30.10.1985
Efri deild: 10. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 295 í B-deild Alþingistíðinda. (238)

75. mál, umferðarlög

Eiður Guðnason:

Herra forseti. Ég get tekið undir ákaflega margt af því sem fram hefur komið hjá seinustu tveimur ræðumönnum og það er ekki bein ástæða til að setja á langar ræður um efnisinnihald þess langa lagabálks sem hér nú lagður fram öðru sinni eftir að hafa verið fimm ár í meðgöngu hjá endurskoðunarnefnd umferðarlaga. Ég verð satt að segja, eins og hér hefur verið gert úr þessum ræðustól á undan mér, að lýsa furðu minni á því að frv. skuli lagt fram gersamlega og algerlega óbreytt. Mér finnast það ekki góð vinnubrögð af hálfu ráðuneytisins þegar fram eru komnar, eftir að málið var sent til umsagnar í fyrra, margvíslegar athugasemdir. Hv. þm. Helgi Seljan mundaði hér þykkan bunka, þverhandarþykkan bunka, af umsögnum. Mér finnast það vera slæleg vinnubrögð af hálfu ráðuneytisins að fara ekki gegnum þessar umsagnir, mynda sér skoðun á því hverjar athugasemdir skuli taka til greina og hverjar ekki og leggja síðan málið fram í breyttri mynd.

Nú byrjar hv. allshn. þessarar deildar, sem málið fær til meðferðar, á því að lesa og skoða allar þessar umsagnir og það er eins víst, þó að einhverjar ábendinganna og margar kannske vilji hún taka til greina, að ráðuneytið fallist ekki á það og telji það rangt. Það hefði auðveldað þessi vinnubrögð, það hefði flýtt fyrir framgangi málsins ef ráðuneytið hefði, eins og hv. síðasti ræðumaður benti svo réttilega á, viðhaft þessi vinnubrögð. Mér finnst þetta satt að segja vera ámælisvert af hálfu ráðuneytisins og sýna raunar að það vill ekki taka neitt tillit til þeirra ábendinga sem fram eru komnar.

Sömuleiðis er rétt að árétta að ef hæstv. dómsmrh. vill að þetta mál nái fram að ganga á þessu þingi held ég að sé alveg nauðsynlegt að frá því verði gengið með einhverjum hætti að samvinnunefnd fjalli um þetta mál. Mér segir nefnilega svo hugur um að þetta mál muni verða lungann úr vetrinum í allshn. þessarar hv. deildar. Einnig hafa hv. neðrideildarmenn, eins og hv. þm. Salome Þorkelsdóttir benti á áðan, ekki verið mjög fúsir að taka við og samþykkja breytingar á umferðarlögum sem komið hafa úr höndum okkar í Ed. Því tel ég engar líkur á því að þetta mál nái fram að ganga á þessu þingi ef ekki verður hafður sá hátturinn á að allshn. beggja deilda vinni með einhverjum hætti saman að athugun málsins. Ég held að það sé alveg ljóst og raunhæft mat að þá fer málið ekki fram á þessu þingi. Ég bið hæstv. ráðh. að taka það vel til íhugunar. Ég veit að það hefur stundum verið andstaða gegn því hjá nefndum Nd. að starfa í slíkum samvinnunefndum, ég hef rekið mig á það, en auðvitað, þegar um löggjöf eins og umferðarlög er að ræða, eru það einu skynsamlegu vinnubrögðin.

En herra forseti. Mig langar til að víkja stuttlega að örfáum atriðum í þessu frv. Ég held að þó að það horfi á ýmsan hátt til bóta og komi í staðinn fyrir ófullkomin og úrelt umferðarlög sem nú eru í gildi, eins og segir orðrétt í athugasemdum við þetta frv., sé frv. samt að ýmsu leyti gallað og þurfi verulegrar endurskoðunar við.

Í fyrsta lagi skal ég það til taka að mér finnst orðalag í þessu frv. klúðurslegt og sérviskulegt á mörgum stöðum og sums staðar kannske torskiljanlegt. Af handahófi vildi ég vitna í 36. gr. Þar segir, með leyfi forseta:

„Hraðinn má aldrei verða meiri en svo að ökumaður hafi fullt vald á ökutækinu og geti stjórnað því á þeim hluta vegar fram undan sem hann hefur útsýni yfir og áður en kemur að hindrun sem gera má ráð fyrir.“

Ég hélt nú að ökumaður ætti kannske fyrst og fremst að aka þannig að hann gæti stansað í tæka tíð ef hann kemur að hindrun sem ekki má gera ráð fyrir á veginum. Ef ég man rétt stendur í núgildandi umferðarlögum, ég man ekki nákvæmlega hvaða grein, að hraðann skuli miða við að ökumaður geti stöðvað ökutæki sitt á þriðjungi þeirrar vegalengdar sem auð er og hindrunarlaus fram undan. Þetta er a.m.k. öllu skiljanlegra orðalag en í frv. og þetta var kennt og skýrt mjög ítarlega á meiraprófsnámskeiðum hér, a.m.k. einu sinni. Í sömu grein segir, i-lið:

„Þegar ökutæki nálgast stóra fólksbifreið, sem numið hefur staðar til að hleypa farþegum inn eða út, hvílir sérstök skylda á ökumanni að aka nægilega hægt miðað við aðstæður.“

Mér finnst þetta vera eins og hvert annað rugl, að aka nægilega hægt! Það á þá að skylda menn til að aka varlega og með fyllstu gát og ekkert endilega þegar menn nálgast stóra fólksbifreið, sem numið hefur staðar til að hleypa farþegum inn eða út, heldur þegar þeir nálgast hvers konar bifreið sem numið hefur staðar til að hleypa farþegum inn eða út. Það er fullt af meinlokum og mér liggur við að segja andkannalegum vitleysum í þessu.

Ég er þeirrar skoðunar að ákvæði þessa frv. um hraðatakmörk séu allt of íhaldssöm, 70 km á klukkustund utan þéttbýlis, þó 80 km á klst. á vegum með bundnu slitlagi. Þetta á að hækka til þess að við séum í takt við þann veruleika sem er á íslenskum þjóðvegum í dag. Þetta vita allir. Það er ekki hraði aksturinn sem er orsök flestra umferðarslysa. Í þeirri skýrslu sem hv. þm. Salome Þorkelsdóttir vitnaði til áðan, sem þm. barst í dag, er skrá yfir umferðarslys árið 1984. Samtals eru um það bil 40% umferðarslysanna af tveimur ástæðum: Aðalbrautarréttur er ekki virtur, umferðarréttur er ekki virtur. Og ef við bætum við: of stutt bil milli bifreiða, þá förum við sjálfsagt langleiðina upp í 50%. Þetta er það sem í einu orði má kalla tillitsleysi í umferðinni þjösnaskap og tillitsleysi. Það er það sem er meginvandamálið í umferðinni, ekki það að menn aki of hratt þó að vissulega geti það verið slysavaldur og haft í för með sér hættur sem ekki ber að gera lítið úr.

Það var vikið hér sérstaklega að ákvæðum um ljós, ljósabúnað. Sú breyting sem hér er gert ráð fyrir er til bóta. En auðvitað ætti það að vera svo að bifreiðar séu búnar þannig að þær séu með ljósum alltaf. Það er hins vegar eitt sem ég sakna hér. Það eru engin ákvæði um það t.d. að mjög stórar bifreiðar skuli vera auðkenndar með sérstökum ljósum eins og alls staðar annars staðar er. Það gæti að vísu komið í reglugerð. Ökumaður sem er að aka úti á biksvörtum þjóðvegi í kolbrúnamyrkri og kannske í rigningu og með drulluslettur á ljósum og rúðum meira og minna hefur jafnaðarlega ekki hugmynd um hvort hann er í þann veginn að mæta venjulegum fólksbíl eða kannske 12-14 m löngum bíl með tengivagn. Þessum reglum þarf að breyta.

Ég ætlaði aðeins að minnast á örfá atriði eins og ég sagði áðan. Hér eru reglur um reiðhjól. Hér eru í 40. gr. ákvæði um hjólreiðamenn. Það stendur reyndar í 39. gr.: „Hjólreiðamenn skulu aka“. Það er talað um að aka reiðhjóli. Ég hélt að á venjulegri íslensku héti það að hjóla. Það er a.m.k. gott og gilt orð, en ákaflega torkennilegt að tala um að aka reiðhjóli um götur og vegi. Þetta er sams konar mállýska og menn gátu heyrt í þættinum Um daginn og veginn á mánudagskvöldið þegar var verið að tala um þá sem framkvæma uppeldi. Það er álíka gáfulegt.

Hér er talað um t.d. að þeir sem eru á bifhjólum skuli nota hjálma. Það eru ákvæði um það hér. En það er ekkert sem skyldar ökumenn reiðhjóla til að vera með öryggishjálm. Ég held að það sé umhugsunarefni hvort ekki eigi að gera það. Komið hefur í ljós erlendis að varnarhjálmar af þessu tagi geta nánast komið í veg fyrir öll höfuðmeiðsl á hjólreiðamönnum. Þeir fara ekki hraðar en það að þessir hjálmar geta varið fólk gegn öllum höfuðmeiðslum. Þetta hefur orðið reynslan erlendis og ég held að þetta þurfi að íhuga.

Hér stendur að vanur hjólreiðamaður, sem náð hefur 15 ára aldri, megi flytja barn yngra en sjö ára á reiðhjóli, enda sé barninu ætlað sérstakt sæti og þannig um búið að því stafi eigi hætta af hjólteinum. Gott og vel. En ég verð að segja það alveg eins og er að mér finnst það stundum í líkingu við það þegar maður sér haldið á börnum í framsæti bifreiðar þegar fólk er með smábörn í sérstöku sæti á reiðhjóli sem eru gersamlega óvarin. Ef hjólreiðamaðurinn verður fyrir einhverri truflun, missir jafnvægið og dettur er smábarnið í sætinu, aftan á hjólinu jafnaðarlega, gersamlega óvarið. Af þessu hafa orðið mörg slys og ég held að það sé fullkomin ástæða til að íhuga þetta.

Ég skal ekki, herra forseti, hafa þessa upptalningu öllu lengri, en þó get ég ekki stillt mig um að minnast hér á 47. gr. umferðarlagafrv. sem hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Þegar maður hefur neytt áfengis á veitingastað og veitingamaður eða þjónar hans vita eða hafa ástæðu til að ætla að hann muni brjóta gegn ákvæðum 1. mgr. 45. gr. ber þeim að reyna að hindra brotið með því m.a. að gera lögreglunni viðvart [þ.e. að aka undir áhrifum víns].“ Síðan segir: „Bannað er að selja eða afhenda ökumanni vélknúins ökutækis eldsneyti eða annað sem þarf til aksturs ef hann er augljóslega undir áhrifum áfengis. Skylt er bensínafgreiðslumönnum, ef þeir vita eða hafa ástæðu til að ætla að ökumaður muni brjóta gegn ákvæðum 1. mgr. 45. gr., [þ.e. aka undir áhrifum áfengis] að reyna að hindra brotið með því m.a. að gera lögreglunni viðvart.“

Ég verð að segja alveg eins og er: Af hverju eru þessar tvær starfsstéttir, veitingamaður eða þjónar hans og bensínafgreiðslumenn, tilgreindar hér sérstaklega? Hvað með ölvaðan ökumann sem kemur inn í söluturn til að kaupa sér þar tóbak eða eitthvað annað og starfsfólkið þar sér að hann er ölvaður? Á því ekki að bera sama skylda til að tilkynna slíkt? Ég verð að segja að mér finnst þetta fráleitt. Annaðhvort á þessi skylda að vera á öllum borgurum eða ekki. Og skv. almennri reglu er það auðvitað borgaraleg skylda manna að koma í veg fyrir afbrot. Þess vegna ætti það líka að vera borgaraleg skylda hvers manns, ef hann sér að ölvaður ökumaður ætlar að stíga upp í bíl, setjast undir stýri og stofna þannig ekki aðeins sínu eigin lífi heldur og lífi samborgaranna og eignum í verulega hættu, að koma í veg fyrir það. Hins vegar er spurning hvort á að binda það í umferðarlögum með þeim hætti sem hér er gert. Mér finnst það alveg fráleitt í hvívetna að taka þessar tvær starfsstéttir sérstaklega út úr, veitingamann eða þjóna hans eða bensínafgreiðslumenn. Þetta hlýtur að eiga við um alla landsins þegna. Hins vegar er spursmál hvort á að binda það í lögum með þessum hætti. Það er allt annað mál. Ég lít svo á að það sé borgaraleg skylda ef einhver maður veit að það á að fara að fremja lögbrot sem stofnar lífi samborgaranna óneitanlega í hættu.

Ég skal ekki, herra forseti, hafa þessar athugasemdir miklu fleiri. Ég taldi nauðsynlegt að koma þessu hér að. Þetta mál mun fá ítarlega umfjöllun í nefnd, en ég legg áherslu á að ef það er vilji dómsmrh. að þetta mál nái fram á þessu þingi verður að sjá svo til að samvinnunefnd starfi að því. Ég held að annars nái málið hreinlega ekki fram að ganga.

Vissulega get ég tekið undir margt af því sem hv. þm. Salome Þorkelsdóttir sagði áðan um hvernig við ættum að berjast gegn umferðarslysunum, en ég hef svolitlar efasemdir um að við getum sett málið upp með þeim hætti sem hún gerði, þ.e. við setjum okkur að draga úr slysum um 10% á ári. Ég hef vissar efasemdir um að það sé raunhæft að vinna að þessu þannig. Það þarf stöðugt að vera á varðbergi. Það þarf, eins og hún réttilega sagði, að koma á hugarfarsbreytingu, hugarfarsbyltingu, og það þarf að efla fræðslu um þessi mál í skólakerfinu. Veruleg spurning er hvort ekki á að taka upp ökukennslu í skólakerfinu við 17 ára aldurinn með einhverjum hætti þó svo að hluta til sé það enn þá í höndum ökukennara. Ég er þeirrar skoðunar að hluta af því hvernig umferðarmenningin er hér á landi megi kannske rekja til skapferlis Íslendinga með einhverjum hætti. Hluta þess má rekja til ökukennslunnar alveg tvímælalaust, að ég hygg.

Auðvitað eru þarna margar og samverkandi ástæður sem eiga þátt í hvers vegna ástandið er svona. Ég held að við getum aldrei upprætt slys hvernig og hvað sem við gerum, en við getum dregið úr þeim, við getum fækkað þeim mikið og við getum sparað peninga með því, og ekki aðeins peninga heldur getum við sparað þjáningar og sorg sem aldrei verður í aurum og krónum talið. Það er það sem við eigum að gera. Það er þannig sem ég vil sjá að þessu unnið. Kannske þurfum við fyrst að koma á þeirri hugarfarsbreytingu hjá hæstv. ráðherrum og ríkisstj., sbr. það línurit sem hér hefur verið vitnað til og er á öftustu síðu þessarar skýrslu sem ég hvet þm. eindregið til að kynna sér. Þarna sést hvernig ríkisframlag til Umferðarráðs hefur hrapað. Nú er það engin allsherjarbót eða lausn á þessum málum að veita endilega auknu fé til þessarar ákveðnu stofnunar. Það verður að gera átak á miklu, miklu fleiri sviðum og miklu víðtækara. Þá getum við dregið úr þessu. En til þess þarf að koma menntun, stöðug fræðsla. Það hefur tekist um hríð að draga úr þessum vágesti sem réttilega hefur verið kallaður farsótt, faraldur, en við stöndum okkur þarna miklu verr og langtum verr en margar þjóðirnar í kringum okkur. Eitt af því hlálegasta hér, og er ekki þar við hv. Ed. að sakast, eru bílbeltamálin sem hafa fallið í Nd. og ekki náð fram að ganga þar. Einfaldasta, áhrifaríkasta og ódýrasta ráðið til að draga úr meiðslum og koma í veg fyrir banaslys af völdum umferðar er notkun bílbelta. Svo einfalt er það. Það er undarlegt að í þessu þjóðfélagi skuli vera fullt af mönnum, sem vissulega eru góðir og gegnir, greindir og skýrir, sem loka augunum fyrir þeirri einföldu meginstaðreynd að þetta er einfaldasta, ódýrasta og virkasta ráðið til að draga úr slysum.