04.03.1986
Sameinað þing: 55. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 2968 í B-deild Alþingistíðinda. (2482)

269. mál, frelsi í innflutningi á olíuvörum

Birgir Ísl. Gunnarsson:

Herra forseti. Ég ætla ekki að ræða efnislega þá till. sem hér liggur til umræðu, enda er ég formaður þeirrar nefndar sem fær hana til meðferðar og hef þá aðstöðu þar til þess að koma til þess að þarna þurfi eitthvað að betrumbæta. Sjálfur hef ég þá trú að það gerist best með því að örva og auka samkeppni á milli olíufélaga. Ég vil ekki vera eins afdráttarlaus í skoðunum að þessu leyti og hæstv. viðskrh., um að aukin samkeppni og frelsi í þessari atvinnugrein geti ekki leitt af sér betra skipulag, en mér hefur virst hæstv. viðskrh. vera þeirrar skoðunar. En það var ekki aðaltilgangurinn með því að standa hér upp heldur var það ræða hv. 3. þm. Vesturl., þegar hann rifjaði það hér upp að á síðasta þingi hefði verið breytt lögum sem hefðu átt að örva olíufélögin til samkeppni með því að í stað sameiginlegs innkaupareiknings hefðu þau hvert um sig sinn sérstaka innkaupareikning.

Nú er það svo, eftir því sem fram kemur í blaðagrein sem nýlega birtist eftir einn af forstjórum olíufélaganna, þ.e. forstjóra Olíuverslunar Íslands hf., Þórð Ásgeirsson, að miklir erfiðleikar eru á því að framkvæma þessi lög og að móta reglur sem hægt sé að vinna eftir. Hann segir í sinni grein, sem ég hef hér fyrir framan mig, að viðskrn. og Verðlagsstofnun hafi ekki enn tekist að forma þær reglur sem vinna skuli eftir samkvæmt hinum nýju lögum. Og nú vildi ég beina þeirri spurningu til hæstv. viðskrh. hvernig gangi að forma og semja þessar reglur og hvenær megi búast við því að þær sjái dagsins ljós.