20.02.1986
Sameinað þing: 50. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 2684 í B-deild Alþingistíðinda. (2290)

226. mál, sameining Kennaraháskóla Íslands og Háskóla Íslands

Menntmrh. (Sverrir Hermannsson):

Herra forseti. Þetta var þörf ábending hjá hv. 11. þm. Reykv. og vissulega hef ég áhuga á þessu. En þetta er hið mesta völundarhús. Og þótt mönnum þyki umræðan ganga í öfugar áttir og úr hófi fram, þá er umræðan af hinu góða. Ég held raunar að í þessu sem fleiru hafi hið háa Alþingi dregið allt of mikið við sig að setja á umræður um þessi mikilvægu málefni.

Það er misskilningur að ákvæða laganna um endurskoðun á kennaramenntuninni hafi ekki verið gætt, að vísu ekki innan þeirra tímamarka sem þar er kveðið á um. Endurskoðuð lög hafa verið lögð fyrir hið háa Alþingi en það ekki getað á endurskoðunina fallist. Það er auðvitað allt annars eðlis.

Ég hef mikinn áhuga á að endurskoða allt skólakerfið. Til starfa hefur tekið endurskoðunarnefnd um framhaldsskólalögin. Þessa dagana er verið að ganga frá skipun endurskoðunarnefndar um grunnskólalögin. Kennaraháskólinn er til sérstakrar athugunar og í framhaldi af því ætla ég mér að leggja fyrir hið háa Alþingi endurskoðuð lög um Kennaraháskólann.

Hér er endalaus álitamál um að tefla og menn þurfa að gá til allra átta auðvitað. Það vill svo til að þessa dagana er stödd hér fjögurra manna nefnd á vegum OECD, Efnahagssamvinnustofnunarinnar í París, sem er að gera mjög gagngera athugun á skólakerfinu íslenska. Nefnd þessi dvelur hér í tíu daga og ferðast einnig út á land til þess að athuga um aðstæður þar, er t.d. á Egilsstöðum nú þessa dagana. Ég er mjög áhugasamur um það hver niðurstaðan verður hjá þessum mönnum sem eru alveg utanaðkomandi en hafa stundað þetta á fjölmörgum öðrum löndum, síðast á Spáni. Hún getur orðið okkur til leiðbeiningar.

Ég er vissulega mjög gagnrýninn á íslenskt skólakerfi. Ég hef ekkert dregið dul á það. Ég verð að minna á að gamni mínu að langa ræðan, sem ég einu sinni hélt úr þessum stóli, var um grunnskólalög en kom að vísu ýmsum öðrum málum við. Ég hef verið gagnrýninn á hina löngu skólaskyldu. Ég er fylgismaður styttingar skólaskyldu en ég vil halda fræðsluskyldu jafnlangri. T.a.m. get ég vel hugsað mér skólaskyldu í 7 ár en fræðsluskyldu aftur á móti í 9.

Menn halda kannske að þetta komi í einn stað niður, en það er líka misskilningur. Að vísu er það reynsla skóla að níunda árið sækja 96% af nemendum að meðaltali. En allt að einu, ég vil ekkert njörva þessi 4% endilega niður, binda þau við þennan rúmstuðul, ef þau vilja taka annað fyrir, vinna fyrir sér með öðrum hætti. Hér er því vissulega að mörgu að hyggja.

Öll umræða um þetta efni - ég tala nú ekki um hér á hinu háa Alþingi þar sem ýmsir eru mjög vel kunnugir veigamestu þáttum skólakerfisins - er af hinu góða. Þessi þáltill. er mjög eðlileg og á eðli hennar hefur verið mikill áhugi. Ég legg eindregið til að hún gangi hið fyrsta til nefndar þannig að nefnd leggi okkur líka lið í athugun á verkefninu.

Ég held hins vegar að allt óðagot í þessum efnum sé ekki til góðs. Þótt menn gagnrýni ýmsa þætti er ég þeirrar skoðunar að skólakerfið okkar sé ekki alvont og oft hættir mönnum til að taka þar hluta fyrir heild - „finni hann laufblað fölnað eitt þá fordæmir hann skóginn“. En margt mætti áreiðanlega betur fara og ég ætla hér með að nota tækifærið til þess út af þessu sérstaka tilefni og vegna fsp. hv. síðasta ræðumanns að geta þess að ég mun beita mér fyrir gagngerðri endurskoðun á lögum um Kennaraháskólann og leggja þau fyrir hið háa Alþingi svo fljótt sem kostur er.