20.02.1986
Sameinað þing: 50. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 2697 í B-deild Alþingistíðinda. (2303)

Tölvukaup fyrir grunnskóla

Eiður Guðnason:

Herra forseti. Ég vil að síðustu hvetja hæstv. menntmrh. til að endurskoða þessa afstöðu sína. Í Morgunblaðinu í dag er viðtal við Bjarna Júlíusson, nýráðinn forstöðumann tölvumála hjá Fjárlaga- og hagsýslustofnun. Þar kemur fram að skólar og kennarar hafa keypt á síðasta ári 500 tölvur í gegnum Fjárlaga- og hagsýslustofnun þannig að þessi þróun er komin af stað, hún verður ekkert stöðvuð eins og hér hefur komið fram. Það er mjög mikilvægt að allir nemendur í grunnskóla eigi kost á því að kynnast þessum tækjum, hvernig þau eru notuð. Það er hægt að gera með því að kaupa ódýrar tölvur.

Ég beini þeirri eindregnu áskorun til hæstv. menntmrh., sem er maður víðsýnn og vill vel í þessum efnum, að hann endurskoði þetta þannig að það komi ekki fyrir fleiri nemendur í fleiri skólum að þeir velji sér þetta nám, en síðan verði að fella það niður vegna þess að engar ákvarðanir eru teknar eða vitlausar ákvarðanir.