjandi (Hjörleifur Guttormsson):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherrum fyrir svör þeirra. Þó að mikið skorti á að í þeim komi fram þau viðbrögð, sem ég hefði talið eðlileg og æskileg við kröfum kennara, hafa ekki oft síðustu misseri komið fram hér á Alþingi upplýsingar um ákvarðanir af hálfu ríkisvaldsins sem geta talist skref í rétta átt, eins og það sem kom hér fram hjá báðum hæstv. ráðherrum.

Ég vek athygli á því, sem kom fram í máli mínu áðan, að þessi viðbrögð ríkisvaldsins eru fyrst fengin eftir órofa samheldni þessa launamannahóps, kennaranna, gegn ríkisvaldinu sem hefur sýnt mikla óbilgirni gagnvart sjálfsögðum sanngirniskröfum þeirra. Þegar ég tala um að þetta séu aðeins skref er það ljóst að varðandi samningsréttinn er ekki verið að veita kennurum fullan og óskoraðan samningsrétt með verkfallsrétti, heldur einungis þann rétt sem Bandalag háskólamanna hefur og þar á meðal að sætta sig við gerðardóm ef ekki nást samningar.

Ég vek einnig athygli á því í sambandi við leiðréttingu á launamun að það er fyrst frá 1. febr. s.l. sem á að leiðrétta það misrétti sem kennarar hafa búið við hálft síðasta ár a.m.k. frá því að launamunur jókst stig af stigi milli kennara innan Hins íslenska kennarafélags og Kennarasambands Íslands. Þetta eru auðvitað allsendis ófullnægjandi viðbrögð af hálfu ríkisvaldsins sem hefði átt að sjá sóma sinn í að láta þessa ákvörðun gilda a.m.k. frá 1. nóv. s.l.

Þá vil ég segja það vegna ummæla hæstv. fjmrh. - hann fann að því að ekki hefðu komið viðbrögð frá Bandalagi kennarafélaga við erindi hans frá 29. jan. s.l. fyrr en þann 11. febr. - að mér finnst þetta vera einkennilegar aðdróttanir að félagi sem sameinar innan sinna vébanda tvenn samtök kennara, sem búa við ólíkar aðstæður og ólíka samninga við ríkisvaldið, þar sem með erindi hæstv. fjmrh. var verið að hlutast til um þeirra málefni á þann hátt að að sjálfsögðu urðu þessi samtök að athuga sinn gang nákvæmlega, inn í hvað þau væru að ganga. Nú hafa þau tekið sínar ákvarðanir þar að lútandi og ég vona að það skref verði kennarasamtökunum í heild til heilla.

Ummæli formanns Sjálfstfl. og varaformanns hér í ræðustól í sambandi við athugasemdir sem ég lét falla s.l. þriðjudag sýna aðeins að taugarnar eru farnar að láta sig. Það er vert fyrir aðra hópa launþega að taka eftir þessum viðbrögðum. Hæstv. fjmrh. taldi nauðsynlegt - ég vek athygli á því - að boða formann Hins íslenska kennarafélags á fund upp í ráðuneyti sitt nákvæmlega á sama tíma og fundur var að hefjast hér í Sþ. þar sem fyrir lá fsp. um þetta efni þriðju vikuna í röð. Þannig mat hæstv. fjmrh. sínar þingskyldur. Ég ætla ekki að leggja mat á það.

Ókyrrðin innanbrjósts hjá varaformanni Sjálfstfl. er sannarlega athyglisverð og sú leyniþjónustustarfsemi sem hann er farinn að stunda - ég ætla ekki að finna að henni - því það er sannarlega athyglisvert hversu uppnæmir þessir forystumenn Sjálfstfl. eru þegar greint er frá því hvað er á dagskrá á Alþingi. Ég hygg að það hafi ekki verið annað sem greint var frá í Ríkisútvarpinu. En það hentaði þeim ekki.

Hæstv. menntmrh. Ég vænti þess að fylgt verði eftir því frv. sem kynnt var að fram kæmi og þar verði staðið við það samkomulag sem virðist hafa tekist, ef ég hef skilið ráðherrann rétt, innan nefndarinnar og því verði fylgt eftir með framlagningu þess frv. óbreytts hér á Alþingi þannig að þingið geti um það fjallað og tekið til þess afstöðu.

Ég þakka hæstv. forseta þolinmæðina.