06.03.1986
Sameinað þing: 56. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 2993 í B-deild Alþingistíðinda. (2512)

11. mál, mat heimilisstarfa til starfsreynslu

Haraldur Ólafsson:

Herra forseti. Ég er satt að segja undrandi yfir þessari frávísunartillögu meiri hluta hv. allshn. Það er ekki hægt að bera á borð fyrir hv. Alþingi núna á þessum dögum að tiltekin atriði skuli ekki afgreidd þaðan með venjulegum hætti vegna þess að það snerti kjarasamninga. Ég held að það þurfi ekki að fara yfir mörg mál til að sýna að Alþingi hefur haft það sem eitt af sínum aðalviðfangsefnum undanfarna áratugi að fást við kjarasamninga.

Ég ætla aðeins að minna á eitt einasta mál sem ég vona að allir muni eftir og allir skilji að var grundvallarmál á sínum tíma, eitt af þeim málum sem gjörbreyttu aðstöðu atvinnustétta í landinu. Það eru vökulögin. Því var vissulega haldið fram að þetta væri samningsatriði, þetta væri nokkuð sem ætti að fást við milli hinna svokölluðu aðila vinnumarkaðarins. Alþingi hefur afgreitt tugi og aftur tugi laga, fyrirmæla og þingsályktana sem snerta kaup og kjör og stöðu vinnandi fólks í landinu.

Þessi rök hv. allshn. standast alls ekki. Það eru þau sem gætu verið persónuleg skoðun nefndarmanna en alls ekki hitt að þeir séu í raun og veru í hjarta sínu sammála ályktuninni. Þeir bara vilja ekki lýsa yfir skoðun sinni af því að það hafa hvorki komið tilmæli um það frá BSRB né ofan úr Garðastræti. Ég held að það hefði verið miklu nær að hv. meiri hl. nefndarinnar hefði beint út sagt að hann væri andvígur þessu. Það hefði verið heiðarleg afstaða. Það hefði verið afstaða sem menn geta skilið. En að segja: Við erum með þessu en við viljum samt ekki fá það samþykkt - það er fráleitt. Það er nú einu sinni hlutverk alþm. að taka ákvarðanir í þeim málum sem snerta fólkið í þessu landi. Þetta mál er að vissu leyti prófsteinn á það hvort við viljum eitthvað í pólitík eða ekki. Það er í sjálfu sér ánægjulegt til þess að vita að á undanförnum árum hefur þetta hvað eftir annað komið upp og verið samþykkt og verið tekið tillit til þess. En ég tel fulla ástæðu til að Alþingi samþykki viljayfirlýsingu um þetta efni. Ég er sannfærður um að ríkisvaldið getur ekki á neinn hátt móðgast af því þó að Alþingi lýsi yfir þessum vilja sínum. Ég er viss um að ríkisstjórn Íslands muni taka það upp og framfylgja þessu ákvæði verði það samþykkt hér á hinu háa Alþingi.