18.02.1986
Sameinað þing: 48. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 2598 í B-deild Alþingistíðinda. (2191)

241. mál, innkaup á innlendum iðnaðarvörum

Fyrirspyrjandi (Hjörleifur Guttormsson):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. iðnrh. fyrir svör hans. Ég met líka að hann hefur tekið þessi mál upp í framhaldi af því að þessi fsp. var lögð fram og hefur ítrekað erindi til ráðuneyta og stofnana sem áður hafði verið sent án þess að staðið væri við það af þeirra hálfu sem óskað var eftir nema það dæmi sem hæstv. ráðherra gat um.

Ég gagnrýndi nokkuð, þegar þessi mál voru til umræðu hér 18. des. 1984 af tilefni fsp., að umrædd samstarfsnefnd um opinber innkaup hafði verið lögð niður og tekinn upp annar háttur af núv. hæstv. ríkisstj. Hugsunin á bak við samstarfsnefndina á sínum tíma var sú að tryggja með virkum hætti að að þessum málum væri unnið bæði með upplýsingastreymi milli samtaka iðnaðarins og einstakra fyrirtækja og eins gagnvart markaðinum og að fylgt væri eftir gagnvart einstökum ráðuneytum og stofnunum þeirri stefnu sem ríkisstj. hafði samþykkt. Ástæður hæstv. fyrrv. iðnrh. fyrir að leggja þessa nefnd niður voru nokkuð óljósar. Hann upplýsti að hann hefði misst formanninn fyrir borð, eins og hann orðaði það og þá hefði hann brugðið á það ráð að leggja nefndina niður. Það voru harla einkennileg rök að mínu mati.

Ég vil ekki vanmeta það sem verið er að reyna að gera með núverandi skipan mála af hæstv. ríkisstj. en tel þó að það sé miklu minni von til þess en með þeirri tilhögun sem tekin var upp 1982 um þessi mál að ná þarna raunverulegum árangri. Aðrar þjóðir nota opinbera innkaupastefnu sem lið í iðnþróun hjá sér. Hér er tæpast um að ræða að það verði með þessum hætti og ég tel tiltölulega auðvelt fyrir ráðuneyti að smjúga fram hjá þessum óskum sem þarna liggja fyrir þar sem ekki er um skipulegan eftirrekstur og eftirlit með þessu að ræða.

Ég vænti þess að hæstv. iðnrh. fylgi þessum málum eftir, m.a. í ljósi þeirra svara sem honum væntanlega berast við erindi sínu frá 12. febr. s.l. Ég efast ekki um að hann hafi áhuga á því að þessi mál taki aðra stefnu en verið hefur að undanförnu því að hér er um að ræða eitt af helstu tækjum hins opinbera til þess að stuðla að æskilegri innlendri iðnþróun og veitir sannarlega ekki af í þeirri stöðu sem okkar innlendi iðnaður stendur nú í.

Ég læt þessi orð nægja, hæstv. forseti, en vænti þess að ríkisstj. fylgist með virkum hætti með þessum málum í samvinnu við hlutaðeigandi aðila.