18.02.1986
Sameinað þing: 48. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 2593 í B-deild Alþingistíðinda. (2185)

220. mál, útflutningur á ferskum fiski

Helgi Seljan:

Herra forseti. Á þskj. 448 flutti ég ásamt hv. þáverandi 3. þm. Vestf., sem sat hér sem varamaður, Sighvati Björgvinssyni, svohljóðandi fsp. til hæstv. sjútvrh. um útflutning á ferskum fiski:

„Er sjútvrh. reiðubúinn til þess að beita sér fyrir því að komið verði í veg fyrir að einstök veiðiskip selji meiri hluta fiskafla síns ferskan til útlanda?"

Tilefni þessarar fsp. af hálfu hv. fyrra fyrirspyrjanda, Sighvats Björgvinssonar, var í raun og veru að um þetta efni urðu nokkur orðaskipti milli hæstv. viðskrh. og hv. fyrirspyrjanda sem ég ætla að minna á hér. Ég tek þá fyrst það sem kom fram í máli fyrirspyrjanda til viðskrh. um þetta efni, en með leyfi forseta sagði fyrirspyrjandi svo:

„Það væri ástæða til þess að spyrja hæstv. ráðh, að því hvort hann mundi ekki vilja taka það til athugunar með hæstv. sjútvrh. að stöðva það framferði að fiskiskip sem fær úthlutað kvóta haldi þannig á sínum málum að ár eftir ár selji þetta fiskiskip svo til allan sinn kvóta á erlenda markaði án þess að sjá fyrir atvinnu fyrir íslenskar hendur, hvort ekki sé ástæða til þess að setja einhverjar hömlur við því hversu mikið af afla, sem úthlutað er á hvert fiskiskip, megi selja með þessum hætti til útlanda.“

Síðan ítrekar fyrirspyrjandi hvort hæstv. viðskrh. vilji ekki láta skoða það í samvinnu við sjútvrh. að setja einhverjar hömlur við því að fiskiskip geti ár eftir ár selt svo til allan sinn aflakvóta óunninn til útlanda.

Hæstv. viðskrh. svaraði svo, með leyfi hæstv. forseta: „Það er eðlilega alfarið í hendi sjútvrh. hvort slíkt ákvæði sé sett eins og þetta sem hv. fyrirspyrjandi ræddi um. Hins vegar hefði ég viljað setja ákvæði til að hindra það, þó að ég ráði ekki við það sem viðskrh., að einstaklingar, sem ekki gera skip út, geti selt fiskinn óveiddan í sjónum og kannske er sá fiskur einnig seldur til útlanda. En það er mál sem ég ætla ekki að fara inn á hér og er lítt hrifinn af þótt meiri hluti þm. hafi verið það og sé það.“

Síðast segir svo hæstv. viðskrh. í svari sínu við máli fyrirspyrjanda, með leyfi forseta:

„En hins vegar tek ég undir það með fyrirspyrjanda að ég tel að það verði að stemma stigu við þessu. Ég tel þá hugmynd hans sem fram kom í þessum efnum síður en svo óeðlilega, en hún heyrir alfarið undir sjútvrn." Því er eðlilegt að fá úr þessu skorið hjá hæstv. sjútvrh. sem hefur verið sterklega vísað til í þessu efni.