18.02.1986
Sameinað þing: 49. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 2622 í B-deild Alþingistíðinda. (2238)

Búmark í mjólkurframleiðslu

Pálmi Jónsson:

Herra forseti. Það er mikill misskilningur hjá þeim hv. þm. Alþb. sem hér hafa talað að við þm. Sjálfstfl. séum eitthvað að þvo hendur okkar af þeirri lagasetningu sem átti sér stað s.l. vor. Hitt er annað mál að sumir okkar a.m.k. eru ekki sérlega ánægðir með öll ákvæði þeirrar reglugerðar sem sett hefur verið, þ.e. framkvæmd laganna sem er í höndum eins ráðherra ríkisstj. Ég ætla ekki að fara út í að skýra það neitt frekar nema eftir því sem tími gefst þá til. Við erum hins vegar ekki að þvo hendur okkar af þessum lögum.

Hv. þm. Páll Pétursson sagði að það hefði verið hörmulegt að Pálmi Jónsson hefði ekki í sinni landbúnaðarráðherratíð sett héraðakvóta. Ég setti til þess nefnd 1982 að undirbúa þetta mál. En því miður tók tíma að vinna þessu máli skilning. Sú nefnd skilaði ekki áliti fyrr en 1984. Það hefði verið mjög ákjósanlegt og gagnlegt ef þá hefði verið horfið að því að koma þessum kvóta á vegna þess að þá var orðinn skilningur fyrir honum. Fyrr var það því miður ekki.

Ég vil hins vegar þakka Páli Péturssyni fyrir það að hann flutti hér ræðu sem var að heita mátti endurtekning á því viðtali sem ég átti við Morgunblaðið s.l. sunnudag svo að ég þarf ekki að hafa fleiri orð um það. Þar erum við ágætlega sammála.

Ég ætla svo aðeins að segja það hér að héraðakvótinn á að mínum dómi að hafa það í för með sér að hann geti dregið úr miðstýringu og afskiptum af búháttum einstakra bænda. Þess vegna er reglugerðin um framleiðslu einstakra bænda of fast reyrð og gengur þannig í öfuga átt. Með héraðakvóta á einnig að vera hægt að koma við meiri áhrifum heimamanna á framleiðsluþróun í hverju héraði. Enn fremur á héraðakvótinn að hafa það markmið að vernda rétt einstakra svæða, þannig að þau tapi ekki rétti sínum þó að framleiðsla dragist saman í því héraði um stundarsakir vegna áfalla, t.a.m. vegna árferðis. Þetta eru meginatriði.