28.02.1986
Neðri deild: 54. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 2883 í B-deild Alþingistíðinda. (2436)

54. mál, sveitarstjórnarlög

Stefán Valgeirsson:

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð út af þeim umræðum sem hafa farið fram um þetta mál. Mér finnst eins og ýmsir hv. ræðumenn hafi ekki gert sér grein fyrir því hver þróunin hefur orðið t.d. varðandi sýslunefndirnar á undanförnum árum. Það eru til byggðarlög þar sem eru aðeins 2–3 hreppar - þéttbýlisstaðirnir standa alveg utan við þessar sýslunefndir - þó að á öðrum stöðum sé þessu öðruvísi farið. Að því er ég veit best er það einsdæmi að kaupstaður eins og Ólafsvík skuli taka þátt í sýslunefnd.

Ég veit ekki um annan stað. (Félmrh.: Ekki afgreiðslu mála.) Nei, ég veit það. En tekur samt sem áður þátt í umræðum og tillögugerð en auðvitað ekki í afgreiðslu mála.

Hugsunin, sem hefur verið fordæmd hér af ýmsum sem talað hafa, um það að ekki skuli vera tekin ákveðin afstaða til þess hvernig skuli standa að þriðja stjórnsýslustiginu, stafar fyrst og fremst af þeirri óeiningu sem er úti um allt land um það hvernig eigi að standa að því máli. Á því er engin launung og það ætti ekki að hafa farið fram hjá hv. þm. að menn voru mjög á móti t.d. IX. kaflanum yfirleitt.

Ég fyrir mitt leyti tel að í sambandi við þessi mál þurfi að gefast tóm til að þessi mál þróist. Ég man ekki hver það var sem sagði það hér í ræðustól út af þessum málum að verið væri að opna leiðina t.d. fyrir það að félagslegar heildir geti náð yfir sýslutakmörk. Þetta hefur bara verið um langan tíma. Eyfirðingar, sem eru í Þingeyjarsýslu, eiga t.d. í félagslegum samskiptum við Eyfirðinga en ekki Suður-Þingeyinga, að öllu öðru leyti en því að þeir eru innan Þingeyjarsýslu og þurfa að sækja veðbókarvottorð og annað austur á Húsavík.

Þetta frv, breytir út af fyrir sig engu um lögsöguna. Sýslumennirnir þjóna sínu umdæmi eftir sýslumörkum og kaupstaðarmörkum jafnt eftir sem áður. En okkur, sem stöndum að þessu, er ljóst að það er mjög æskilegt að því sé haldið opnu að samskipti héraðanna geti farið út fyrir sýslumörk eins og hefur raunar gerst.

Hér eru tvær tillögur um að setja mörk hærri en 50 íbúa til þess að reyna að hafa áhrif á að fámennustu hrepparnir sameinist öðrum hreppum skv. 5. gr. frv. Þó er alls ekki verið að lögákveða að slíkt skuli gert enda eru landfræðilegar aðstæður í mörgum tilvikum þannig að það er jafnvel ógerlegt.

Það er till. um að þessi mörk miðist við 100 íbúa. Miðað við þetta 50 íbúa mark eru 17 hreppar undir því. En miðað við 100 íbúa mark eru það 54. Síðan er ein till. frá hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur um að mörkin skuli vera 400. Það mundi þýða að það mundi ná til 161 hrepps. Yfir þeim mörkum eru ekki nema 62 hreppar fyrir utan 23 kaupstaði.

Ég er alveg sannfærður um það og hef af því nokkra reynslu að ef ætti t.d. að fara að lögfesta það að sameina sveitarfélögin, þá mundi það tefja blátt áfram fyrir þróun því að ég hef ekki trú á því að félmrn., hver sem væri félmrh., mundi treysta sér til að neyða sveitarfélögin til þess jafnvel þó að það væri ákveðið með löggjöf. Það mundi í mörgum stöðum blátt áfram magna upp mótstöðuna ef slíkt yrði sett í lög. Þannig verkar það og ég gæti komið með dæmi um það.

Það hefur verið mikið talað, eins og títt er, um lýðræði, lýðræðislegar kosningar. Menn telja að ef sveitarstjórnir kjósa í nefndir sé það ekki lýðræðisleg kosning. Eru ekki sveitarstjórnir kosnar lýðræðislega? Er ekki líklegt að jafnvel þó að íbúarnir mundu kjósa beint mundi það fara alveg eftir því? Ég held að menn séu eitthvað að ruglast á því hvað er lýðræði og hvað ekki lýðræði. Andstætt því sem hefur komið hér fram er sagt í 57. gr. alveg greinilega að sveitarstjórnir skuli kjósa í þessar nefndir. Ég sé ekki annað en að það sé eðlilegt þó að sumir hafi haft jafnvel stór orð um slíkt.

Þó að ég geti verið sammála hv. 1. þm. Norðurl. v. um að orðið „byggðasamlag“ sé leiðinlegt orð og það nái kannske ekki yfir það sem ég er vanur að kalla samlög finnst mér hann taka nokkuð djúpt í árinni þegar hann ræðir um þetta og ég er á allt annarri skoðun en hann um byggðaráðin. Það má sjálfsagt deila um það hvað er heppilegt, hvað er skynsamlegt og hvaða orð á að nota yfir þau hugtök sem þetta á að ná yfir. En þá vil ég bara auglýsa eftir tillögum og ég er tilbúinn fyrir mitt leyti að skoða þær.

Því er haldið fram að þetta frv. sé svo illa úr garði gert að ástæða sé til að fresta lögfestingu þess. Það eru ekki öll okkar mannanna verk fullkomin og ég ætla ekki að halda því fram að þetta frv. sé frekar fullkomið en mörg önnur frv. sem við erum að afgreiða. En mér finnst nokkuð mikið sagt að það sé þannig úr garði gert að ekki sé forsvaranlegt að lögfesta það.

Hv. 5. þm. Austurl. lét sér það sæma að tala um frv. sem vanskapning. (HG: Það er veikt til orða tekið.) Já, og hann segir að það sé veikt til orða tekið. Ég held að svona orðskrípi, sem menn nota, hitti menn sjálfa. Ég fullyrði að þetta frv. er alls ekki með meiri vandkvæðum en mörg þau frumvörp sem við höfum afgreitt hér á undanförnum árum. Ég þekki það um 19 ára skeið en ætla ekki að fara frekar út í það.

Hv. 5. þm. Austurl. taldi að flokkur félmrh. hefði látið þröngva sér til þess að standa að því að lögfesta þetta frv. Hver leggur þetta fram? Er það ekki hæstv. félmrh.? Ég held að farið sé að slá út í fyrir mönnum þegar menn halda þessu fram. Ég held að það sé ekki hægt að ætla annað. (HG: Framsókn hefur nú áður kysst á vöndinn.) Ég þekki það ekki. Það getur vel verið að hv. þm. Hjörleifur Guttormsson sé vanur því að kyssa á vöndinn, en ég þekki það ekki.

Það hefur verið fundið dálítið að því hvernig 6. gr. er hér sett fram. Eins og brtt. eru kemur eftirfarandi í stað 4. og 5. málsgr., með leyfi forseta:

„Verkefni þau, sem sýslunefndum eru nú falin með lögum, skulu falla til sveitarfélaga. Félagsnefndir skulu myndaðar um lausn þeirra verkefna.“

Er þetta ekki alveg skýrt? Hins vegar eru menn ekki lögþvingaðir til að taka þátt í slíku frekar en kaupstaðirnir nú. Er nokkur ástæða til að lögþvinga hreppana frekar en kaupstaðina? Auðvitað er æskilegt að slík þróun verði. A.m.k. vona ég að hinir fjölmennari staðir taki þátt í þessu samstarfi. En ég tel að það verki þannig að ef ætti að lögfesta slíkt mundi það verka öfugt við það sem við, sem þekkjum þetta best, höfum talið að þróunin mundi verða.

Ég fyrir mitt leyti er alls ekki þar með að segja að ég sé á móti þriðja stjórnsýslustiginu. En ég vil bara að byggðirnar sjálfar þrói þetta og komist sjálfar að niðurstöðu en við, sem hér erum, séum ekki að ákveða slíkt. Það er bent þarna á leiðir.

Varðandi það sem hv. 5. þm. Vestf. sagði áðan held ég að við ráðum ekki við þau verkefni sem eru inni í þessum héruðum með því móti að stofna fylki. Við þurfum jafnt eftir sem áður að leysa þau mál í hverri byggð, hverju héraði. Við leysum ekki sameiginleg fjallskilamál, sýsluvegi og eitt og annað öðruvísi en hver byggð út af fyrir sig. Það er ekkert heldur sem bannar að það sé sami fulltrúi í byggðanefnd og er t.d. fyrir hönd þess sveitarfélags í skólahverfi o.s.frv. En það er líka opið að það sé sérstakur fulltrúi til þess.

Mér er ljóst að alltaf má deila um það hvernig ákvæðin skuli vera í þessu frv. sem í öðrum. En það er mikið sagt og ómaklegt að tala um að frv. sé þannig úr garði gert að það sé sjálfsagt að fresta málinu, og að segja að þetta sé vanskapningur, það er fyrir neðan virðingu allra þm. að komast þannig að orði.