18.02.1986
Sameinað þing: 49. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 2630 í B-deild Alþingistíðinda. (2251)

Búmark í mjólkurframleiðslu

Landbrh. (Jón Helgason):

Herra forseti. Það hefur komið í ljós, sem sagt var í upphafi, að með þessu umræðuformi væri ekki hægt að ræða þetta mál málefnalega enda hafa þessar umræður of mikið einkennst af upphrópunum og fullyrðingum án þess að komið hafi fram ábendingar um aðrar leiðir.

Það hefur komið hér fram að á fundinum, sem haldinn var í gærkveldi og í nótt austur í Landeyjum, bentu flestir á þörfina á að fyrr hefði verið tekin upp sú stjórnun sem hin nýsettu lög heimila og vandinn stafaði af því að slíkt hefði ekki verið gert. Það styður betur en nokkuð annað þörfina á lagasetningunni á s.l. sumri og þá er ekki um það að sakast að þau eru sett, heldur frekar að ekki hafi tekist að koma þeim fram fyrr. Þau voru því ekki sett gegn bændum að mati þeirra sem töluðu á fundinum heldur til að vernda þeirra stöðu. Mönnum er það ljóst að þeir sem að landbúnaði vinna verða að hafa viðunandi afkomu og til þess þurfa þeir að hafa einhverja lágmarksbústærð og það verður ekki gert nema með stjórnun.

Ég get ekki skilið hvernig menn geta haldið því fram að ráðið væri nú að falla frá ákvörðunum reglugerðar og laganna og ákveða enga stjórnun í mjólkurframleiðslunni á þessu verðlagsári, það hefur verið bent á hvað þá yrði gífurlegur skellurinn sem kæmi á bændur með skerðingum eftir á nú á næsta hausti. Það er því ekki leiðin.

Reglugerðin var fyrst og fremst unnin í samvinnu við Stéttarsamband bænda. Ég óskaði eftir því að þegar samningur hafði verið gerður á s.l. sumri kæmu um það tillögur frá Stéttarsambandinu hvernig þessu magni yrði skipt. Það var ákvörðun Stéttarsambandsins að óska eftir svæðabúmarki og það hefur komið hér fram í máli manna að þeir telja að það sé rétt stefna. En vinnan við það tók hins vegar of langan tíma - það sagði ég strax í upphafi - lengri en menn gerðu sér grein fyrir. En það kom hér fram í máli hv. 1. þm. Norðurl. v. áðan að það hefði tekið langan tíma að gera tillögur um að hér skyldi tekið upp svæðabúmark svo að það ætti að vera öllum augljóst að það er ekki gert á einni stundu að móta fullskapaða reglugerð um svo viðkvæmt mál. Formaður Stéttarsambands bænda hefur sagt að reglugerðin byggist í öllum aðalatriðum á tillögum Stéttarsambands bænda og það er það sem ég tel að sé nauðsynlegt.

Hér hefur verið fullyrt að lambakjötið hrannaðist upp. Eins og öllum þm. er kunnugt var verð á lambakjöti lækkað nú snemma vetrar og sú verðlækkun hafði þau áhrif að sala á nokkrum vikum varð á þriðja þúsund tonn. Það hefur því vissulega verið gert átak til að auka söluna innanlands og það er markmiðið að halda slíku áfram.

Úrræðið núna er áreiðanlega ekki það að ætla sér að halda áfram að láta reka á reiðanum og að það sé betra að gera ekki neitt en að stjórna. Ég held að það ætti að vera öllum ljóst - það verður það a.m.k. áður en langt um líður - að þetta eru algerlega óhjákvæmilegar aðgerðir og bændastéttinni brýn nauðsyn.

Skiptingu á búmarkinu er ekki lokið, eins og ég sagði. Því hefur verið vísað til manna heima í héraði að gera tillögur um nokkurn hluta þess og það liggur ekki ljóst fyrir fyrr en þær tillögur koma hvernig endanleg skipting verður. En það er augljóst, og ég vil ítreka það að lokum, að það verður að leita allra leiða - og um það þarf að hafa samstarf við bændasamtökin - til að auðvelda þessa stjórnun sem nú hefur verið tekin upp. Það kom fram í máli manna á fundinum austur í Landeyjum að það eru menn reiðubúnir til að gera.