04.03.1986
Sameinað þing: 55. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 2968 í B-deild Alþingistíðinda. (2483)

269. mál, frelsi í innflutningi á olíuvörum

Samgrh. (Matthías Bjarnason):

Í sambandi við þau lög sem afgreidd voru á síðasta þingi átti að stefna að því við gildistöku laganna að jafna innkaupajöfnunarreikninga og þannig að skipta þessu á hvert olíufélag fyrir sig. Það hefur því miður ekki tekist vegna þess að verðbreytingar hafa verið gerðar fyrr en hægt hefur verið að minnka útstreymi af innkaupajöfnunarreikningi. Miðað við 28. febrúar var innkaupajöfnunarreikningur á bensíni hagstæður um rúmlega 4 millj., eða 4 051 000 kr., en á gasolíunni var hann óhagstæður um 30 785 000 kr., og hafði aukist frá áramótum mjög verulega vegna þess að gasolíuverðið var a.m.k. 10 aurum lægra en það þurfti að vera. Og með þeirri verðlækkun sem gerð var í kjölfar samninga um fiskverð verður batinn á innkaupajöfnunarreikningi lengur að koma í ljós, þannig að langt verður liðið á sumarið eða fram undir haust þegar sá reikningur fer að ná jöfnuði. Hins vegar var nokkur halli einnig á svartolíu þó aðeins 1 150 000 kr., en sá halli næst fljótlega upp vegna þess að nú verður brátt farið að selja svartolíu sem keypt var á lægra verði. Á meðan þær birgðir sem keyptar voru á hinu háa verði eru til sölu verður þetta óhagkvæmt en síðan, eftir því sem olía sem keypt er á hagstæðara verði kemur til sölu, verður hér breyting á. Hér var þessu flýtt má segja um of, en af mikilli nauðsyn, til þess að greiða fyrir samningum um fiskverð. Það er ekki fyrr en jöfnuði er náð sem hægt er að skipta þessum innkaupajöfnunarreikningi.

Ég segi fyrir mitt leyti að mér finnst harður dómur hv. 3. þm. Reykn. yfir manni eins og Gylfa Þ. Gíslasyni sem var viðskrh. samfleytt í 12 ár í viðreisnarstjórninni og þar áður í stjórn í 3 ár á undan, sennilega í 15 ár. Allan þennan tíma voru þessi viðskipti með þessum hætti. Það er líka harður dómur yfir öllum öðrum sem þarna hafa komið nærri málum. Og ég spyr: Hvernig stendur á því að þessi vitleysa, sem hv. þm. kallar þetta núna, var látin viðgangast allan þennan tíma? Hvernig stóð á því að hann lét þetta viðgangast þegar hann var sjútvrh.? Hvernig stóð á því að hann lét þetta viðgangast þegar hann var viðskrh., þegar hann hafði allt þetta á takteinum? Svo segir hann að viðmiðun sú, sem ég kom hér með áðan, sé bara bull og vitleysa. Hann getur alveg eins sagt að hvítt sé svart og svart sé hvítt. Þetta eru staðreyndir sem fyrir liggja og það er miðað við sama dag.

Þegar menn spyrja: Eru Rússar að sigta eitthvað út hvenær olían er að hækka á Rotterdammarkaði? Þeir vita ekki meira um það en svo, og það hélt ég að fyrrv. ráðh. ætti að vita, og raunar allir þm., að þegar afskipun fer fram veit seljandinn ekki verðið fyrr en daginn eftir, ekkert frekar en kaupandi. Nú er verið að kaupa olíu á hinum frjálsa markaði. Hver er viðmiðunin þar? Hún er 5 daga fyrir og 5 daga eftir afskipun á þeirri olíu þannig að það er tekið meðaltal 10 daga. Þannig gengur nú þetta til í þessum efnum.

Ég hef ekki á móti því að það ríki frelsi í að flytja inn olíu og frelsi á mörkuðum. Við höfum náð því frelsi að þjóðin sem selur okkur mest af olíunni undirgengst það að selja olíuna á heimsmarkaðsverði, á hinu svokallaða viðmiðunarverði. En það hefur líka bæði kosti og ókosti. Þegar framboð er mikið er ekki hægt að prútta niður eins og á markaði. Við verðum oft að selja fisk við mjög óhagstæð skilyrði, en það er nú kannske viðkvæmari vara, eins og allir vita með ísfiskinn. Við verðum að haga okkur eftir þessum nótum og við sjáum það í öllu því sem við flytjum inn frjálst og óhikað að þar höfum við ekkert náð neinu betra. Það er t.d. kostur við sovésku samningana að fragtin er miðuð við Rotterdam-fragtina. Það er t.d. dýrari fragt á portúgölsku olíunni til Íslands en á olíu við Svartahafið vegna þess að hún er bundin þessari viðmiðun. Þannig má telja bæði kosti og lesti.

Olíufélögin hafa verið ákaflega fús til samstarfs en ég er alveg sannfærður um það að þau vilja fá að kaupa olíuna þar sem þeim dettur í hug hverju sinni. Olía lækkar ekki hér á sama degi og hún lækkar út í heimi. Það er verið að segja frá því í fréttum í Ríkisútvarpinu að olía í Þýskalandi hafi lækkað um 10%. En þá er þess ekki getið að fall dollarsins og hækkun marksins veldur sennilega liðlega helmingnum af þessari 10% verðlækkun sem hér er um að ræða. Það er aldrei sögð nema hálf saga og tæplega það. Þetta þarf allt saman að vera inni í myndinni. Svo kemur hitt: Við erum alltaf að fá fréttir af því að um leið og olíunni er dælt upp úr iðrum jarðar hafi hún fallið þetta og þetta í verði. Í sjálfum Bandaríkjunum verða notendur að bíða í 45-50, jafnvel 60 daga þangað til olía, sem er að lækka í dag, er komin til sölu, búið er að vinna hana. Þetta verðum við einnig að hafa í huga. Þegar við erum búin að draga frá verðjöfnun og flutningskostnaðinn þá hefur olíuverð á Íslandi ekkert verið hærra en í nágrannalöndum á undanförnum árum. En bensínverðið er miklu hærra eins og ég sagði áðan og það er af allt öðrum ástæðum.

Hitt er annað mál, sem ég ætla ekki að verja, að vitaskuld verða olíufélögin eins og allir aðrir að sýna hagsýni í sínum rekstri. Þeir sem þau reka eiga ekkert að velta því yfir á þá sem þessar afurðir þurfa að kaupa, heldur verða þeir vitaskuld að reka sín fyrirtæki með þeim hætti sem sómasamlegt getur talist. En afkoma olíufélaga í heild á s.l. ári er að þeirra sögn, og eftir þeim reikningum sem fyrir liggja, mjög bágborin þrátt fyrir allt tal um olíugróða og olíuauðvald og þess háttar.

Ég er fyrst og fremst að tala um að bæta þurfi það sem að er í dreifingunni, en ég tel að eins og nú er háttað væri stórhættulegt að svíkja fimm ára samning við Sovétríkin með því að rjúfa þessi tengsl. Ég vildi ekki þurfa að svara því á komandi hausti þegar sjómenn og útgerðarmenn færu að spyrja: Ja, hvar á nú að selja síldina, góði?