13.02.1986
Sameinað þing: 46. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 2549 í B-deild Alþingistíðinda. (2128)

213. mál, laun, samnings- og verkfallsréttur og lögverndun á starfsheiti kennara

Fjmrh. (Þorsteinn Pálsson):

Herra forseti. Síðari ræða hv. 5. þm. Austurl. sýnir best hversu rökþrota hann er í gagnrýni sinni á ríkisstj. vegna þessa máls. Ég ætla fyrst að víkja að því þegar hann segir í umræðunni að ég hafi boðað formann Hins íslenska kennarafélags til fundar við mig á sama tíma og taka átti þessa fsp. til meðferðar hér á hinu háa Alþingi.

Sannleikurinn er sá að það lá fyrir bréf frá 29. jan. um tilboð um samningsrétt og við því þurfti ráðuneytið að fá svör. Formaður Hins íslenska kennarafélags óskaði eftir því að fá fund með ráðuneytinu þennan umrædda dag. Því fer víðs fjarri að það hafi verið fyrir frumkvæði eða að ósk ráðuneytisins. Hann boðaði komu sína í ráðuneytið. Ég féllst á að halda þennan fund og það var mjög ánægjulegur fundur og leiddi til þessarar farsælu niðurstöðu. En útúrsnúningar hv. þm. sýna fyrst og fremst hversu rökþrota hann er í þessari gagnrýni sinni.

Hann heldur því enn fram að um seinagang hafi verið að ræða af hálfu ríkisstj. Ég ítreka að tilboðið um samningsrétt kom fram 29. jan. Síðar í ræðu sinni segir hann: Samtökin þurftu eðlilega nokkurn tíma til þess að hugsa ráð sitt eftir að þetta tilboð kom fram - og ég er honum alveg sammála. Ég tel það ekkert óeðlilegt að kennarasamtökin hafi þurft nokkurn umþóttunartíma. Það er fullkomlega eðlilegt og ég hef aldrei gagnrýnt það. En það er ekki hægt að gagnrýna ríkisstj. fyrir þann drátt sem á varð vegna þess að kennarasamtökin þurftu eðlilegan tíma til umhugsunar.

Varðandi verkfallsrétt er þess að geta að eins og lög segja til um var eini möguleikinn, sem fyrir hendi var án lagabreytinga, sá að veita heildarsamtökum kennara samningsrétt. Allt annað og allar frekari ákvarðanir um samnings- og verkfallsrétt hefðu þurft lagabreytingar. Og nú spyr ég: Telur hv. þm., eða er það stefna Alþb., að það eigi að koma á þann hátt fram við Bandalag starfsmanna ríkis og bæja að við eigum að vera í samráðsviðræðum við það bandalag um fyrirkomulag samningsréttar en veita svo hverju félagi sem gengur úr bandalaginu sjálfkrafa samnings- og verkfallsrétt? Það teldi ég ekki vera góða framkomu af hálfu stjórnvalda gagnvart Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja. Eða er það kannske sú afstaða gagnvart því bandalagi sem kemur fram í. ræðu hv. þm., að þannig eigi sérstaklega að verðlauna þau félög sem ganga úr Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja en vera svo í samráðsviðræðum við það bandalag að öðru leyti? Þau vinnubrögð er ég ekki tilbúinn til að hafa. Það standa yfir núna samráðsviðræður í tengslum við kjarasamninga um samningsréttarmálin. Ég er þeirrar skoðunar að í þeim efnum verði að gæta heildarsjónarmiða og að félög opinberra starfsmanna eigi öll að sitja við sama borð í því efni eftir því sem tök eru á. Auðvitað er aðstaðan mismunandi hjá einstökum félögum eins og fram hefur komið í verkföllum sem háð hafa verið. Á grundvelli laga hafa tilteknir starfshópar vegna eðlis starfs þeirra verið skyldaðir til þess að vinna í verkföllum.

Að öðru leyti er það mitt sjónarmið að ríkið eigi að tryggja einstökum aðildarfélögum, þegar til lengdar lætur, sömu aðstöðu í samningsréttarmálum og það væri ekki rétt að verðlauna félög eitt og eitt eftir því sem þau ganga úr Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja með því að veita þeim verkfallsrétt. Þar verða menn að horfa á mál frá heildarsjónarmiðum og heildarhagsmunum.