04.03.1986
Sameinað þing: 54. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 2953 í B-deild Alþingistíðinda. (2472)

294. mál, fullvirðisréttur í landbúnaðarframleiðslu næstu verðlagsár

Landbrh. (Jón Helgason):

Herra forseti. Á þskj. 540 hefur hv. 5. þm. Austurl. borið fram fsp. til mín um ákvörðun um fullvirðisrétt í landbúnaðarframleiðslu næstu verðlagsár og gert grein fyrir þeim hér.

Fyrsta spurningin: „Hvenær er þess að vænta að fyrir liggi tillögur og ákvarðanir um fullvirðisrétt bænda fyrir næsta verðlagsár: a. vegna nautgripaafurða, b. vegna sauðfjárafurða?"

Því er til að svara að áður en reglugerðir um fullvirðisrétt og aðra framleiðslustjórn í landbúnaði eru gefnar út ber ráðherra að leita um það efni tillagna hagsmunasamtakanna, sbr. 35. gr. búvörulaganna nr. 46/1985. Þegar eftir að lögin voru gengin í gildi var óskað eftir slíkum tillögum frá Stéttarsambandi bænda. Hinn 28. ágúst s.l. var það áréttað með eftirfarandi bréfi:

„Ráðuneytið áréttar hér með fyrri tilmæli sín til Stéttarsambands bænda um að stéttarsambandið geri tillögur um framkvæmd framleiðslustjórnunar í mjólkurframleiðslu og sauðfjárrækt á grundvelli laga nr. 46 27. júní 1985, um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum, og með hliðsjón af samningum um afurðamagn í þessum greinum, sbr. 30. gr. laganna.“

Þetta var enn áréttað í bréfi sem skrifað var 7. nóvember s.l. Þar segir m.a.:

„Í framhaldi af fundi Stéttarsambands bænda þann 31. október s.l. þar sem ráðuneytinu voru kynntar tillögur svæðabúmarksnefndar áréttar ráðuneytið tilmæli sín frá þeim fundi um að stéttarsambandið leggi einnig fram tillögu um reglur um skiptingu mjólkur- og kjötframleiðslu á einstaklinga.“

Hinn 16. desember barst ráðuneytinu bréf frá Framleiðsluráði landbúnaðarins svohljóðandi:

„Hjálagt sendi ég yður tillögur svæðabúmarksnefndar Framleiðsluráðs landbúnaðarins. Tillögur nefndarinnar voru til umfjöllunar á fundum Framleiðsluráðs og stjórnar stéttarsambandsins í október og aftur í lok nóvember. Var nefndinni veitt umboð til að ganga endanlega frá tillögunum.“

Eins og hér kemur fram var þarna um að ræða viðræðugrundvöll milli stéttarsambandsins og ráðuneytisins í bréfinu sem sent var 16. desember s.l. og þá eingöngu fyrir mjólkurframleiðsluna. Ég hafði þá tekið þá ákvörðun að gefin skyldi út reglugerð um mjólkurframleiðslu þessa verðlagsárs sem gilti aðeins fyrir þetta ár þar sem dráttur hafði orðið svo langur á því að fá endanlegar tillögur sem gætu gilt lengra fram í tímann.

Eins og fram kom í þessu bréfi var tillagan frá Framleiðsluráði aðeins um mjólkurframleiðsluna. Því var skrifað eitt bréf enn í landbrn. hinn 25. febrúar þar sem óskað var eftir tillögum um framleiðslustjórn í mjólkurframleiðslu og sauðfjárrækt frá Stéttarsambandi bænda og Framleiðsluráði fyrir næstu ár.

Stéttarsambandið hefur nú gert starfsáætlun og boðar tillögur sínar um það hinn 15. apríl n.k. Aðalfundur Stéttarsambands bænda er síðan áformaður 9.-11. júní. Landbrh. mun leita álits þess fundar á reglugerð um fullvirðismark fyrir verðlagsárið 1986-1987 og því ættu tilkynningar að geta borist bændum fljótlega eftir það, bæði hvað varðar mjólk og sauðfjárafurðir.

Önnur spurningin er: „Hvert er það framleiðslumagn sem landbrh. gerir ráð fyrir að fullt verð komi fyrir árlega í hefðbundnum búgreinum næstu fimm árin?"

Nú hefur verið samið um að á verðlagsárinu 19861987 verði bændum ábyrgst fullt verð fyrir 106 millj. lítra af mjólk og 11 800 tonn af kindakjöti, sbr. a.-lið 30. gr. laga nr. 46/1985. Fyrir árin 1987-1990 mun þetta framleiðslumagn ráðast af samningum þeim sem landbrh. gerir við Stéttarsamband bænda og honum er rétt að leita eftir við Stéttarsamband bænda skv. áðurnefndri lagagrein. Fyrr en slíkur samningur liggur fyrir er ekki hægt að segja um hvert afurðamagnið verður.

Þá er þriðja spurningin: „Hvenær geta bændur vænst þess að vita um fullvirðisrétt sinn á umræddu tímabili, þ.e. fyrir verðlagsárið 1987-1991?"

Svar við því er að það mun að sjálfsögðu ráðast af lengd samningstíma, en samningum skal vera lokið fyrir 1. ágúst ár hvert og skulu gilda næsta verðlagsár, en heimilt er að semja til lengri tíma í einu eins og gert var á s.l. sumri þegar samið var til tveggja ára. Þegar þessi verk eru komin í mótaðar skorður samkvæmt búvörulögunum má gera ráð fyrir að fullvirðismark einstakra bænda geti legið fyrir þegar að lokinni samningsgerð hverju sinni.