25.02.1986
Sameinað þing: 51. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 2748 í B-deild Alþingistíðinda. (2340)

255. mál, kostnaður af starfsemi Krabbameinsfélags Íslands

Fyrirspyrjandi (Guðrún Agnarsdóttir):

Herra forseti. Krabbameinsfélag Íslands var stofnað árið 1951. Það er félag áhugamanna sem beint hefur kröftum sínum að baráttu gegn krabbameini. Þetta hefur félagið gert með hnitmiðuðu leitarstarfi, einkum hjá konum, umfangsmiklu fræðslustarfi og endurhæfingu krabbameinssjúklinga eftir aðgerð. Enn fremur hefur verið gerð á vegum félagsins ítarleg skráning á öllum krabbameinum sem greinst hafa á Íslandi síðan 1954. Krabbameinsfélag Íslands hyggst nú færa út kvíarnar og bæta við leitarstarf sitt, bæði með því að hefja hópskoðun kvenna með röntgenmyndatöku af brjóstum til að leita að brjóstakrabbameini á byrjunarstigi og eins að leita að krabbameinum í meltingarvegi og verður þá körlum boðið að taka þátt í skipulögðu leitarstarfi. Ýmis önnur framtíðarverkefni blasa við eins og fyrirhugað norrænt átak gegn krabbameini á árinu 1986, og síðast en ekki síst hyggst Krabbameinsfélagið hefja söfnun lífssýna á skipulegan hátt til rannsókna á orsökum og eðli krabbameina. Verða slík sýni geymd og nýtt til rannsókna, bæði hérlendis og eins í samvinnu við erlenda aðila.

Það er mjög mikilvægt að þeir sérstæðu möguleikar sem íslenskt þjóðfélag og heilbrigðiskerfi bjóða upp á til rannsókna á krabbameinum og þróunarferli þeirra verði nýttir til hins ýtrasta. Það er eðlilegt að veita aðstöðu til slíks rannsóknarstarfs í tengslum við starfsemi Krabbameinsfélagsins og efla grunnrannsóknir á þessum sjúkdómum. Árangur leghálskrabbameinsleitarinnar, sem rekin hefur verið á vegum Krabbameinsfélags Íslands síðan 1964 í Reykjavík og síðan 1969 um allt land, hefur verið mjög góður og leitt til marktækrar lækkunar á nýgengi sjúkdómsins. Er það einkum vegna þess að forstigsbreytingar finnast í tíma. Enn fremur hefur orðið marktæk lækkun á dánartíðni vegna þessa sjúkdóms og það er vert að geta þess að Ísland hefur einmitt fyrir nokkru verið valið af Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni sem fyrirmyndarland vegna leitarstarfs að þessum sjúkdómi. Krabbameinsfélag Íslands, sem er í raun áhugamannafélag, hefur þannig stundað mikilvægt heilsuverndar- og forvarnarstarf fyrir landsmenn um þrjátíu ára skeið og hefur í raun tekið að sér drjúgan hluta þess heilsuverndarstarfs sem skv. lögum á að sinna á heilsugæslustöðvum. Leitarstarfið er í reynd stærsti útgjaldaliður félagsins.

Ég hef því leyft mér að spyrja hæstv. heilbrmrh.:

Í fyrsta lagi: Hve mikill hluti af rekstrarfé Krabbameinsfélags Íslands kemur frá ríkissjóði? Hvernig er starfsemi félagsins fjármögnuð að öðru leyti?

Önnur spurningin er: Hve mikill er heildarkostnaður við skoðun hverrar einstakrar konu sem kemur til leghálskrabbameinsleitar hjá leitarstöð Krabbameinsfélagsins?